Hoppa yfir valmynd
23. júlí 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 264/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 23. júlí 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 264/2020

í stjórnsýslumálum nr. KNU20060007 og KNU20060008

 

Beiðni [...], [...] og barns þeirra um endurupptöku

 

I. Málsatvik

Þann 8. október 2019 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar frá 5. júní 2019 um að synja einstaklingum er kveðast heita [...], fd. [...], (hér eftir K), og [...], fd. [...], vera ríkisborgarar Íraks (hér eftir M) ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 5. júní 2019 um að synja kærendum og barni þeirra, [...] fd. [...], ríkisborgari Íraks, um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.

Niðurstaða kærunefndar var birt kærendum þann 14. október 2019. Þann 21. október sama ár lögðu kærendur fram beiðni um endurupptöku málsins. Jafnframt var óskað eftir frestun réttaráhrifa. Þann 28. nóvember 2019 var beiðni um endurupptöku málsins synjað.

Þann 4. júní 2020 lögðu kærendur fram að nýju beiðni um endurupptöku málsins ásamt fylgigögnum. Beiðni kærenda um endurupptöku málsins byggir á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærendur krefjast þess jafnframt að þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, m.t.t. 32. gr. d reglugerðar nr. 540/2017, sbr. reglugerð nr. 122/220 um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017.

II. Málsástæður og rök kærenda

Kærendur byggja beiðni sína um endurupptöku á 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga en þau telja að ákvörðun í máli þeirra hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik auk þess sem að atvik hafi breyst verulega frá því úrskurður kærunefndar var kveðinn upp.

Í beiðni um endurupptöku kemur fram að kærendur hafi komið hingað til lands 8. október 2018 og lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd sama dag. Barn kærenda hafi fæðst hér á landi þann [...] og byggja kærendur á því að barnið hafi því verið hér á landi án endanlegrar niðurstöðu stjórnvalda í máli sínu í rúmlega 16 mánuði. Kærendur vísa til þess að með reglugerð nr. 122/2020, um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, hafi tekið í gildi ný lagagrein í ákvæði 32. gr. d. Í 2. mgr. 1. gr. 32. gr. d sé kveðið á um að heimilt sé að veita barni, sem sótt hafi um vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 16 mánaða frá því að það sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi, dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, að uppfylltum öðrum skilyrðum. Í því sambandi vísa kærendur til þess að reglugerð nr. 122/2020 hafi tekið gildi 17. febrúar sl. og hafi hún m.a. komið í veg fyrir að nánar tilgreint barn sem hafi verið umsækjandi um alþjóðlega vernd ásamt foreldrum sínum yrði vísað úr landi. Kærendur vísa jafnframt til úrskurðar kærunefndar útlendingamála í máli KNU17060055. Í því máli hafi kona, sem hafi verið umsækjandi um alþjóðlega vernd, fætt barn hér á landi. Hafi barninu verið veitt alþjóðleg vernd í samræmi við þágildandi 18 mánaða reglu og þá hafi móður barnsins verið veitt alþjóðleg vernd á grundvelli meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar. Kærendur telja að aðstæður í máli þeirra séu svipaðar og í framangreindu máli og að ákvæði reglugerðar nr. 122/2020 eigi að ná yfir aðstæður barns þeirra og að veita beri barni þeirra dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Með beiðni um endurupptöku lögðu kærendur fram afrit af frétt sem birtist á netmiðli þann 2. febrúar 2020. Í fréttinni kemur m.a. fram að dómsmálaráðherra hafi frestað brottvísun barna sem hafi verið lengur en 16 mánuði í málsmeðferð vegna umsóknar um alþjóðlega vernd hjá íslenskum stjórnvöldum.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Kærendur lögðu fram umsókn um vernd hér á landi þann 8. október 2018, en þeim fæddist barn hér á landi þann [...]. Með úrskurði kærunefndar í máli kærenda, dags. 8. október 2019 var komist að þeirri niðurstöðu að kærendur og barn þeirra uppfylltu ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ættu þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kærenda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri kærendum og barni þeirra dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá var beiðni kærenda um endurupptöku á máli þeirra hafnað með úrskurði kærunefndar þann 28. nóvember 2019.

Kærendur byggja beiðni um endurupptöku á máli þeirra á því að á grundvelli reglugerðar um útlendinga nr. 122/2020, um breytingu á reglugerð nr. 54/2017, beri að endurupptaka mál þeirra þar sem að barn þeirra sem fæðst hafi hér á landi 24. janúar 2019 og hafi þannig verið í rúmlega 16 mánuði hér á landi án endanlegrar niðurstöðu stjórnvalda í máli sínu.

Þann 17. febrúar setti dómsmálaráðherra reglugerð nr. 122/2020 um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017. Í 3. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar kemur fram að „[þ]rátt fyrir 1. málsl. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita barni, sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 16 mánaða frá því að það sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi, dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, að uppfylltum öðrum skilyrðum.“

Eins og fram hefur komið lögðu kærendur fram umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi þann 8. október 2018. Þá eignuðust þau barn þann 24. janúar 2019. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála í máli þeirra var birt þeim þann 14. október 2019, eða rétt rúmum 12 mánuðum eftir að þau sóttu um alþjóðlega vernd. Lá þá fyrir endanleg niðurstaða málsins á stjórnsýslustigi í skilningi síðastnefnds ákvæðis reglugerðar um útlendinga. Er þegar af þeirri ástæðu ljóst að barn kærenda uppfyllir ekki skilyrði ofangreindrar reglugerðar til dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kærunefnd telur því að reglugerð nr. 122/2020 leiði ekki til þess að aðstæður kærenda og barns þeirra teljist hafa breyst verulega í skilningi 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá telur kærunefnd að ekkert bendi til þess að önnur þróun í málaflokknum leiði til þess að heimilt sé að endurupptaka mál kærenda og barns þeirra.

Kærunefnd telur jafnframt að tilvísun kæranda til úrskurðar kærunefndar í máli KNU17060055 frá 31. ágúst 2017 hafi ekki þýðingu fyrir þetta mál enda málin ekki sambærileg. Í tilvísuðu máli hafði fyrri úrskurður kærunefndar verið endurupptekinn þar sem aðstæður kæranda höfðu breyst verulega og nýr úrskurður var kveðinn upp. Sá 18 mánaða frestur sem vísað er til í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga miðaðist því við dagsetningu nýs úrskurðar. Í því máli sem hér er til umfjöllunar hafa aðstæður kærenda ekki breyst verulega og því stendur fyrri úrskurður nefndarinnar. Málinu telst því hafa verið lokið á stjórnsýslustigi innan þess 16 mánaða frests sem reglugerð nr. 122/2020 mælir fyrir um.

Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að atvik í máli kærenda hafi breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar frá 14. nóvember 2019 var birtur, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Samantekt

Að framangreindu virtu ert það því mat kærunefndar að atvik í máli kærenda hafi ekki breyst verulega þannig að taka beri mál þeirra upp að nýju á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er ekkert sem bendir til þess að niðurstaða í máli kærenda og barns þeirra hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Með vísan til alls framangreinds er það mat kærunefndar að hafna beri beiðni kærenda um endurupptöku málsins.

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kærenda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellants to re-examine their case is denied.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                     Bjarnveig Eiríksdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum