Hoppa yfir valmynd
Heilbrigðisráðuneytið

Undirritun viljayfirlýsingar um byggingu nýs Landspítala

Álfheiður Ingadóttir
heilbrigðisráðherra

 

Góðir gestir.

Viljayfirlýsing lífeyrissjóðanna og heilbrigðisráðuneytisins fyrir hönd ríkisstjórnarinnar er söguleg og hún er táknræn að mínum dómi. Í henni felst nefnilega víðtækur skilningur á mikilvægi þess að við Íslendingar sköpum forsendurnar fyrir því að geta áfram og um langa framtíð verið í fremstu röð þjóða í heilbrigðismálum.

Í viljayfirlýsingunni felst viðurkenning á því að uppbygging nýs spítala er nauðsynleg og samofin viljanum til að standa sem best að þjónustunni við sjúka. Og að skapa öllum sem starfa á Landspítalanum forsendur til að gera vel við sjúklinga alveg burtséð frá því hvert hlutverk menn hafa í þeirri flóknu vél sem Landspítali hlýtur alltaf að verða.

Spítalinn sem hér mun rísa er ekki reykjavíkur-spítali. Hér mun rísa spítali fyrir allt landið, fyrir alla landsmenn. Og það er einstaklega ánægjulegt að sjá hve margir lífeyrissjóðir af landsbyggðinni hyggjast vera með. Hlutverk hins nýja spítala verður fyrst og síðast bundið við að lækna og annast sjúka, en við megum heldur ekki gleyma því að Landspítalinn er lífæðin í bæði menntun heilbrigðistétta og innan spítalans, eða í tengslum við hann, fer fram gríðarlegt rannsóknar- og vísindastarf.

Það tekur langan tíma og það þarfnast mikils undirbúnings að reisa spítala sem þjóna á þjóðinni allri. Viljayfirlýsingin er stórt stökk fram á við á þeirri löngu leið. Fyrsta útfærslan að nýjum spítala einkenndist af uppgangstíð liðinna ára. Spítalinn sem við erum nú að tala um að reisa er nær þeim raunverulegu aðstæðum sem við búum við á Íslandi í dag.

Ég vil fyrir hönd heilbrigðisráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar þakka öllum þeim sem undanfarið hafa unnið hörðum höndum að því að gera viljayfirlýsinguna að veruleika. Í þeim hópi eru fulltrúar lífeyrissjóðanna, fulltrúar ráðuneyta, og Háskóla Íslands og starfsmenn Landsspítala.

Sérstaklega vil ég þakka fulltrúum lífeyrissjóðanna fyrir þeirra þátt enda felst í þeirra afstöðu og þátttöku í verkefninu mikil framsýni og samfélagslegur skilningur, skilningur á því að Landspítali er ekki bara byggingar. Nýr Landspítali er líka táknmynd fyrir okkur sem sjálfstæð þjóð, og vonandi staðfesting á því að við viljum hugsa heilbrigðisþjónustu við alla þjóðina til langrar framtíðar.

Við getum öll verið stolt af því sem hér hefur gerst í dag.

 

(Talað orð gildir)

 Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira