Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2019 Úrskurðir heilbrigðisráðuneytis, Heilbrigðisráðuneytið

Úrskurður nr. 12/2019

Úrskurður heilbrigðisráðuneytisins nr. 12/2019

Þriðjudaginn 19. nóvember 2019 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R

Með bréfi, dags. 26. apríl 2019, kærði A, lyf- og hjartalæknir, hér eftir nefndur kærandi, málsmeðferð Embættis landlæknis á kvörtun sjúklings sem beindist að kæranda.

I. Málsmeðferð ráðuneytisins.

Heilbrigðisráðuneytinu barst kæra, dags. 26. apríl 2019, með tölvubréfi sama dag, þar sem tilkynnt var að frekari rökstuðningur bærist á næstu dögum. Frekari rökstuðningur, dags. 21. maí 2019, barst með tölvupósti 22. maí 2019. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 22. maí 2019, var óskað eftir greinargerð Embættis landlæknis og gögnum málsins. Hinn 18. júní 2019 barst umsögn Embættis landlæknis ásamt gögnum með bréfi, dags. 11. júní 2019, og var hún send kæranda með tölvubréfi ráðuneytisins 20. júní 2019, þar sem honum var gefinn kostur á að gera athugasemdir við umsögnina. Með tölvupósti Læknafélags Íslands 4. júlí 2019 til ráðuneytisins var óskað eftir fresti til að koma athugasemdum á framfæri og var hann veittur til 16. júlí 2019. Það misfórst að senda athugasemdir á netfang ráðuneytisins svo athugasemdir kæranda, dags. 12. júlí 2019, bárust ekki fyrr en 7. ágúst 2019. Var Embætti landlæknis þá gefinn kostur á að koma athugasemdum á framfæri við þær með tölvupósti sama dag. Hinn 12. ágúst 2919 bárust frekari athugasemdir embættisins sem voru sendar kæranda til kynningar með tölvupósti sama dag.

II. Málsástæður og lagarök kæranda.

Í rökstuðningi með kæru, dags. 21. maí 2019, kemur fram að kærð sé málsmeðferð Embættis landlæknis á kvörtun sjúklings sem beindist að kæranda. Álit landlæknis sé dagsett 23. janúar 2019.

Kærandi bendir á að annars vegar segi í 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, að landlæknir skuli að jafnaði afla umsagnar frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum þegar kvörtun lýtur að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð. Fyrir liggi að Embætti landlæknis leitaði til B læknis sem hafi gefið þá umsögn sem andmæli kæranda beinist meðal annars að. Kærandi telji fráleitt að Embætti landlæknis leiti til læknis í tilvikum sem þessum sem fullnægi ekki skilyrðum til að starfa á stofu og sem til viðbótar hafi fyrir allmörgum árum síðan farið á eftirlaun. Kærandi hafi fjallað nánar um þessa athugasemd sína í andmælum til embættisins en ekki sé að sjá að nokkuð hafi verið tekið tillit til þeirra. Þetta atriði telji kærandi ákveðið kjarnaatriði í þessu máli, þ.e. að hinn óháði sérfræðingur skuli ekki fær um að sinna því starfi sem verið sé að fjalla um. Það sjái kærandi ekki hvernig standist rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.

Hins vegar hafi það verið niðurstaða hins óháða sérfræðings að kæranda hafi borið að grennslast eftir því hvað hafi komið út úr blóðrannsókn sem annar heilbrigðisstarfsmaður hafi kallað eftir. Embætti landlæknis hafi tekið undir þetta og sagt í niðurstöðu sinni að landlæknir teldi ljóst að kærandi hefði vanrækt læknisskyldur sínar er hann hefði látið hjá líða að grennslast fyrir um niðurstöður blóðrannsókna sem hafi sýnt verulega ofstarfsemi skjaldkirtils. Eins og rakið hafi verið í andmælum kæranda til landlæknis telji hann að hér sé verið að leggja á hann ábyrgð sem ekki sé hægt að láta hann bera ábyrgð á. Það liggi fyrir að það hafi orðið mistök á Landspítala vegna þessarar blóðrannsóknar og útilokað að velta ábyrgð af þeim mistökum einnig yfir á kæranda að hans mati. Kærandi minni á að hann hafi bæði símleiðis og bréfleiðis haft samband við viðkomandi sjúkling, ekki náð í hann og sjúklingurinn ekki svarað. Þar með telji kærandi að sér hafi í raun verið óheimilt að aðhafast meira og aðgangur kæranda að sjúkraskrá sjúklingsins og rannsóknarniðurstöðum hjá Landspítala verið óheimill. Um þetta hafi kærandi fjallað einnig nánar í andmælum sínum.

Kærandi kveðst að lokum kæra þessa niðurstöðu landlæknis því hann telji skipta miklu máli fyrir sérfræðilækna á eigin stofum að vita hver séu mörk ábyrgðar þeirra gagnvart sjúklingum sem séu einnig til læknismeðferðar annars staðar. Kærandi telji jafnframt að Embætti landlæknis hafi seilst alltof langt með því hvernig það hafi velt yfir kæranda ábyrgð á mistökum starfsmanna Landspítala.

III. Málsástæður og lagarök Embættis landlæknis.

Í umsögn Embættis landlæknis, dags. 11. júní 2019, er á það bent að kæran byggist á 6. mgr. 12. gr. um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007.

Landlæknir bendir á að skv. 5. mgr. 12. gr. laganna skuli landlæknir að jafnaði afla umsagnar óháðs sérfræðings eða sérfræðinga þegar kvörtun lúti að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð. Embætti landlæknis hafi leitað til B hjartalæknis og liggi umsögn hans fyrir í málinu, dags. 4. september 2018. Í kæru hafi verið gerðar athugasemdir við að embættið hafi leitað til umrædds læknis sem óháðs sérfræðings þar sem hann sé kominn á eftirlaun og fullnægi ekki skilyrðum til að starfa á stofu. Sömu athugasemdir hafi raunar komið fram af hálfu kæranda undir meðferð málsins.

Landlæknir greinir frá því að hinn óháði sérfræðingur sé 84 ára, hafi enn starfsleyfi sem læknir og auk þess sérfræðileyfi í almennum lyflækningum og hjartalækningum. Landlæknir hafi engar upplýsingar eða vísbendingar um að sérfræðingurinn hafi skerta starfsgetu. Ekkert hafi komið fram í kæru eða andmælum kæranda við málsmeðferðina, sem styðji að sérfræðingurinn sé, vegna annarra takmarkana en aldurs í árum, ófær um að gefa umsögn í máli sem snúi að skyldum og ábyrgð sérfræðings í sömu sérgrein og hann hafi að minnsta kosti fjögurra áratuga reynslu af að starfa við.

Undir meðferð kvörtunarmálsins hafi sérfræðingurinn sjálfur svarað andmælum kæranda varðandi aldur umsagnaraðila á þá leið að eðlilegt sé að landlæknir eigi kost á andsvari um meint vanhæfni sérfræðingsins til að fjalla um álitamál í heilbrigðisþjónustu. Fyrir því liggi raunar varla nokkur rök nema aldur sérfræðingsins. Hann hafi frá upphafi ferils síns lagt sérstaka stund á símenntun og hvatt starfsmenn hjartadeildar Landspítalans til hins sama. Frá starfslokum sem yfirlæknir og prófessor í hjartasjúkdómafræði á Landspítalanum hafi sérfræðingurinn borið íslenskar þýðingar saman við frumtexta nýskráðra lyfja fyrir Lyfjastofnun þar til fyrir ári síðan. Þá hafi hann í tæp 50 ár verið áskrifandi að New England Journal of Medicine. Sömuleiðis hafi sérfræðingurinn sérstakan netaðgang að tímaritum um hjartasjúkdómafræði, meðal annars Heart, JACC, European Heart Journal o.fl. Hann sé meðlimur British Cardiovascular Society (BCS), sæki árlega Læknadaga, Lyflæknaþing og flesta fræðslufundi Hjartasjúkdómafélags íslenskra lækna. Þá hafi sérfræðingurinn sótt flesta ársfundi BCS í Bretlandi frá starfslokum og skrifað nokkrar ritrýndar greinar í Læknablaðið undanfarin ár.

Raunar snúist þetta mál ekki um túlkun á vandasömum álitamálum læknisvísinda, heldur hið aldagamla álitamál, hver sé ábyrgð læknis í samskiptum við skjólstæðinga sem sýni honum eðlilegt og skyldugt trúnaðartraust.

Ferill hins óháða sérfræðings sé vel kunnur. Hann hafi á starfstíma sínum verið í forystu íslenskra hjartalækninga og sé þekktur fyrir vandaða faglega vinnu og fræðimennsku. Í gerð og frágangi umræddrar umsagnar sé ekkert að finna sem bendi til þess að um glöp, andlega truflun, vitsmunalega vangetu eða aðra ágalla gæti verið að ræða hjá þeim sem hana riti. Þvert á móti sé umsögnin skýr, greinargóð og án ritvillna, rökgalla eða þekkingarlegra ágalla.

Embætti landlæknis sinnir lögbundnu hlutverki við eftirlit með heilbrigðisþjónustu. Mikilvægt sé að embættið geti leitað til sérfræðinga með mikla reynslu og haldbæra faglega þekkingu, sérstaklega þegar viðeigandi sérfræðiþekkingu sé ekki fyrir að fara á meðal starfsmanna þess. Reynsla og haldbær þekking haldist eðlilega í hendur við aukinn starfsaldur (og aldur). Að mati landlæknis fáist það ekki staðist að ganga út frá því að hæfni til að veita sérfræðilegar umsagnir af því tagi sem hér um ræði falli sjálfkrafa niður við formleg starfslok hjá hinu opinbera eða við tiltekinn afmælisdag. Vegna staðhæfinga í kæru um að hinn óháði sérfræðingur fullnægi ekki skilyrðum til að starfa á stofu sé rétt að benda á að í 26. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, sé fjallað um aldursmörk heilbrigðisstarfsmanna til að veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu. Þar komi fram að landlækni sé heimilt, að fenginni umsókn, að veita heilbrigðisstarfsmönnum undanþágu til að reka eigin starfsstofu eftir að 75 ára aldri sé náð. Um skilyrði sem þurfi að uppfylla til að fá slíka undanþágu sé fjallað í reglugerð nr. 620/2014. Það sé því rangt að ganga út frá því að hinn óháði sérfræðingur fullnægi ekki skilyrðum til að starfa á stofu sökum aldurs. Hann hafi aldrei rekið eigin starfsstofu og aldrei sóst eftir því.

Til hliðsjónar megi líta til þess hvernig málum hátti til hjá dómstólum sem iðulega kalli til sérfróða aðila við úrlausn mála. Í lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, sé ákvæði um dómkvadda matsmenn. Af 3. mgr. 61. gr. laganna megi ráða að matsmenn verði að vera hæfir og a.m.k. 20 ára gamlir en ekkert sé kveðið á um hámarksaldur. Fjölmörg dæmi sé að finna um dómkvadda matsmenn og meðdómendur sem lokið hafi sínu ævistarfi vegna aldurs en fengnir til starfa vegna mikillar og haldbærrar reynslu og þekkingar á því sérfræðisviði sem um ræði hverju sinni.

Í kæru hafi jafnframt verið gerðar athugasemdir við nánar tiltekin atriði í niðurstöðu hins óháða sérfræðings. Að mati landlæknis sé hér ekki um að ræða atriði er lúti að málsmeðferð embættisins í kvörtunarmálinu og séu því af þeim sökum ekki kæranleg til ráðuneytisins skv. 6. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu.

Með vísan til framangreinds sé það mat landlæknis að málsmeðferð embættisins hafi verið fyllilega í samræmi við kröfur 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, sbr. ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sem og óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttarins. Að mati landlæknis var B hæfur til þess að veita umsögn sem sérfræðingur í umræddu kvörtunarmáli.

IV. Athugasemdir kæranda.

Í athugasemdum sínum ítrekar kærandi að hann telji það óviðunandi að sá sérfræðingur sem Embætti landlæknis hafi leitað til sé löngu hættur störfum. Í því felist hvorki óvirðing við þann sérfræðing sem um ræðir né að læknisfræðileg þekking hans sé dregin í efa heldur snúist málið um það hvað tíðkist í störfum sérfræðinga á stofu.

Þá kveðst kærandi ekki hafa vitað það að hinn óháði sérfræðingur hafi aldrei unnið sem sjálfstætt starfandi sérfræðingur, en hafði verið þess fullviss að hann hefði unnið á stofu en væri hættur því sökum aldurs.

Kærandi telji þá staðreynd að umræddur sérfræðingur hafi aldrei unnið á stofu skipti miklu máli í huga kæranda því það þýði að viðkomandi sérfræðingur sé ekki kunnugur vinnubrögðum sjálfstætt starfandi lækna, til dæmis í þeim tilvikum sem sjúklingur svarar ekki skilaboðum þannig að ekki náist til hans. Kærandi telji sig hafa brugðist við í máli þessu með þeim hætti sem allir sjálfstætt starfandi læknar hefðu gert. Kærandi fullyrði að enginn sérfræðingur á stofu hefði gert það sem sérfræðingur Embættis landlæknis telji að kæranda hefði borið að gera þegar fyrir lá að sjúklingurinn hafi ekki látið kæranda lengur ná í sig.

Kæranda hafi frá upphafi verið óljóst á hverju sérfræðingurinn hafi byggt fullyrðingar sínar um það með hvaða hætti kærandi hefði átt að bregðast við í máli þessu. Upplýsingar um það í umsögn embættisins að hann hafi aldrei unnið á stofu leiði hins vegar í ljós að hann byggi hana ekki á eigin reynslu af slíkum rekstri og samskiptum við sjúklinga. Þetta telji kærandi mikilvægt og grundvallaratriði.

Kærandi telji engu skipta þó umræddur sérfræðingur hafi viðhaldið menntun sinni með þeim hætti sem hann hafi rakið og endurtekið sé í umsögn embættisins. Það sem skipti máli og kærandi hafi margsinnis bent á sé að sérfræðingurinn hafi ekki sinnt sjúklingum síðastliðin 14 ár og aldrei sinnt sjúklingum á eigin starfsstofu.

Kærandi telji sig eiga kröfu á jafningjamati varðandi það atriði sem um ræði í máli þessu. Þá telji hann að sérfræðingur sem aldrei hafi starfað á stofu geti ekki verið jafningi í þessum skilningi.

Þá sakni kærandi þess að sjá ekki í umsögn Embættis landlæknis umfjöllun um það að kærandi hafi bæði haft símleiðis og bréfleiðis samband við viðkomandi sjúkling, ekki náð í hann og sjúklingurinn ekki svarað. Þar með telji kærandi að sér hafi í raun verið óheimilt að aðhafast meira og aðgangur hans að sjúkraskrá sjúklingsins og rannsóknaniðurstöðum hjá Landspítalanum verið óheimill. Um þetta hafi kærandi fjallað í andmælum sínum til embættisins án þess að það virðist hafa verið skoðað. Telji kærandi að þar skorti á að rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki verið sinnt sem skyldi.

Loks ítrekar kærandi það að hann telji Embætti landlæknis hafa seilst alltof langt með því hvernig stofnunin hafi velt yfir á kæranda ábyrgð á mistökum starfsmanna Landspítala. Að öðru leyti vísar kærandi til gagna málsins og áréttar þá kröfu sína að málinu verði á ný vísað til embættisins til nýrrar meðferðar og umsagnar sérfræðings sem þekkir til vinnubragða sem reyni á í þessu máli.

V. Athugasemdir Embættis landlæknis.

Í athugasemdum landlæknis, dags. 12. ágúst 2019, er vísað til umsagnar embættisins um þætti er varða hæfi hins óháða sérfræðings sem leitað hafi verið til vegna umsagnar um efnisatriði kvörtunar. Athugasemdir kæranda snúi í mörgu að því og telji Embætti landlæknis því mikilvægt að árétta að umsögn óháðs sérfræðings sem aflað hafi verið á grundvelli 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu sé höfð til hliðsjónar en landlæknir sé ekki bundinn af slíkri umsögn og ræður hún ekki sjálfkrafa úrslitum við niðurstöðu máls. Álit landlæknis er fagleg niðurstaða, sem byggir á upplýsingaöflun og rannsókn embættisins, og er unnin í samvinnu teymis sérfræðinga embættisins og landlæknis sjálfs, með hliðsjón af umsögn óháðs sérfræðings, liggi slík umsögn fyrir. Við álitsgerð í máli því sem hér um ræðir voru sérfræðingar embættisins og landlæknir sammála niðurstöðu hins óháða sérfræðings sem veitti embættinu umsögn um málið. Að öðru leyti vísast til umsagnar embættis landlæknis, dags. 11. júní 2019, og álits Embættis landlæknis, dags. 23. janúar 2019.

VI. Niðurstaða.

Mál þetta lýtur að málsmeðferð Embættis landlæknis skv. 6. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, en þess er annars vegar krafist að viðurkennt verði að hinn óháði sérfræðingur sem landlæknir aflaði umsagnar frá hafi verið ófær um að sinna því hlutverki og þannig hafi málsmeðferð embættisins ekki staðist rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Hins vegar að viðurkennt verði að niðurstaða Embættis landlæknis hafi verið röng þar sem fullyrt hafi verið að kærandi hafi vanrækt læknisskyldur sínar, en hann telur að mistökin hafi orðið á Landspítalanum. Krefst kærandi þess að ráðuneytið kveði upp úrskurð þess efnis að málinu verði vísað á ný til embættisins til nýrrar meðferðar og umsagnar annars sérfræðings sem þekki til vinnubragða sem á reyni í máli þessu.

Í 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu er fjallað um kvartanir til landlæknis. Í 5. mgr. kemur fram að landlæknir skuli að jafnaði afla umsagnar frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum þegar kvörtun lúti að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð. Sé viðkomandi sérfræðingum, svo og landlækni sjálfum, rétt að kalla sjúkling til skoðunar ef sérstök ástæða þyki til. Um meðferð kvartana gildi að öðru leyti ákvæði stjórnsýslulaga eftir því sem við geti átt. Að lokinni málsmeðferð gefi landlæknir skriflegt álit. Landlæknir skuli í áliti sínu tilgreina efni kvörtunarinnar, málsatvik og rök fyrir niðurstöðu sinni. Aðalniðurstöðu skuli draga saman í lok álits. Loks segir í 6. mgr. sömu greinar að heimilt sé að kæra málsmeðferð landlæknis samkvæmt ákvæði þessu til ráðherra.

Kærandi heldur því fram að hinn óháði sérfræðingur sem Embætti landlæknis hafi aflað umsagnar frá hafi ekki verið hæfur til starfans þar sem hann annars vegar fullnægði ekki skilyrðum til að starfa á stofu og hins vegar auk þess kominn á eftirlaun. Í andmælum kæranda tekur hann fram að sú staðreynd að hinn óháði sérfræðingur hafi ekki unnið á stofu hafi skipt miklu máli því hann sé því ekki kunnugur vinnubrögðum sjálfstætt starfandi lækna. Jafnframt heldur kærandi því fram að hinn óháði sérfræðingur hafi verið ófær um að sinna því starfi sem hafi verið til umfjöllunar í málinu hjá Embætti landlæknis og að það hafi ekki staðist rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.

Í umsögn Embættis landlæknis er rakinn ferill hins óháða sérfræðings sem er orðinn 84 ára og hefur enn starfsleyfi sem læknir, auk þess sérfræðileyfi í almennum lyflækningum og hjartalækningum. Meðal þess sem í umsögninni kemur fram er að ekkert bendi til að hann hafi ekki hæfni til sinna hlutverki óháðs sérfræðings aldurs vegna, svo sem rakið er í umsögninni. Þá fékk hinn óháði sérfræðingur sömuleiðis að svara andmælum kæranda um aldur sinn.

Umfjöllun ráðuneytisins varðandi hæfni hins óháða sérfræðings lýtur að því hvort landlæknir hafi farið að lögum og gætt að almennum kröfum stjórnsýsluréttarins við meðferð málsins. Í 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu er kveðið á um það skilyrði varðandi val á sérfræðingi að hann skuli vera óháður. Gögn málsins gefa ekki annað til kynna en að viðkomandi sérfræðingur hafi verið óháður og hefur kærandi heldur ekki haldið því fram að kærandi hafi ekki verið óháður. Þrátt fyrir að önnur almenn hæfisskilyrði sé ekki að finna í lögum um landlækni og lýðheilsu verður að líta til þess að meginreglur stjórnsýsluréttarins og stjórnsýslulög, nr. 37/1993, gilda um málsmeðferð landlæknis eftir því sem við á, sbr. 5. mgr. 12. laga um landlækni og lýðheilsu. Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Álitsumleitan líkt og mælt er fyrir um í 1. málsl. 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu er liður í rannsókn stjórnvalds á máli. Af því leiðir að almennt verður að gera þá kröfu að sá sérfræðingur sem landlæknir leitar til á grundvelli ákvæðisins geti, svo sem vegna menntunar og sérfræðiþekkingar, orðið landlækni að liði í að upplýsa viðkomandi mál. Í því felst einnig að hann þarf að vera svo kominn á sig andlega og líkamlega að hann geti rækt verkefnið á fullnægjandi hátt. Hins vegar bendir ráðuneytið á, vegna athugasemda kæranda, að umsagnaraðilinn fellur ekki undir lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, sbr. 1. mgr. 1. gr. þeirra, og þar af leiðandi heldur ekki reglur laganna um að starfsmaður eða embættismaður skuli ekki starfa fram yfir sjötugsaldur. Enn fremur gildi ekki lög um heilbrigðisstarfsmenn um umsögn umsagnaraðilans þar sem settar eru tilteknar takmarkanir á því að læknar starfi á eigin stofu eftir 75 ára aldur. Það verður því ekki séð að landlæknir hafi ekki getað leitað til umrædds umsagnaraðila vegna aldurs hans.

Af framanröktu leiðir að það er breytilegt eftir málsatvikum hverju sinni hvaða kröfur gera verður til sérþekkingar umsagnaraðila og ræðst fyrst og fremst af því um hvað óskað er eftir að hann veiti umsögn. Þá þarf einnig að líta til þess að umsögn er ekki bindandi fyrir landlækni og embættinu því ætlað lögum samkvæmt að leggja sjálfstætt efnislegt mat á málið þótt það leiti umsagnar óháðs sérfræðings. Ágreiningur málsins hjá Embætti landlæknis laut einkum að því hvort kærandi hefði vanrækt læknisskyldur sínar er hann lét hjá líða að grennslast fyrir um niðurstöður blóðrannsóknar sjúklings og í því sambandi hvernig ábyrgð hafi skipst milli hans, sem sjálfstætt starfandi læknis á eigin stofu, og Landspítalans þar sem blóðrannsóknin var framkvæmd.

Embætti landlæknis hefur sýnt fram á að val á óháðum sérfræðingi fór fram að vel rannsökuðu máli, enda ferill hans langur og hann þekktur fyrir vandaða faglega vinnu og fræðimennsku. Að virtum þeim upplýsingum sem liggja fyrir um umræddan umsagnaraðila verður því að ætla að hann hafi getað veitt umsögn á grundvelli sérfræðiþekkingar sinnar og reynslu í læknisfræði um ágreiningsefni málsins sem var til þess fallin að upplýsa það. Ekki er því unnt að fallast á að Embætti landlæknis hafi ekki uppfyllt ákvæði 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu og 10. gr. stjórnsýslulaga við val á óháðum sérfræðingi eða að rannsókn málsins hafi að öðru leyti verið ábótavant.

Samkvæmt 6. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu er heimilt að kæra málsmeðferð landlæknis til ráðuneytisins. Sem fyrr segir varðar umfjöllun ráðuneytisins því eingöngu hvort landlæknir hafi farið að lögum og gætt málsmeðferðarreglna stjórnsýslulaga og laga um landlækni og lýðheilsu við meðferð málsins. Er því ekki unnt að taka til skoðunar þann hluta kæru á grundvelli 12. gr. laganna er lýtur að efnislegri niðurstöðu Embættis landlæknis og beindist einkum að því hvort í niðurstöðu embættisins hafi verið lögð ábyrgð á kæranda sem ekki sé hægt að láta hann bera.

Með vísan til alls framangreinds er hin kærða málsmeðferð Embættis landlæknis staðfest. Að því leyti sem kæran laut að efnislegri niðurstöðu embættisins er henni vísað frá ráðuneytinu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Málsmeðferð Embættis landlæknis er staðfest. Kæru á efnislegri niðurstöðu embættisins er vísað frá.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum