Hoppa yfir valmynd
18. desember 2000 Utanríkisráðuneytið

Nr. 104, 18. desember 2000.Utanríkisráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins

Utanríkisráðuneytið

Fréttatilkynning

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 104


Á haustfundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Brussel 14. og 15. desember 2000 bar hæst umræður um samstarf NATO og Evrópusambandsins (ESB) í öryggis- og varnarmálum. Einnig var fjallað um þróun og ástand mála á Balkanskaga í ljósi kosninga í Kósóvó og Bosníu-Hersegóvínu, auk stjórnarskipta og væntanlegra kosninga í Serbíu.

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, ávarpaði fundinn og fjallaði um þróun sameiginlegrar öryggis- og varnarmálastefnu Evrópusambandsins að nýloknum leiðtogafundi í Nice. Hann sagði að á leiðtogafundinum hefði náðst mikilvægur áfangi í átt til samkomulags um samstarf Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins. Lagði hann áherslu á að mikilvægt væri að báðar stofnanir sýndu sveigjanleika svo takast mætti að ná samkomulagi um alla þætti samstarfs samtakanna tveggja.
Utanríkisráðherra nefndi sérstaklega nauðsyn þess að tryggja evrópsku bandalagsríkjunum utan ESB fullnægjandi rétt til þátttöku í samráði og aðgerðum undir forystu Evrópusambandsins.

Utanríkisráðherrarnir fjölluðu um samskipti Atlantshafsbandalagsins við Rússland í sérstökum vinnuhádegisverði og áttu síðdegis fyrri daginn fund í Samstarfsnefnd Atlantshafsbandalagsins og Úkraínu, þar sem m.a. var fjallað um samstarfsáætlun nefndarinnar fyrir árið 2001, auk þess sem ráðherrarnir lýstu stuðningi við áframhaldandi viðleitni úkraínskra stjórnvalda við endurbætur og endurskipulagningu herafla landsins.

Seinni daginn var haldinn fundur utanríkisráðherra NATO með ráðherrum samstarfsþjóða Atlantshafsbandalagsins í Evró-Atlantshafssamvinnuráðinu (EAPC) og þar á eftir fundur utanríkisráðherra í samstarfsráði NATO og Rússlands (PJC). Á fundi Evró-Atlantshafssamvinnuráðsins var m.a. rætt um ástand og horfur í Bosníu-Hersegóvínu og Kósóvó.

Á fundi samstarfsráðs NATO og Rússlands var fjallað um ástandið á Balkanskaga og samstarfsáætlun næsta árs.

Um kvöldið áttu ráðherrar NATO (ráðið) og ESB (GAC) sameiginlegan vinnukvöldverð.

Hjálögð er yfirlýsing fundarins.




Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 18. desember 2000.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum