Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2019 Forsætisráðuneytið

Katrín Jakobsdóttir tók þátt í Heimsþingi kvenleiðtoga og í viðburði á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra ásamt Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrum forseta Íslands og Daliu Grybauskaitė, fyrrum forseta Litháen - mynd

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, flutti lokaávarp á Reykjavík Global Forum – heimsþingi kvenleiðtoga í Hörpu í dag. Í lokaávarpi sínu áréttaði forsætisráðherra mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu til að takast á við stærstu áskoranir samtímans, einkum loftslagsbreytingar, ójafnrétti og ójöfnuð. Vakti hún sérstaklega athygli á heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti en það er markmið sem margir telja að flest ríki heims eigi lengst í land með.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Alþjóðleg samvinna er eina leiðin til að takast á við stærstu áskoranir samtímans. Við náum ekki friði, jafnrétti og jöfnuði hvert í sínu horni og loftslagsvandinn virðir ekki manngerð landamæri. Í því samhengi má sækja ýmislegt í smiðju kvenna sem víða um heim hafa langa hefð fyrir því að sameinast um mikilvæg viðfangsefni þvert á pólitískar línur og þvert á landamæri. Heimurinn þarf á slíkri hugsun og slíku hugrekki að halda, sennilega meira en nokkru sinni fyrr.“

Forsætisráðherra tók einnig þátt í viðburði um tungumál, jafnrétti og menningu á vegum Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum í gærkvöldi ásamt Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrum forseta Íslands, Juliu Gillard, fyrrum forsætisráðherra Ástralíu, Daliu Grybauskaitė, fyrrum forseta Litháen, og Irmu Erlingsdóttur, dósent og forstöðumanni Alþjóðlegs jafnréttisskóla við Háskóla Íslands. Á næsta ári verða fjörutíu ár liðin frá kjöri Vigdísar Finnbogadóttur til forseta Íslands og hefur ríkisstjórn Íslands, í samvinnu við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Háskóla Íslands, ákveðið að setja á laggirnar alþjóðleg verðlaun til heiðurs Vigdísi. Verðlaunin verða veitt einstaklingum sem hafa skarað fram úr með störfum sínum í þágu menningar og þá einkum tungumála.

Katrín Jakobsdóttir:

„Markmiðið með Vigdísarverðlaununum er að lyfta störfum og rannsóknum í þágu menningar og tungumála, en þetta eru þau málefni sem frú Vigdís Finnbogadóttir setti á oddinn í sinni forsetatíð. Vigdís var um margt á undan sinni samtíð. Hún var með þeim fyrstu til að vekja athygli á umhverfismálum og náttúruvernd og samspili umhverfismála og jafnréttismála. Á þeim tímamótum sem við fögnum á næsta ári er við hæfi að horfa um öxl og þakka fyrir framlag Vigdísar, en einnig að stilla saman strengi til framtíðar og halda áfram, í hennar anda, að efla tungumálaþekkingu og menningarstarf.“


  • Forsætisráðherra á heimsþingi kvenleiðtoga - mynd
  • Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra ásamt Daliu Grybauskaitė, fyrrum forseta Litháen - mynd
  • Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra ásamt Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, formaður framkvæmdastjórnar WPL og Sylviane Koch, forseti WPL - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna
10. Aukinn jöfnuður

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum