Hoppa yfir valmynd
12. febrúar 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Ráðuneyti allra kynslóða

Ráðherra á menningarhátíð eldri borgaraÁsta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, tók í dag þátt í menningarhátíð eldri borgara sem stendur yfir í Breiðholti 11.–15. febrúar. Í dag var dagskráin helguð yngstu og elstu kynslóðunum undir yfirskriftinni kynslóðirnar saman í Breiðholti.

Á hátíðinni var opnuð sýning á listaverkum barna frá leikskólanum Vinagerði og tekið var á móti góðum gestum frá Félagi heyrnarlausra en í Gerðubergi er málefnum heyrnarskertra sinnt sérstaklega. Einnig var undirritaður samningur leikskólans Vinagerðis og félagsstarfsins í Breiðholti um formlegt samstarf.

Í stuttu ávarpi sagði Ásta Ragnheiður að félags- og tryggingamálaráðuneytið væri ráðuneyti allra kynslóða og spannaði allt lífshlaupið. Þar væri fjallað um fæðingarorlof, málefni barna, málefni fatlaðra og málefni aldraðra og því væri henni sérstaklega kærkomið að vera gestur á hátíðinni.

Ráðherra vék orðum að þjónustu Gerðubergs við heyrnarskerta og heyrnarlausa og hve miklu máli hún skipti og tengdi orð sín við opnun sýningarinnar á listaverkum barnanna frá Vinagerði: „Tjáningarform eru margvísleg og listin er þar mikilvægur þáttur. Það er hægt að segja margt án þess að nota orð eins og við þekkjum öll.

Frá menningarhátíð eldri borgaraSamvera felur líka í sér tjáningu og það er hægt að lýsa umhyggju og væntumþykju með samveru án orða. Hér á eftir verða staðfest formleg samskipti og vinátta milli eldri borgara í Breiðholti og barnanna í Vinagerði. Ég er viss um að hér er verið að skapa vettvang sem á eftir að verða mikilvægur og gefandi fyrir alla þátttakendur, jafnt börnin og eldri borgarana.

Ég ætla ekki halda langa ræðu hér. Fyrst og fremst óska ég ykkur öllum hér til hamingju með menningarhátíðina og óska jafnframt kynslóðunum sem hér mætast ánægjulegra samverustunda í framtíðinni.“



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum