Hoppa yfir valmynd
13. febrúar 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Þróunarverkefni um þjónustu við innflytjendur

Ásta Ragnheiður og Elías við undirritun samkomulagsinsÁsta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, og Elías Jónatansson, bæjarstjóri Bolungarvíkurkaupstaðar, undirrituðu í dag samkomulag um þróunarverkefni á sviði þjónustu við íbúa af erlendum uppruna. Bolvíkingar hafa unnið að þessu verkefni samkvæmt samkomulagi við ráðuneytið frá árinu 2007 og er um að ræða framhald á því starfi.

Erlendir ríkisborgarar eru fjölmennir í Bolungarvík. Þann 1. janúar 2008 var fjöldi íbúa um 900 manns, þar af voru rúmlega 100 erlendir ríkisborgarar. Íbúum fjölgaði um 6% árið 2008 eða um 57 einstaklinga. Þar af voru 46 erlendir ríkisborgarar og munaði mestu um slóvenska og tékkneska starfsmenn sem vinna tímabundið við jarðgangagerð. Pólverjar eru fjölmennasti hópur erlendra ríkisborgara í Bolungarvík.

Tilgangur verkefnisins er að þróa ferli um móttöku innflytjenda í sveitarfélaginu sem miðar að því að gera innflytjendur að virkum þátttakendum í samfélaginu og auðvelda þeim aðgang að samfélagslegri þjónustu. Samkvæmt samkomulaginu verður einnig unnið að þróun þjónustu við erlenda ríkisborgara sem koma hingað til starfa. Verkefninu er ætlað að nýtast öðrum sveitarfélögum þannig að móttökuferlið sem þróað verður í Bolungarvík geti orðið þeim fyrirmynd við móttöku innflytjenda.

Félags- og tryggingamálaráðuneytið veitir 4 milljóna króna styrk til verkefnisins. Tvær milljónir króna voru greiddar við undirritun samkomulagsins og tvær milljónir króna verða greiddar þegar stöðuskýrsla um framvindu verkefnisins liggur fyrir í september 2009. Framlag sveitarfélagsins felst í aðstöðu fyrir starfsmenn, launakostnaði og öðrum starfstengdum kostnaði sem ekki greiðist af framlagi ráðuneytisins.

Verkefninu er stýrt af hópi sem í eiga sæti fulltrúar Fjölmenningarseturs, Bolungarvíkurkaupstaðar og aðilar vinnumarkaðarins á norðanverðum Vestfjörðum.

Ráðherra bindur vonir við að verkefnið auðveldi innflytjendum að taka virkan þátt í daglegu lífi í sveitarfélaginu og að allir íbúar þess njóti til jafns þeirra gæða sem þar er að finna óháð þjóðerni.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum