Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Öflugur stuðningur við rannsóknir og nýsköpun í nýrri fjármálaáætlun

Framlög til rannsókna, þróunar og nýsköpunar hækka um rúmlega 30 ma.kr. í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í vikunni. Á árunum 2023-2027 er gert ráð fyrir að nærri 150 ma.kr. fari til málefnasviðsins miðað við um 117 ma.kr. í síðustu fjármálaáætlun. Ef litið er aftur til ársins 2015 má segja að framlög til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina nærri þrefaldist til ársins 2027.

Markmið aukinna framlaga er meðal annars að fjölga störfum sem byggja á hugviti segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar. „Opinber stuðningur á þessu sviði er talinn eiga stóran þátt í öflugum vexti nýsköpunarfyrirtækja og aukinni samkeppnishæfni landsins á liðnum árum. Útflutningstekjur byggðar á hugverkaiðnaði hafa aukist um 50% frá 2018 og markmiðið er að hugvits- og þekkingargreinar verði meginstoðin í atvinnulífi og útflutningstekjum landsins. Hagkerfið þarf að byggja á fleiri stoðum og hugvitið er að mínu mati okkar stærsta tækifæri,“ segir Áslaug Arna. 

Með auknum stuðningi er jafnframt markmiðið að nýta betur þekkingu og nýsköpun til að ná meiri árangri með stór samfélagsleg verkefni. „Sérstaklega nefni ég mikilvægi þess að tækni og nýsköpun verði nýtt til að bæta árangur í heilbrigðisþjónustu. Jafnframt eru tækifæri til þess að nýta þekkingu og hugvit til að ná enn betri árangri með græna orku og umhverfisvænar lausnir,“ bætir ráðherra við.

Af einstökum fjárveitingum má nefna að framlög til  Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs verða hækkuð á ársgrundvelli um rúmlega 1,1 ma.kr. í hvorn sjóð, frá og með árinu 2024. Kemur sú aukning í beinu framhaldi af tímabundinni hækkun í sjóðina vegna Covid-19 heimsfaraldurs.

Framlög til skattfrádráttar vegna rannsókna og þróunar í fyrirtækjum hækka um samtals 9,2 ma.kr. árlega á tímabili áætlunarinnar og miðað er við að þau hækki um 4,3 ma.kr. frá og með rekstrarárinu 2022. Þetta er í samræmi við áform i stjórnarsáttmála um að tímabundið hækkuð framlög vegna rannsókna og þróunar, verði gerð varanleg.

Í fjármálaáætlun er mikil áhersla lögð á skilvirkni í opinberum stuðningi. Í samstarfi við óháða aðila, verður lagt mat á áhrif þessa stuðnings, bæði fyrir þá einstaklinga og fyrirtæki sem um ræðir, en einnig að áhrif á velsæld og samkeppnishæfni þjóðarinnar séu metin. Markmiðið er að hinum opinbera stuðningi sé beint þangað sem þörfin fyrir opinbera aðkomu er mest hverju sinni. Að sögn Áslaugar Örnu er ætlunin að vinna að mati á áhrifum samkeppnissjóðanna og leita eftir samstarfi við OECD um úttekt á framkvæmd og áhrifum skattfrádráttar til fyrirtækja.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum