Hoppa yfir valmynd
19. september 2000 Utanríkisráðuneytið

Nr. 064, 19. september 2000. Ráðsfundur EES í Brussel

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________

Nr. 064


Haustfundur ráðherraráðs Evrópska efnahagssvæðisins var haldinn í Brussel í dag undir stjórn Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, en Ísland er í formennsku fyrir Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA) síðari árshelming. Auk ráðherra frá Liechtenstein og Noregi sótti þríeyki Evrópusambandsins fundinn, utanríkisráðherra Frakklands og aðstoðarutanríkisráðherra Svíþjóðar, auk framkvæmdarstjóra ESB á sviði utanríkismála og háttsetts fulltrúa ESB.

Á fundinum var skipst á skoðunum um ástand og horfur í Rússlandi í tengslum við Norðlæga vídd ESB, fjallað um framkvæmd EES-samningsins, eflingu öryggis í olíuflutningum á sjó og hugsanlega þátttöku Íslands, Liechtenstein og Noregs í framkvæmd ákvarðana leiðtogafundar ESB í Lissabon. Síðastnefndi málaflokkurinn varðar m.a. eflingu netvædds upplýsingasamfélags í Evrópu (e-Europe).

Í ávarpi um framkvæmd EES-samningsins sagði Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, m.a. að nú þegar sjö ár væru liðin frá gildistöku hefði samningurinn sannað gildi sitt, einkum á viðskiptasviðinu með tryggingu aðgangs að innri markaðnum. Samningurinn væri umgjörð samstarfs sem byggðist á sameiginlegu gildismati og sameiginlegri löggjöf. Á hinn bóginn hefði ESB þróast áfram á þessum tíma og fengist í vaxandi mæli við viðfangsefni sem væru utan við ákvæði samningsins en vörðuðu beinlínis hagsmuni EFTA/EES-ríkjanna. Sem dæmi mætti nefna utanríkis- og öryggismál, myntbandalag og samstarf á sviði ýmissa innanríkismála. Utanríkisráðherra benti á mikilvægi þess að EFTA/EES-ríkin fengju fullnægjandi upplýsingar um stækkunarferli ESB, enda myndu ný aðildarríki jafnframt gerast aðilar að EES, og vakti athygli á nauðsyn þess að EFTA/EES-ríkin gætu lagt af mörkum til umfjöllunar Evrópuþingsins um mál sem vörðuðu framkvæmd EES-samningsins. Í framhaldi af ofangreindu lýsti hann áhuga á því að kanna í samstarfi við framkvæmdarstjórn ESB hvernig betur mætti nýta EES-samninginn til að efla samstarfið enn frekar.

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, átti einnig tvíhliða fundi með Verheugen, framkvæmdarstjóra ESB á sviði stækkunarmála, og Solana, háttsettum fulltrúa ESB. Á fyrri fundinum var fjallað um áhrif fjölgunar aðildarríkja ESB á framkvæmd EES-samningsins, en á síðari fundinum um framkvæmd niðurstaðna leiðtogafundar ESB í Feira um evrópsk öryggis- og varnarmál.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 19. september 2000.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum