Hoppa yfir valmynd
4. ágúst 2016 Dómsmálaráðuneytið

Aukin þjónusta við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar

Þá bættu embættin við nokkrum kjörstöðum í umdæmum sínum og fengu einnig í fyrsta sinn til liðs við sig sveitarfélög víða um land til að annast utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Sýna tölur að aukin þjónusta var mikið notuð.

Tildrög breytinga

Í kjölfar könnunar sem fram fór haustið 2014 á ástæðum minnkandi kjörsóknar við sveitarstjórnarkosningarnar vorið 2014 var ákveðið að leita leiða til að bæta þjónustu við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar. Fram kom í könnuninni að í kringum 20% svarenda taldi að það hefði aukið líkur á þeir hefðu kosið ef aðgengi að utankjörfundaratkvæðagreiðslu hefði verið betra.

Viljayfirlýsing um samstarf

Í aðdraganda forsetakosninganna skrifuðu Sýslumannafélag Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga undir viljayfirlýsingu um samstarf við framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Í henni fólst að sveitarfélög sem áhuga hefðu á gætu annast framkvæmd atkvæðagreiðslunnar í sveitarfélaginu í samstarfi við viðkomandi sýslumann og boðið þannig upp á betri þjónustu en ella. Yfirlýsingin er grundvölluð á 58. grein laga um kosningar til Alþingis en þar er kveðið á um að sýslumönnum sé heimilt að ráða aðra trúnaðarmenn til að gegna starfi kjörstjóra.

Framkvæmdin var á þá lund að sveitarfélagið lagði til starfsmenn og húsnæði. Umræddir starfsmenn urðu síðan sérstakir kjörstjórar á vegum sýslumanns sem ber að öðru leyti ábyrgð á framkvæmdinni allri. Nokkur sýslumannsembætti juku á þennan þátt þjónustu sína og voru starfsmenn yfir 20 sveitarfélaga fengnir til að sinna þessu verkefni.

Aukin þjónusta mikið notuð

Samkvæmt tölum um utankjörfundaratkvæði greiddu um 30% kjósenda á Austurlandi atkvæði á skrifstofum sveitarfélaga en það var unnt að gera á sex stöðum á Austfjörðum og Fljótsdalshéraði. Á Norðurlandi eystra var bætt við átta stöðum til atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og á Suðurlandi var sjö stöðum bætt við. Hlutfall kjósenda á Suðurlandi sem kaus hjá sveitarfélögum var um 18%. Tölur hafa ekki borist frá öðrum umdæmum þar sem þjónustan var aukin með þessum hætti.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira