Hoppa yfir valmynd
31. ágúst 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 35/2021 - Úrskurður

KÆRUNEFND HÚSAMÁLA

ÚRSKURÐUR

uppkveðinn 31. ágúst 2021

í máli nr. 35/2021

 

A

gegn

B

 

Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir lögmaður, Valtýr Sigurðsson lögmaður og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur. 

Aðilar málsins eru:

Sóknaraðili: A.

Varnaraðili: B

Krafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að varnaraðila beri að endurgreiða tryggingarfé. Einnig að viðurkennt verði að sóknaraðili eigi rétt á skaðabótum.

Með kæru, dags. 13. apríl 2021, beindi sóknaraðili til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við varnaraðila. Með bréfi kærunefndar, dags. 16. apríl 2021, var varnaraðila gefinn kostur á að tjá sig um efni kærunnar. Þar sem greinargerð barst ekki frá varnaraðila var beiðni þar um ítrekuð með bréfi kærunefndar, dags. 28. maí 2021, og upplýst að málið yrði tekið til úrlausnar á grundvelli þeirra gagna sem lægju fyrir, bærist ekki greinargerð. Engin viðbrögð bárust frá varnaraðila.

Með tölvupóstum kærunefndar, dagsettum 8. júlí, 13. júlí og 16. ágúst 2021, óskaði nefndin eftir því við sóknaraðila að hann tilgreindi fjárhæð kröfu sinnar sem og upplýsingum um það hvenær leigutíma lauk. Engin svör bárust frá sóknaraðila. Með tölvupósti kærunefndar var beiðni um upplýsingarnar ítrekuð og sóknaraðili upplýstur um að bærust þær ekki kynni það að leiða til þess að málinu yrði vísað frá. Engin svör bárust frá sóknaraðila.

I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Aðilar gerðu tímabundinn leigusamning frá 1. febrúar 2020 til 31. desember 2022 um leigu sóknaraðila á íbúð varnaraðila að C. Ágreiningur er um endurgreiðslu tryggingarfjár og kröfu sóknaraðila um skaðabætur.

II. Sjónarmið sóknaraðila

Sóknaraðili segir að hann hafi greitt varnaraðila 600.000 kr. í tryggingu fyrir réttum efndum á leigusamningi aðila. Hann hafi aftur á móti flutt út þar sem hann hafi fundið stærra og hentugra húsnæði. Síðasta mánuðinn hafi varnaraðili bæði skráð lögheimili sitt á hina leigðu eign og neytt sóknaraðila til þess að leigja svart. Þetta séu lögbrot. Sóknaraðili hafi verið að klára að tæma og verið byrjaður að þrífa þegar hann hafi þurft að skreppa frá. Þegar hann hafi komið til baka hafi varnaraðili verið kominn með konu til að þrífa. Um hafi verið að ræða annað lögbrot og hann tekið háa fjárhæð af tryggingarfénu vegna kostnaðar við þrifin. Þá hafi hann heimtað að sóknaraðili myndi mála sem hann hafi gert og spartlað. Hann hafi skilað íbúðinni í sama ástandi og hann hafi tekið við henni. Varnaraðili hafi verið búinn að eyða allri tryggingunni en tekið yfirdrátt og endurgreitt sóknaraðila 210.000 kr.

Sóknaraðili fari bæði fram á skaðabætur og að fá alla trygginguna endurgreidda.

III. Niðurstaða            

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka, þrátt fyrir áskoranir þar um, og verða því þau gögn sem sóknaraðili hefur lagt fram lögð til grundvallar niðurstöðu málsins. Um var að ræða tímabundinn leigusamning sem átti að gilda til 31. desember 2022.

Í 2. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, segir að erindi til kærunefndar skuli vera skriflegt og í því skuli skilmerkilega greina hvert sé ágreiningsefnið, hver sé krafa aðila og rökstuðningur fyrir henni.

Kærunefnd hefur ítrekað óskað eftir því við sóknaraðila að hann tilgreini fjárhæð kröfu sinnar sem og veiti upplýsingar um það hvenær leigutíma lauk. Engin svör hafa borist frá sóknaraðila. Þar sem krafa sóknaraðila liggur ekki fyrir er málið ekki tækt til efnismeðferðar og er því vísað frá. 

Ákvæði 5. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, sbr. lög nr. 63/2016, kveður á um að úrskurðir kærunefndar húsamála séu bindandi gagnvart málsaðilum og sæti ekki kæru til æðra stjórnvalds. Málsaðilum sé heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla innan átta vikna frá því að úrskurður var kveðinn upp og frestast þá réttaráhrif hans uns dómur fellur.

 


 

ÚRSKURÐARORÐ:

Kröfu sóknaraðila er vísað frá.

 

Reykjavík, 31. ágúst 2021

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

Valtýr Sigurðsson                                          Eyþór Rafn Þórhallsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum