Hoppa yfir valmynd
17. maí 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

32. þing Sjálfsbjargar

Frá lþingi Sjálfsbjargar 14. maí 2004
Frá 32. þingi Sjálfsbjargar 14. maí 2004

Ágætu Sjálfsbjargarfélagar.

Það er mér sönn ánægja að vera með ykkur í dag á þessu 32. þingi Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra sem haldið er hér á Flúðum. Nú í júní verður landssambandið 45 ára og er ekki hægt að segja annað en að það hafi elst bærilega vel og eigi því enn eftir að taka út mikinn og góðan þroska bæði félagsmönnum og samfélaginu öllu til hagsbóta.

Með stofnun fyrsta Sjálfsbjargarfélagsins á Siglufirði 1958 var lagður grunnur að baráttu fatlaðra fyrir réttindum sínum og þátttöku þeirra í samfélagi nútímans. Með stofnun Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra 1959 sýndu Sjálfsbjargarfélögin hvers þau voru megnug um leið og þau vörðuðu veginn fyrir baráttuna til framtíðar. Það má segja að með þrautseigju og eldmóði hafi Sjálfsbjargarfélagar stuðlað að því að málefni fatlaðra væru tekin á dagskrá í samfélagsumræðunni. Einkunnarorð samtakanna ,, Alltaf beita upp í vindinn, eygja, klífa hæsta tindinn” eiga því vel við þegar farið er yfir sögu þessara samtaka.

Á þessari leið hafa Sjálfsbjargarfélagar notið þess að hafa valið sér þróttmikla og einarða forystumenn sem ekki hafa látið sér neitt fyrir brjósti brenna og voru í raun langt á undan sinni samtíð. Sagan er því saga margra áfangasigra þar sem stöðugt hefur miðað fram á við í baráttunni fyrir bættum lífskjörum. Bygging Sjálfsbjargarhússins, stofnun íþróttafélags fatlaðra, og stofnun Hjálpartækjabankans eru örfá dæmi um þá áfanga sem náðst hafa í þróttmiklu starfi þessara samtaka.

Í heimsókn minni í Sjálfsbjargarhúsið í ágúst síðastliðinn varð ég þess áþreifanlega áskynja að enn um ókomna tíð munu Sjálfsbjargarfélagar gegna veigamiklu hlutverki við að auka lífsgæði fatlaðra á Íslandi. Blaðaútgáfa ungmenna, endurhæfingaríbúð fyrir hreyfihamlaða, þróun búsetuúrræða, sundlaug og þjónustumiðstöð segja sína sögu. Alls staðar á ferð minni um Sjálfbjargarhúsið fann ég fyrir hlýju, einlægni og trú þeirra sem þar dvelja og þeirra sem þar starfa. Ég sannfærðist einnig um þá möguleika sem eru fólgnir í því starfi sem unnið er í þessu ágæta húsi og hvaða hlutverki það hefur að gegna í lífi svo margra.

Ágætu Sjálfsbjargarfélagar,

Það er trú mín og von að við getum orðið samferða til betri framtíðar þar sem við samhent getum beitt kröftum okkar til að ná sem mestum árangri í að skapa þá velferð sem við getum verið stolt af.

Gunnar Dal heimspekingur kemst þannig að orði í ljóðabók sinni (Meðan þú gefur)

Gleðin er læknir

Trúin skapandi máttur

Efinn visið blóm

Ég vil horfa með ykkur til framtíðar þar sem reynsla ykkar og þekking verður hvatning til nýrra sigra. Ég vona að þetta Landsþing Sjálfsbjargar verði ánægjulegt og óska ég ykkur allra heilla í störfum ykkar.

Fleiri myndir:

     
  Frá þingi sjálfsbjargar 14. maí 2004  Frá þingi sjálfsbjargar 14. maí 2004   
       




Frá þingi sjálfsbjargar 14. maí 2004
Frá þingi sjálfsbjargar 14. maí 2004

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum