Hoppa yfir valmynd
26. mars 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 128/2019 Úrskurður

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 26. mars 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 128/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19030002

 

Beiðni [...] um endurupptöku

I.             Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 62/2019, dags. 12. febrúar 2019, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. desember 2018, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fædd [...] og vera ríkisborgari Írak (hér eftir nefnd kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og vísa henni frá landinu. Fyrir liggur að dönsk yfirvöld hafa fallist á að taka við kæranda og umsókn hennar um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 18. febrúar 2019. Þann 25. febrúar 2019 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd með úrskurði nefndarinnar nr. 125/2019, dags. 16. mars sl.

Þann 1. mars sl. barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins og þann 11. mars sl. lagði kærandi fram greinargerð og fylgigögn vegna málsins.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hennar byggir aðallega á 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, þar sem ákvörðun í máli hennar hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Þá vísar kærandi, beiðni sinni til stuðnings, til 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Í greinargerð kæranda kemur fram að hún hafi flúið til Evrópu frá heimaríki sínu á barnsaldri. Hún hafi hins vegar ekki haft vegabréf sitt meðferðis og sé ómögulegt að leggja það fram. Hins vegar sé framlagt frumrit fæðingarvottorðs hennar og persónuskilríkja frá Írak, ásamt löggiltum þýðingum. Kærandi hafi dvalið á Íslandi frá því í ágúst sl. og hafi varið tíma hér á landi með unnusta sínum sem hún hafi kynnst í Danmörku. Unnusti hennar njóti alþjóðlegrar verndar hér á landi og sé með traust bakland hérlendis. Kærandi glími við nýrnabilun á lokastigi og sé því í viðkvæmri stöðu og fyrirséð að hún muni þurfa nýrnaígræðslu. Æðsta von hennar sé að geta varið framtíð sinni hér á landi með unnusta sínum. Þau hafi eytt miklum tíma saman frá því þau hafi kynnst árið 2017 og vonist til að geta varið ævinni saman.

Endurupptökubeiðni sinni til stuðnings vísar kærandi m.a. til þess að ákvörðun stjórnvalda í máli hennar hafi byggt á ófullnægjandi upplýsingum um stöðu hennar. Kærandi sé í sambúð með unnusta sínum sem njóti alþjóðlegrar verndar hér á landi. Því til stuðnings vísar kærandi til framlagðra ljósmynda af samverustundum þeirra tveggja hér á landi og í Danmörku. Framangreindar upplýsingar hafi ekki legið til grundvallar við ákvörðunartöku Útlendingastofnunar í máli hennar, en í ákvörðuninni sé byggt á því að ekkert bendi til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga í máli hennar. Kærandi telji að hún njóti stuðnings hérlendis og sé hér í öruggu umhverfi þar sem hún þurfi ekki að óttast um líf sitt. Ekki verði séð að þær upplýsingar hafi legið fyrir þegar ákvörðun hafi verið tekin í máli hennar.

Þá vísar kærandi til viðurkenndrar meginreglu í flóttamannarétti um einingu fjölskyldunnar, sem m.a. sé fjallað um í handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna. Þar komi m.a. fram að meginreglan um einingu fjölskyldunnar skuli að lágmarki ná til maka og ólögráða barna. Kærandi vísar þá til 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Enn fremur kveður kærandi að ekki hafi verið tekin afstaða til þess í ákvörðun Útlendingastofnunar að hún hafi ekki haft aðgang að talsmanni á fyrstu stigum máls síns í Danmörku.

Til stuðnings beiðni sinni vísar kærandi þá til þess að ákvörðun stjórnvalda í máli hennar hafi byggst á röngum upplýsingum um stöðu hennar. Í ákvörðun Útlendingastofnunar sé m.a. byggt á því að kærandi hafi ekki lagt fram gögn til að sanna á sér deili. Líkt og áður hafi verið rakið hafi kæranda verið ómögulegt að leggja fram vegabréf sitt en hún hafi aftur á móti lagt fram fæðingarvottorð sitt. Ákvörðun stofnunarinnar í máli hennar hafi því byggt á röngum upplýsingum um afar þýðingarmikið atriði og því beri að endurupptaka mál hennar.

Kærandi byggir á því að hún hafi sérstök tengsl við landið á grundvelli sambands síns við unnusta sinn, sem sé búsettur hér á landi. Tengslin séu af því tagi að þau ættu, ein og sér, að vera nægur grundvöllur fyrir veitingu dvalarleyfis. Vísar kærandi í því sambandi til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Með endurupptökubeiðni sinni lagði kærandi fram myndir af íröskum persónuskilríkjum og þýðingar á þeim, læknisvottorð frá Landspítala, dags. 14. desember sl., ljósmyndir af sér og unnusta sínum, afrit úr handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna og myndir af ferðaskírteini unnusta síns.

III.            Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 12. febrúar sl., var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Kærunefnd mat kæranda í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að kærandi hefði ekki slík tengsl við landið eða að aðstæður hennar væru að öðru leyti svo sérstakar að taka ætti umsókn hennar um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Svo sem fram hefur komið byggir kærandi endurupptökubeiðni sína á því að ákvörðun stjórnvalda í máli hennar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, einkum varðandi auðkenni kæranda og þar sem ekki hafi verið lagt til grundvallar að kærandi hafi tengsl hér á landi og eigi hér unnusta.

Hvað varðar athugasemdir kæranda við mat stjórnvalda á tengslum hennar við Ísland, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, ítrekar kærunefnd það sem fram kemur í úrskurði nefndarinnar frá 12. febrúar sl., þ.e. að lagt var til grundvallar við meðferð málsins að kærandi eigi kærasta hér á landi. Það var hins vegar mat kærunefndar að kærandi teldist ekki hafa slík tengsl við landið að beita bæri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga í máli hennar. Þá verður tekið fram, vegna athugasemda í greinargerð kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar, að kærunefnd hefur þegar endurskoðað ákvörðun stofnunarinnar í máli hennar.

Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði nefndarinnar frá 12. febrúar sl. og þau fylgigögn sem liggja fyrir í málinu, þ.e. persónuskilríki, þýðingar, læknisvottorð, ljósmyndir af kæranda og unnusta hennar o.fl. Þótt framangreind gögn hafi að einhverju leyti að geyma ítarlegri upplýsingar um atriði sem lágu fyrir þegar úrskurður í máli kæranda var kveðinn upp er það mat nefndarinnar að þau bendi ekki til þess að fyrri úrskurður nefndarinnar hafi verið byggður á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða atvik hafi breyst verulega að þessu leyti.

Í ljósi ofangreinds telur kærunefnd að þegar hafi verið tekin afstaða til málsástæðna og aðstæðna kæranda, sem hún ber fyrir sig í máli þessu, í úrskurði kærunefndar frá 12. febrúar 2019. Þá ítrekar kærunefnd það sem fram kom í áðurgreindum úrskurði nefndarinnar þess efnis að kærandi á rétt á viðhlítandi heilbrigðisþjónustu í Danmörku vegna veikinda sinna. Að teknu tilliti til frásagnar kæranda og gagna málsins, þ.m.t. þeirra gagna sem lögð voru fram með beiðni um endurupptöku, er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 12. febrúar 2019 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt. Kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.

Vegna athugasemda í greinargerð tekur kærunefnd fram að í lögum um útlendinga er kveðið á um heimildir einstaklinga til að öðlast rétt til dvalar hér á landi vegna fjölskyldutengsla við útlendinga sem dveljast hér á landi á grundvelli tiltekinna dvalarleyfa. Umsóknum um slík dvalarleyfi skal beina til Útlendingastofnunar. Með þessum leiðbeiningum hefur kærunefnd þó ekki tekið afstöðu til þess hvort kærandi geti uppfyllt skilyrði laga til að fá útgefið dvalarleyfi á þeim grundvelli.


 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

 

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                                             Árni Helgason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum