Hoppa yfir valmynd
9. ágúst 2017 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Drög að breytingum á reglugerð um öryggis- og verndarbúnað í ökutækjum til umsagnar

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið birtir til umsagnar drög að breytingu á reglugerð um notkun öryggis- og verndarbúnaðar í ökutækjum. Umsagnir má senda á netfangið postur@srn.is fyrir22. ágúst næstkomandi.

Reglugerðin er nr. 348/2007 með áorðnum breytingum en markmið hennar er að stuðla að auknu öryggi ökumanna og farþega með því að kveða á um notkun öryggis- og verndarbúnaðar í ökutækjum, svo sem öryggisbelta, bílstóla og fleira.

Helstu breytingar

Í drögunum er gert ráð fyrir því að óheimilt verði að aka með standandi farþega þar sem leyfður hámarkshraði er yfir 80 km/klst. Þó er gert ráð fyrir því að rekstrarleyfishöfum í reglubundnum farþegaflutningum verði fram til 1. janúar 2019 heimilt að aka með standandi farþega þar sem leyfður hámarkshraði er meiri en 80 km/klst. ef ökutækið er sérstaklega ætlað fyrir standandi farþega. Þó skuli ökutækinu aldrei ekið hraðar en að hámarki 80 km/klst. og verða standandi farþegar að hafa náð 18 ára aldri.

Þar sem ekki er minnst sérstaklega á standandi farþega í lögum og reglugerðum er varða öryggis- og verndarbúnað í bifreiðum hefur í framkvæmd verið gengið út frá því að ávallt sé heimilt að aka með standandi farþega ef bifreiðin sem notuð er gerir ráð fyrir að farþegar geti staðið í henni. Með fyrirhuguðum breytingum er ætlunin að bregðast við þeirri hættu sem kann að skapast af því að farþegar hópferðabifreiða standi í ferðum utan þéttbýlis. Þá er ætlunin að tryggja það að allir farþegar hópferðabifreiða noti bílbelti á ferðalögum. 

Tilefni breytinganna

Samkvæmt 1. mgr. 71. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 skal hver sá, sem situr í sæti bifreiðar sem búið er öryggisbelti, nota beltið þegar bifreiðin er á ferð. Þá segir í 6. mgr. sama ákvæðis að ráðherra skuli setja frekari reglur um m.a. notkun öryggisbelta og um undanþágu frá skyldu til að nota slíkan búnað.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar um notkun öryggis- og verndarbúnaðar segir að sá sem sitji í sæti ökutækis, sem búið er öryggisbelti, skuli nota það meðan ökutæki er á ferð, með þeim undantekningum sem leiði af ákvæðum 5. gr. reglugerðarinnar. Í e-lið 5. gr. hennar segir að ekki sé skylt að nota öryggisbelti í ökutæki þegar ekið sé í atvinnuskyni þar sem hraði er jafnan lítill og fara þarf úr og í ökutæki með stuttu millibili (strætó). Ekki er sérstaklega fjallað um standandi farþega í reglugerðinni.

Ekki verður talið að akstur í dreifbýli, þar sem margir kílómetrar eru á milli stoppistöðva og hámarkshraði sá hæsti sem leyfður er á Íslandi, geti fallið undir undanþáguákvæði reglugerðarinnar um notkun öryggis- og verndarbúnaðar, enda ekki um að ræða akstur þar sem hraði er jafnan lítill og fara þarf úr og í ökutæki með stuttu millibili. Af þessu leiðir að farþegum í hópferðabifreiðum á ferðalögum í dreifbýli er skylt að nota bílbelti. Með breytingunum sem lagðar eru til í reglugerðardrögunum verður því öllum farþegum hópferðabifreiða í dreifbýli almennt skylt að nota bílbelti á ferðalögum með áðurnefndum aðlögunartíma.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira