Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2009 Félagsmálaráðuneytið

Samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) um vinnueftirlit í iðnaði, verslun og landbúnaði

Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun var samþykkt tillaga um að Ísland fullgildi tvær samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um virkt vinnueftirlit á sviði iðnaðar, verslunar og landbúnaðar. Um er að ræða samþykktir stofnunarinnar nr. 81 um vinnueftirlit í iðnaði og verslun og nr. 129 um vinnueftirlit í landbúnaði.

Alþjóðavinnumálaskrifstofan í Genf flokkar samþykktir þessar með forgangssamþykktum stofnunarinnar. Meginskuldbindingin sem leiðir af fullgildingu felst í því að aðildarríkjum ber að halda uppi vinnueftirliti í iðnaði, verslun og landbúnaði. Skal það byggt á lögum sem skilgreini vinnuskilyrði og rétt starfsmanna til heilsusamlegs og öruggs vinnuumhverfis. Markmiðið með því er að tryggja framkvæmd lagafyrirmæla um vinnuskilyrði og vernd starfsmanna við vinnu sína, vinnutíma, öryggi, heilbrigði og velferð, vinnu barna og unglinga og önnur skyld atriði.

Aðstæður á Íslandi eru í samræmi við ákvæði samþykktanna en Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, bendir á að með fullgildingu þeirra gefa Íslendingar þeim aukið vægi og leggja sitt af mörkum til áætlunar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um mannsæmandi vinnuskilyrði hvar sem er í heiminum. Áætlunin er liður í viðbrögðum stofnunarinnar við hnattvæðingu atvinnu- og efnahagslífsins.

Það var Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sem lagði tillöguna um heimild til að fullgilda samþykktirnar fyrir ríkisstjórnina í samræmi við verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins. Samskipti við Alþjóðavinnumálastofnunina eru hins vegar á verksviði félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Samráðsnefnd ráðuneytisins og helstu samtaka aðila vinnumarkaðarins um málefni stofnunarinnar hefur fjallað um þetta málefni og mælti með því að Íslandi fullgildi samþykktirnar.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira