Hoppa yfir valmynd
6. júlí 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 364/2023 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 6. júlí 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 364/2023

í stjórnsýslumálum nr. KNU23030023, KNU23030024, KNU23030025 og KNU23030026

 

Kæra […]

og barna þeirra

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 6. mars 2023 kærðu […], fd. […], ríkisborgari Írak (hér eftir K) og […], fd. […], ríkisborgari Írak (hér eftir M), […], fd. […] (hér eftir A), […], fd. […] (hér eftir B), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 15. febrúar 2023, um að synja þeim og […], fd. […], barni M og K, (hér eftir C), ríkisborgurum Írak, um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærendur krefjast þess aðallega að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að fjölskyldunni verði veitt staða flóttamanna með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að þeim verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Í annarri varakröfu er þess krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að þeim verði veitt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í þriðju varakröfu er þess krafist að þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í fjórðu varakröfu er þess krafist að C verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga með vísan til 32. gr. d reglugerðar nr. 540/2017, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 122/2020. Að lokum er þess krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka málin til nýrrar meðferðar.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.      Málsmeðferð

Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi 22. nóvember 2021 ásamt C. Við leit að fingraförum þeirra í Eurodac gagnagrunninum þann sama dag kom í ljós að fingraför þeirra höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Svíþjóð. Hinn 8. desember 2021 var beiðni um viðtöku kærenda og umsókna þeirra um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Svíþjóð, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá sænskum yfirvöldum, dags. 15. desember 2021, samþykktu þau viðtöku kærenda og C á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað 3. febrúar 2022 að taka umsóknir kærenda og C um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og að þeim skyldi vísað frá landinu. Kærunefnd útlendingamála staðfesti ákvarðanir Útlendingastofnunar 31. mars 2022 með úrskurði kærunefndar nr. 148/2022. Hinn 11. apríl 2022 barst kærunefnd beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar og var þeirri beiðni hafnað með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 180/2022, dags. 20. apríl 2022. Kærendur lögðu fram beiðni um endurupptöku 13. september 2022. Þá barst kærunefnd önnur beiðni um endurupptöku frá K 15. september 2022. Með úrskurðum kærunefndar nr. 387/2022 og 391/2022, dags. 22. september 2022, var beiðnum kærenda um endurupptöku hafnað. Þá lögðu kærendur fram beiðni um endurupptöku að nýju 30. september 2022. Með úrskurðum kærunefndar nr. 3/2023, 4/2023 og 5/2023, dags. 10. janúar 2023, var fallist á beiðni kærenda um endurupptöku á málum fjölskyldunnar. Ákvarðanir Útlendingastofnunar voru felldar úr gildi og lagt var fyrir stofnunina að taka mál þeirra til efnismeðferðar.

Kærendur, M og K, komu í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. 30. ágúst 2022 og 24. janúar 2023 ásamt talsmanni sínum. Kærendur A og B komu til viðtals hjá Útlendingastofnun m.a. 25. janúar 2023 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum, dags. 15. febrúar 2023, synjaði Útlendingastofnun kærendum og C um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Ákvarðanirnar voru birtar kærendum 21. febrúar 2023. Voru ákvarðanirnar kærðar til kærunefndar útlendingamála 6. mars 2023. Kærunefnd barst greinargerð kærenda og C 22. mars 2023.

III.    Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að kærendur byggi umsóknir sínar um alþjóðlega vernd á því að þau séu í hættu í heimaríki sínu vegna ofsókna af hálfu fjölskyldu aðila sem hafi látist í varðhaldi sem M hafi komið að og hóps sem hafi tengsl við fíkniefnastarfsemi, stjórnmál og yfirvöld í landinu. Fjölskyldan hafi sætt hótunum vegna starfa M í […][…] og óttist hún um líf sitt.

Niðurstaða ákvarðana Útlendingastofnunar var sú að kærendur væru ekki flóttamenn og að þeim skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kærendum var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Af ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum kærenda og C verður ráðið að í ljósi framburðar foreldra þess og ungs aldur hafi ekki verið talið tilefni til að taka viðtal við það og að umsókn þess væri grundvölluð á framburði foreldra þess. Í ákvörðunum í málum foreldra var tekin afstaða til aðstæðna C og hvernig þær aðstæður horfi við einstökum þáttum ákvörðunarinnar. Ráða má að það hafi verið mat Útlendingastofnunar með vísan til niðurstöðu í málum foreldra C, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, laga um útlendinga og barnaverndarlaga, að C væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja foreldrum sínum til heimaríkis.

Kærendum var brottvísað frá landinu og þeim ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Fram kom að yfirgæfu þau landið sjálfviljug innan frests sem þeim hefði verið veittur yrði endurkomubann þeirra fellt niður. Barni kærenda, C, var brottvísað frá landinu en ekki ákveðið endurkomubann.

Útlendingastofnun tilkynnti kærendum jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.    Málsástæður og rök kærenda

Í greinargerð kærenda er vísað til viðtala þeirra og barna þeirra hjá Útlendingastofnun. M hafi greint frá því að hafa flúið heimaríki sitt vegna starfa sinna hjá […], í […] í Kúrdistan. Hann hafi handtekið þrjá einstaklinga, S, X og H, 19. mars 2014 fyrir fíkniefnalagabrot og H hafi síðar fundist látinn í fangaklefa sínum, þ.e. 24. maí 2014. Eftir að fjölskyldur þessara manna hafi komist að því að M hafi verið einn þeirra sem hafi staðið að handtöku þeirra hafi þær sent M líflátshótanir og framið skotárás á heimili fjölskyldunnar 22. júní 2014. M hafi hringt bæði í lögregluna og […] og tilkynnt um skotárásina og hótanirnar. Þeir sem hafi staðið að hótununum og árásunum hafi verið S, X og fjölskyldumeðlimir þeirra og H. M greindi frá því að þessir aðilar væru með tengsl við stjórnmálaflokkinn PUK og nytu því verndar valdamikilla einstaklinga. Sömu aðilar hafi einnig gert árás á aðra deild […] í borginni Ranya. Í kjölfarið hafi M komið börnum sínum til tengdaföður síns og farið í felur í bænum Dokan áður en hann hafi flúið til Svíþjóðar. Samstarfsfélagi M hafi orðið fyrir árás af hendi X 27. maí 2021. M kvaðst eiga yfir höfði sér sex mánaða til tveggja ára fangelsi í Írak þar sem hann hafi ekki skilað inn einkennismerki sínu og […] skírteini sínu til stofnunarinnar, en slíkt væri refsivert samkvæmt kúrdískum herlögum. M lagði fram skjal sem hann kveður vera ákæru þar sem fram komi að hann hafi gerst brotlegur við umrædd lög og að hans bíði fangelsisdómur í heimaríki. Jafnframt væru fleiri gögn hjá sænskum útlendingayfirvöldum sem sannreyni þær hótanir sem honum hafi borist.

Í greinargerð kærenda eru gerðar ýmsar athugasemdir við ákvarðanir Útlendingastofnunar, m.a. að Útlendingastofnun hafi ekki aflað vegabréfa kærenda og barna þeirra, þrátt fyrir kröfur þeirra um að það yrði gert, að Útlendingastofnun hafi ekki tekið afstöðu til málsástæðu M um að hann eigi yfir höfði sér fangelsisvist í heimaríki þrátt fyrir að heimildir renni stoðum undir frásögn hans, og að kærendum og börnum þeirra hafi verið ákvarðað endurkomubann á öllu Schengen-svæðinu þrátt fyrir að þau hafi upplýst Útlendingastofnun um að þau ættu náin skyldmenni í Svíþjóð, þ. á m. foreldra M, systur hans og bróður.

Kærendur krefjast þess aðallega að fjölskyldunni verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamenn hér á landi samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þau eigi á hættu ofsóknir af hálfu einstaklinga sem M hafi handtekið í heimaríki og aðila í stjórnmálaflokknum PUK sem tengist þeim einstaklingum fjölskylduböndum. Kærendur telja að rannsókn Útlendingastofnunar hafi ekki verið fullnægjandi þar sem ekki hafi verið kallað eftir gögnum frá sænskum útlendingayfirvöldum sem staðfesti hótanir frá umræddum aðilum. Kærendur gera jafnframt athugasemd við fullyrðingu Útlendingastofnunar um að heimildir um Kúrdistan styðji ekki þá frásögn kærenda að stjórnmálaflokkurinn PUK tengist glæpahópum að einhverju leyti. Vísa kærendur til skýrslu mannréttindasamtaka því til stuðnings. Jafnframt mótmæla kærendur því að þau hafi ekki sýnt fram á að þeir aðilar sem þau óttist séu sömu aðilar og hafi drepið samstarfsmann M í ljósi þeirra gagna sem M hafi lagt fram. Þá gera kærendur athugasemd við að Útlendingastofnun hafi ekki tekið afstöðu til þeirrar málsástæðu M er varðar yfirvofandi fangelsisrefsingu hans. Telja þau að Útlendingastofnun hafi með því brotið gegn mannréttindum M og horft fram hjá því að K myndi þurfa að reka heimili án eiginmanns síns. Kærendur telja, með tilliti til heildstæðs mats á aðstæðum þeirra, að samsafn athafna eigi að leiða til þess að þeim verði veitt alþjóðleg vernd, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Verði ekki fallist á aðalkröfu málsins krefjast kærendur þess til vara að fjölskyldunni verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til þess sem að framan er rakið, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Í annarri varakröfu krefjast kærendur þess að fjölskyldunni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til framangreindra sjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Í þriðju og fjórðu varakröfu krefjast kærendur þess að C verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 32. gr. d) reglugerðar nr. 540/2017, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 122/2020, enda hafi það ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 16 mánaða frá því það hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi. Veita beri kærendum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða í ljósi meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar. Kærendur uppfylli jafnframt skilyrði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, enda hafi þau ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða þegar úrskurður kærunefndar verður kveðinn upp. Þá hafi þau bent Útlendingastofnun á það hvar vegabréf þeirra séu niðurkomin. Þá fái þau ekki séð að 3. mgr. 74. gr. laganna eigi við í málum þeirra. Með fimmtu varakröfu krefjast kærendur þess að ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum fjölskyldunnar verði felldar úr gildi þar sem þær séu háðar verulegum annmörkum og að stofnuninni verði gert að taka málin til nýrrar meðferðar.

Kærendur telja að með endursendingu fjölskyldunnar til heimaríkis yrði brotið gegn meginreglunni um bann við endursendingu, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telja kærendur að slík ákvörðun brjóti í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

V.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum kærenda og C kemur fram að þau hafi ekki lagt fram neitt sem sé til þess fallið að sanna á þeim deili og því hafi þau ekki sannað hver þau séu með fullnægjandi hætti. Var því leyst úr auðkenni þeirra á grundvelli mats á trúverðugleika og komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að þau væru frá Írak. Við meðferð málsins hjá kærunefnd bárust vegabréf fjölskyldunnar til Útlendingastofnunar frá sænskum yfirvöldum. Af gögnum er ljóst að sænsk yfirvöld hafi kannað áreiðanleika þeirra þegar kærendur lögðu þau fram þar og talið þau traust. Telur kærunefndin því ljóst að kærendur og börn þeirra séu írakskir ríkisborgarar.

Réttarstaða barns kærenda

Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með hagsmuni þess að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni.

Sérstaklega er fjallað um mat stjórnvalda á umsóknum barna um alþjóðlega vernd í 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þar segir að við mat á því hvort barn teljist flóttamaður samkvæmt lögunum skuli það sem barninu sé fyrir bestu haft að leiðarljósi. Við mat á því hvað barni sé fyrir bestu skuli stjórnvöld líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skuli stjórnvöld taka skriflega afstöðu til þessara atriða.

Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra sinna eða annars úr fjölskyldunni sem hefur það á framfæri sínu og sá fer fram á réttarstöðu flóttamanns, ber að fara með málin í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Ljóst er að barn það sem hér um ræðir, C, er í fylgd foreldra sinna og haldast úrskurðir fjölskyldunnar því í hendur.

Börn kærenda, A og B, eru lögráða og teljast því ekki börn í skilningi laga um útlendinga. Með vísan til málsástæðna þeirra, kærenda og meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar telur kærunefnd þó rétt að úrskurðir þeirra haldist í hendur.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Írak, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2021 Country Reports on Human Rights Practices: Iraq (U.S. Department of State, 12. apríl 2022);
  • 2022 Country Reports on Human Rights Practices: Iraq (U.S. Department of State, 20. mars 2023);
  • 2021 Report on International Religious Freedom: Iraq (U.S. Department of State, 2. júní 2022);
  • 5 years since Mosul retaking, young people face education, employment crisis (Norwegian Refugee Council, 6. júlí 2022);
  • Country Guidance: Iraq (European Union Agency for Asylum (EUAA), 29. júní 2022);
  • Country Guidance: Iraq; Common analysis and guidance note (European Asylum Support Office, janúar 2021);
  • Country Guidance: Iraq; Common analysis and guidance note (European Asylum Support Office, 29. júní 2022);
  • Country of Origin Information Report – Iraq – Actors of Protection (European Asylum Support Office, nóvember 2018);
  • Country of Origin Information Report – Iraq: Internal Mobility (European Asylum Support Office, febrúar 2019);
  • Country of Origin Information Report – Iraq – Security situation (European Union Agency for Asylum, janúar 2022);
  • Country Policy and Information Note – Iraq: Actors of protection (UK Home Office, desember 2020);
  • Country Policy and Information Note – Iraq: Humanitarian situation (UK Home Office, ágúst 2022);
  • Country Policy and Information Note – Iraq: Internal relocation, civil documentation and returns (UK Home Office, maí 2020);
  • Country Policy and Information Note – Iraq: Medical and healthcare provision (UK Home Office, janúar 2021);
  • Country Policy and Information Note – Iraq: Religious minorities (UK Home Office, júlí 2021);
  • Country Policy and Information Note – Iraq: Security situation (UK Home Office, nóvember 2022);
  • Country Policy and Information Note – Iraq: Sunni Arabs (UK Home Office, janúar 2021);
  • DFAT Country Information Report Iraq (Australian Government, Department of Foreign Affairs and Trade, 16. janúar 2023);
  • Freedom in the World 2022 – Iraq (Freedom House, 28. febrúar 2022);
  • International Protection Considerations with Regard to People Fleeing the Republic of Iraq (UNHCR, maí 2019);
  • Iraq: Relevant COI for Assessments on the Availability of the Internal Flight or Relocation Alternative (IFA/IRA)(UNHCR, 12. apríl 2017);
  • Iraq – Targeting of Individuals (European Union Agency for Asylum, janúar 2022);
  • Relevant Country of Origin Information to Assist with the Application of UNHCR’s Country Guidance on Iraq - Ability of Iraqis to Legally Access and Settle Durably in Proposed Areas of Internal Relocation (UNHCR, nóvember 2022);
  • Sixteenth report of the Security-General on the threat posed by ISIL (Da’esh) to international peace and security and the range of United Nations efforts in support of Member States in countering the threat (UN Security Council, 1. febrúar 2023);
  • The World Factbook – Iraq (Central Intelligence Agency, uppfært 13. mars 2023);
  • UNHCR Fact Sheet – Iraq (UNHCR, 13. febrúar 2022);
  • Upplýsingasíða United States Institute of Peace (Iraq Timeline: Since the 2003 War United States Institute of Peace (usip.org), sótt 30. mars 2023) og
  • World Report 2023 – Iraq (Human Rights Watch, 12. janúar 2023).

Írak er lýðræðisríki með tæplega 40 milljónir íbúa. Árið 1945 gerðist Írak aðili að Sameinuðu þjóðunum og fullgilti ríkið bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1971. Ríkið fullgilti samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum árið 1986, alþjóðsamning um vernd allra gegn mannshvörfum árið 2010 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2011.

Samkvæmt upplýsingasíðu leyniþjónustu Bandaríkjanna eru flestir Írakar arabar, n.t.t. 75-80%, og Kúrdar eru u.þ.b. 15-20%. Önnur þjóðarbrot séu til að mynda Túrkmenar, Yezidi, Shabak, Kaka´I og Bedouin. Í skýrslu EASO frá janúar 2021 kemur fram að Túrkmenar séu þriðja stærsta þjóðarbrotið í Írak. Séu Túrkmenar bæði súnní- og síja-múslimar.

Á vefsíðu Friðarstofnunar Bandaríkjanna (e. United States Institute of Peace) kemur fram að eftir að Saddam Hussein var steypt af stóli árið 2003, hafi nýir leiðtogar Íraks átt í erfiðleikum með að marka lýðræðislega stefnu eftir áratuga einræði og hafi einkum tvær aðgerðir átt veigamikinn þátt í því. Í fyrsta lagi hafi ákvörðun Bandaríkjanna um að útiloka Baath-flokkinn, sem hafi lengi verið við völd og hvernig það hafi verið útfært, frá stjórn ríkisins skapað pólitískt tómarúm. Í öðru lagi hafi sú aðgerð að leysa upp her landsins og útiloka hundruð þúsunda þjálfaðra manna frá störfum við varnir ríkisins, án þess að koma á fót öðrum valkostum, skilið eftir öryggistóm. Í kjölfarið hafi Írak mátt þola borgarastyrjöld, pólitíska ringulreið, víðtæka spillingu, spennu á milli flokka og öfgahópa sem hafi hertekið þriðjung landsins. Við þessa atburði hafi hið pólitíska valdajafnvægi sem ríkt hafði undir stjórn súnníta um aldir riðlast verulega. Sjítar hafi krafist forsætisráðuneytisins og haft nægilegt vald til að stjórna helstu ráðuneytum. Þá hafi í fyrsta skipti verið kúrdískur forseti í Írak og urðu Kúrdar, sem lengi höfðu krafist sjálfsstjórnar frá Bagdad, hluti af ríkinu. Stjórnarskráin viðurkenni sjálfstjórn Kúrdistan héraðs (KRG) og formlega stöðu Pehmerga herafla hennar. Súnnítar, sem höfðu drottnað yfir ríkinu undir stjórn Saddams, hafi haldið lykilstöðu forseta þingsins en misst aðrar valdastöður. Árið 2011 ákváðu Bandaríkin að hverfa frá Írak með samkomulagi við stjórnvöld í Bagdad um að þau myndu innlima súnníta í íröksku öryggissveitirnar til að halda aftur af starfsemi öfgatrúarhópa. Íröksk stjórnvöld hafi hins vegar ekki fylgt því eftir að ráða minnihlutahópi súnníta í sína þjónustu og það hafi leitt til þess að öfgasamtökin Islamic State in Iraq (ISI) hafi endurskipulagt sig og fengið til liðs við sig þúsundir súnníta innan og utan Íraks, þar á meðal fyrrverandi stjórnarhermenn. Árið 2013 hafi hernaður samtakanna færst yfir til Sýrlands og endurnefndu þau sig sem Islamic State in Iraq and Syria (ISIS). Samtökin séu einnig þekkt sem ISIL (Islamic State in Iraq and the Levant (ISIL)) og Daesh (hér eftir verður notað Daesh). Fram kemur að hersveitir Daesh hafi hertekið Al Fallujah borg í Al Anbar héraði í desember 2013 og hafi írakski herinn, þrátt fyrir mun fleiri meðlimi, fallið í kjölfarið. Í júní 2014 hafi Daesh náð þriðjungi landsins á sitt vald og hafi leiðtogi Daesh, Abu Bakr al-Baghdadi, lýst yfir stofnun íslamsks ríkis í Mósúl, næststærstu borg Íraks, og nefnt sig kalífa. Á árunum 2015 til 2017 hafi írakskar öryggissveitir, kúrdískar Peshmerga-sveitir og PMF sveitir, studdar af flugherjum frá bandalagi undir forystu Bandaríkjanna, smám saman náð landsvæðum frá Daesh. Í desember 2017 lýsti Haider al-Abadi forsætisráðherra yfir sigri gegn Daesh.

Í skýrslu EUAA frá 2022 kemur fram að Daesh hafi ekki náð yfirráðum yfir frekara landsvæði síðan en reyni að festa sig í sessi á óaðgengilegum svæðum svo sem í dölum, fjöllum, eyðimörkum og á norður- og miðsvæði landsins. Þá hafi einhver starfsemi hópsins verið skráð í Al Anbar, Ninewa, Erbil, Bagdad beltinu, Diyala, Kirkuk og Salah al-Din. Baráttan um frelsun Mósúl frá Daesh sem hafi hafist í október 2016 hafi staðið yfir í níu mánuði og valdið gríðarlegri eyðileggingu borgarinnar. Frá því lýst var yfir sigri gegn Daesh í desember 2017 hafi samtökin háð skæruhernað með minna móti. Árásum hafi fækkað á seinni hluta árs 2020 en aukist á ný árið 2021, en fjöldi þeirra hafi þó haldist tiltölulega lágur. Flestar árásir í Ninewa héraði hafi verið ætlaðar til þess að halda óbreyttum borgurum og öryggissveitum frá því svæði sem helsta starfsemi samtakanna fari fram. Flestar árásir samtakanna í Ninewa árið 2021 hafi verið á raforkukerfið í héraðinu. Daesh noti svæði í Ninewa sem séu með litla viðveru öryggissveita sem eins konar flutningsmiðstöð og treysti á afskekktar bækistöðvar á eyðimerkursvæðum til að hýsa bardagamenn og koma á fót stjórnstöðvum. Hópur meðlima Daesh dvelji leynilega meðal þeirra sem séu skotmörk samtakanna og bíði eftir tækifæri eða fyrirmælum um að fremja árás. Meirihluti árása Daesh í Ninewa hafi átt sér stað innan umdæmis Mósúl. Samkvæmt gögnum ACLED hefur mannfall óbreyttra borgara árin 2021 og 2022 verið mjög lítill hluti af heildarfjölda íbúa og verulega lægri en á þeim tíma sem átök áttu sér stað milli stjórnarhers Íraks og Daesh á árunum 2014 til 2017.

Í skýrslu UK Home Office 2021 kemur fram að flestir Kúrdar í Írak búi í norðurhluta landsins. Árið 2005 hafi Kúrdum verið tryggð svæðisbundin sjálfstjórn í stjórnarskrá Íraks og sé norðausturhluti landsins skilgreindur sem sjálfsstjórnarhérað Kúrda (e. Kurdish Region of Iraq, KRI). Sjálfstjórnarsvæði Kúrdistan samanstandi af fjórum héruðum (e. governorate); Dohuk, Erbil, Halabja og Sulaymaniyah. Í skýrslu EASO frá 2018 kemur fram að löggæsla sé mun markvissari í KRI en í suður- og miðhluta Írak. Yfirvöld í Kúrdistan séu í stakk búin til að geta veitt borgurum þess fullnægjandi vernd en að aðgengi að réttarkerfinu geti þó verið háð ýmsum atriðum, svo sem því hver árásaraðili sé. Fyrir utan hefðbundna lögreglu sé KRI einnig með öryggissveitir sem nefnist Asayish. Þá hafi hersveitum kúrdíska hersins, Peshmerga, tekist að verja svæðið gegn árásum uppreisnarmanna Daesh. Þá kemur fram í skýrslum EASO frá 2020 og 2021 að Daesh hafi haft takmarkaða viðveru í Erbil og Sulaymaniyah héruðum. Héruðin séu almennt talin örugg og lítil hætta sé fyrir borgara þeirra að verða fyrir árásum.

Af skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2023 má ráða að spilling sé mikið vandamál í Írak, þar á meðal í stjórnmálum, löggæslu- og réttarkerfinu. Á undanförnum árum hafi talsvert verið unnið að því að uppræta spillingu af hálfu embættismanna í landinu og eitthvað hafi miðað áfram í þeim málum. Í upplýsingaskýrslu EEAS frá árinu 2014 kemur fram að á tímabilinu 2005 til 2013 hafi íröksk stjórnvöld unnið í samstarfi við Evrópusambandið að umbótum á stofnunum ríkisins, svo sem lögreglu, dómstólum og fangelsum landsins. Áætlunin nefnist The European Union Integrated Rule of Law Mission for Iraq (EUJUST-LEX-Iraq) og hafi m.a. 7000 opinberir starfsmenn undirgengist þjálfun í því skyni að koma á skilvirkri laga- og mannréttindavernd í landinu.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2022 um trúfrelsi kemur fram að Íslam sé hin opinbera trú í Írak. Um 97% íbúa Íraks séu múslímar og flestir þeirra séu sjíta-múslímar eða um 55-60% íbúa landsins. Þá séu um 40% íbúa landsins súnní-múslímar en um 15% íbúa séu súnní-múslimískir Kúrdar og 24% súnní-múslimískir arabar. Sjíta-múslímar séu ráðandi í suður- og austurhlutum landsins auk þess sem flestir íbúar höfuðborgarinnar Bagdad séu sjíta-múslímar. Íbúar norður-og vesturhluta landsins séu flestir súnní-múslímar sem og íbúar miðsvæðisins, þó að undanskilinni Bagdad. Íslam, kristni, Sabaean-mandaen og Jasíti séu einu trúarbrögðin sem geti verið tilgreind á írökskum skilríkjum, en skilríki útgefin árið 2016 og síðar beri ekki með sér hverrar trúar handhafi sé. Í skýrslu Landinfo frá 2018 kemur fram að í íröksku samfélagi séu einstaklingar skilgreindir út frá þeim trúarhópum sem þeir fæðist inn í og að litið sé með vanþóknun á trúleysi.

Í framangreindum skýrslum, þ. á m. skýrslu EUAA frá 2022, er fjallað um erfiða stöðu kvenna í Írak. Fram kemur að efnahagsþvinganir og langvarandi átök hafi leitt til þess að lífsgæði þeirra hafi farið versnandi. Karllæg gildi séu ríkjandi í Írak og skortur sé á umræðu um réttindi kvenna og getu þeirra til að taka frekar þátt í samfélaginu. Konur séu jaðarsettar á mörgum sviðum samfélagsins og hafi mætt margvíslegum hindrunum, þ. á m. hvað varðar aðgengi að vinnumarkaði og heilbrigðiskerfi. Þá hafi margvísleg mannréttindabrot beinst að konum, þ. á m. kynferðis- og heimilisofbeldi, kynfæralimlestingar, heiðursmorð og þvinguð hjónabönd. Konur hafi veigrað sér við að leita aðstoðar lögregluyfirvalda vegna þessa, m.a. vegna viðmóts yfirvalda í garð kvenna, og séu málin því oft leyst innan viðkomandi fjölskyldu eða ættbálks. Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2023 og skýrslu EUAA frá 2022 virða íröksk lög og venjur almennt ekki ferðafrelsi kvenna og koma lög t.a.m. í veg fyrir að þær geti sótt um vegabréf án samþykkis karlkyns forráðamanns eða lögmanns. Þá geti konur ekki fengið útgefin persónuskilríki, sem krafist sé fyrir aðgang að opinberri þjónustu, mataraðstoð, heilsugæslu, atvinnu, menntun og húsnæði, án samþykkis karlkyns ættingja. Konur í Írak séu berskjaldaðar fyrir ýmis konar misnotkun af hálfu vinnuveitenda. Einstæðar og fráskildar konur, ekkjur og konur á vergangi séu sérstaklega viðkvæmar fyrir félagslegum fordómum, efnahagslegri misnotkun, mismunun í tengslum við vinnuskilyrði og varnarlausar gagnvart nauðungarvinnu. Samkvæmt skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá 2022 hafi ótryggt félagshagfræðilegt ástand í Írak óhófleg áhrif á konur, ásamt fólki sem búi við fötlun, sem eigi oft erfiðara með að fá vinnu og lifa sjálfstætt sökum stofnana- og menningarlegra hindrana. Yfirvöld í Írak hafi gerst aðili að alþjóðlegum samningum um réttindi kvenna, s.s. samningi Sameinuðu þjóðanna frá 1986 um afnám allrar mismunar gagnvart konum (e. UN‘s Convention on the Elimination of All Forms of Discrimination Against Women, CEDAW), en hafi gert fyrirvara við nokkur af helstu ákvæðum samningsins. Þá hafi yfirvöld komið á fót aðgerðaráætlun um stöðu kvenna í Írak (e. National Action Plan concerning women for 2014-2018, NAP), sem byggð er á ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna frá 2014. Fyrrnefnd aðgerðaráætlun hafi átt að ná fram því markmiði að auka þátttöku kvenna í stjórnmálum og bæta réttindi þeirra en skort hafi á útfærslu og framkvæmd áætlunarinnar.

Í skýrslu EUAA frá árinu 2021 kemur fram að um 150 ættbálkar séu í Írak. Allt að 80% íbúa í Írak séu meðlimir ættbálka eða hafi tengsl við ættbálk. Ættbálkar í Írak séu gjarnan þungvopnaðir og hafi tekið þátt í innanlandsátökum. Einstaklingar sem fari ekki að vilja ættbálka sinna geti átt það á hættu að vera vísað á brott úr ættbálknum, vera útskúfað eða jafnvel drepin. Þá geti einstaklingar sem fari ekki að menningarlegum, samfélags- eða trúarlegum venjum ættbálks átt refsiaðgerðir á hættu, s.s. fjárhagsþvinganir. Í sömu skýrslu kemur fram að einstaklingar sem fylgi ekki hefðum og venjum samfélagsins í Írak og hegði sér á „vestrænan” hátt kunni að verða fyrir ofbeldi og hótunum, þá einkum konur.

Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá 2021 um heilbrigðiskerfið í Írak kemur fram að stjórnarskrá landsins tryggi ríkisborgurum aðgang að heilbrigðiskerfi landsins. Heilbrigðiskerfið í Írak hafi hafi sætt gagnrýni, m.a. fyrir skort á starfsfólki, lyfjum og almennu aðgengi. Þá sé aðgangur að heilbrigðisþjónustu takmarkaður og mismunandi eftir landsvæðum. Meirihluti heilsugæslustöðva og almennra sjúkrahúsa séu staðsettur í þéttbýli og geti ríkisborgarar þar sótt sér heilbrigðisþjónustu, m.a. geðheilbrigðisþjónustu, gegn vægu gjaldi. Flestar heilbrigðisstofnanir séu í Bagdad og þar á eftir komi héröðin Ninewa, Najaf og Basra. Þá sé einkarekin heilbrigðisþjónusta í vexti í landinu auk þess sem ýmis frjáls félagasamtök vinni með stjórnvöldum að því að tryggja aðgengi fyrir fólk á innri flótta sem og fólk sem snýr til baka til Íraks eftir að hafa flúið heimaríki sitt.

Í skýrslu Alþjóða fólksflutningsstofnunarinnar (IOM) frá árinu 2019 kemur fram að yfirvöld tryggi að öll börn eigi rétt á endurgjaldslausri menntun frá sex ára aldri. Fjölskyldur sem snúi aftur til Íraks eftir að hafa sótt um alþjóðlega vernd í öðrum löndum geti sótt um aðstoð hjá stofnuninni við enduraðlögun. Í skýrslu EASO frá árinu 2020 kemur fram að það séu ýmsar hindranir að aðgengi að menntun fyrir börn á innri flótta og börn sem séu búsett á svæðum sem hafi verið undir stjórn Daesh.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsóknum kærenda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærendur byggja á því að þau hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir sem rekja megi til starfs M fyrir […]. M hafi sætt hótunum af hálfu tveggja nafngreindra aðila og aðilum þeim tengdum. Þá hafi verið skotið á heimili fjölskyldunnar. Aðilarnir hafi tengsl við stjórnmálaflokkinn PUK og njóti verndar valdamikilla einstaklinga. Þá hafi M ekki skilað inn einkennismerki sínu og skilríki til […] og eigi yfir höfði sér fangelsisvist í heimaríki. 

Mat á trúverðugleika frásagnar kærenda og barna þeirra er byggt á endurritum af viðtölum þeirra hjá Útlendingastofnun, viðtölum þeirra hjá sænskum stjórnvöldum vegna umsóknar þeirra um vernd þar í landi, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki þeirra.

Í efnisviðtali hjá Útlendingastofnun greindi M frá því að hafa starfað hjá […] í borginni […]. Hann hafi starfað í deild sem hafi rannsakað brot tengd fíkniefnum. Í maí 2014 hafi hann í félagi við tvo samstarfsfélaga sína handtekið þrjá nafngreinda menn. Tveimur mannanna, X og I, hafi verið sleppt úr haldi stuttu síðar en sá þriðji, H, hafi látist í varðhaldi. Litið hafi út fyrir að hann hafi framið sjálfsvíg en margt hafi þó verið óljóst hvað varðaði andlát hans. Í kjölfarið hafi M borist ítrekaðar hótanir frá X, I og öðrum aðilum tengdum H. M greindi jafnframt frá því að hann eigi yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsisvist í heimaríki þar sem hann hafi ekki skilað inn einkennismerki og skilríki til […]. Kvaðst M hafa átt að skila skilríkjunum og einkennismerkinu til stofnunarinnar áður en hann hafi flúið landið. Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun lagði M m.a. fram ljósmyndir af einkennismerki og […] skilríkjum merktum sér. M lagði jafnframt fram afrit af skjali sem hann kveður vera ákæru á hendur sér fyrir að hafa ekki skilað inn umræddum hlutum til stofnunarinnar áður en hann hafi flúið heimaríki sitt. Hinn 27. júní 2023 lagði kærandi fram […] einkennismerki hjá kærunefnd sem hann kveður vera sitt.

Frásagnir kærenda í viðtölum hjá Útlendingastofnun voru að mestu leyti sambærilegar frásögnum þeirra hjá sænskum stjórnvöldum. Kváðust kærendur í viðtali hjá sænskum stjórnvöldum hafa verið búsett í Komtan og […] í Írak. Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst K hins vegar hafa verið búsett alla tíð í […] þar til þau hafi flúið til Dokan en M kvaðst hafa fæðst og alist upp í Komtan til 18 ára aldurs. Í viðtali hjá sænskum stjórnvöldum minntust þau ekki á að hafa flúið til Dokan og verið búsett þar í nokkra mánuði áður en þau hafi yfirgefið Írak, líkt og þau gerðu í viðtölum hjá Útlendingastofnun. Er því ekki fulls samræmis að gæta í viðtölum þeirra varðandi búsetu þeirra í heimaríki.

Það var niðurstaða sænsku útlendingastofnunarinnar, með tilliti til frásagna þeirra og framlagðra gagna, að ekki væri ástæða til að efast um að M hafi starfað hjá […] í heimaríki. Það var þó mat stofnunarinnar að kærendur hefðu ekki veitt áreiðanlegar upplýsingar um að M hafi gegnt þeirri stöðu sem hann kvaðst hafa gegnt hjá […] á árunum 2012 til 2014 og að honum hafi verið ógnað af háttsettum mönnum vegna þess að hann hafi handtekið þrjá einstaklinga sem tengdir hafi verið hinum háttsettu mönnum. Var frásögn kærenda að þessu leyti því ekki lögð til grundvallar. Var einungis lagt til grundvallar að þau væru Kúrdar, múslímar og kæmu frá Komtan í Írak.

Með vísan til frásagna kærenda og framlagðra gagna telur kærunefnd ekki ástæðu til að draga í efa að M hafi starfað hjá […] í heimaríki á einhverjum tímapunkti. Kærunefnd telur hins vegar ekki hafa verið sýnt fram á, m.a. með hliðsjón af viðtölum kærenda, M og K, hjá Útlendingastofnun og sænskum stjórnvöldum, að M hafi gegnt þeirri stöðu sem hann kveðst hafa gegnt innan […] sem hafi m.a. falist í því að handtaka þrjá einstaklinga. Í viðtali hjá sænskum stjórnvöldum gat M ekki lýst starfi sínu hjá […] með ítarlegum hætti eða hvað í því hafi almennt falist. Þá hafa kærendur ekki lagt fram nein gögn sem styðja frásögn þeirra af þeim hótunum sem þeim hafi borist og skotárásinni á heimili þeirra. M kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun hafa borist ítrekaðar hótanir símleiðis og neyðst til að skipta um símanúmer áður en hann hafi yfirgefið heimaríki. Kvaðst hann hafa lagt öll gögn varðandi hótanirnar fram hjá sænskum stjórnvöldum. Í ákvörðun sænsku útlendingastofnunarinnar kemur hins vegar fram að M hafi ekki lagt fram nein gögn sem sýni fram á að honum hafi borist hótanir utan bréfs frá lögreglu í Írak, sem væri þó ekki til þess fallið að styðja við frásögn kærenda þar sem bréfið væri afar einfalt að gerð og innihéldi enga öryggisþætti. Kærandi greindi frá því í viðtali hjá sænskum yfirvöldum að hann gæti ekki sýnt fram á skilaboðin sem honum hafi borist í síma af því að hann hefði skipt um síma og bréfin sem honum hafi borist með hótunum hefði hann lagt fram hjá lögreglu í heimaríki og hefði þau því ekki. Þá kemur fram í ákvörðun sænsku útlendingastofnunarinnar að hvorki M né K hafi getað lýst því hvað hafi falist í hótununum, hvenær þeim hafi verið hótað, hversu oft og hvernig þau hafi vitað að framangreindir aðilar stæðu að baki þeim. Í ljósi framangreinds rökstuðnings sænsku útlendingastofnunar sendi kærunefnd M tölvubréf, dags. 13. júní 2023, þar sem honum var gefið færi á að leggja fram öll gögn sem sýndu fram á umræddar hótanir. Kærunefnd bárust svör frá B 14. júní 2023 þar sem fram kom að M hefði lagt fram gögn hjá sænskum stjórnvöldum sem hefðu sýnt fram á hótanirnar. Kærunefnd bárust engin frekari gögn frá kærendum. Með vísan til alls framangreinds er það mat kærunefndar að kærendum hafi ekki tekist að sýna fram á með rökstuddum hætti að M hafi gegnt þeirri stöðu sem hann kveðst hafa gegnt innan […], að hann hafi handtekið þrjá aðila í Írak og að fjölskyldumeðlimir þeirra leiti nú M og vilji hann feigan.

Hvað varðar frásögn M um að hans bíði fangelsisvist í heimarík þá horfir kærunefnd til þess að afrit skjalsins sem M lagði fram og kveður vera ákæru á hendur sér er óskýrt og er torvelt að lesa það sem þar kemur fram. Þá er það einfalt af allri gerð og ekki hægt að staðreyna gildi þess. Þá kemur fram í ákvörðun sænsku útlendingastofnunarinnar að M hafi lagt fram frumrit skjalsins en að það hafi að mati stofnunarinnar verið ótraustvekjandi og ekki til þess fallið að renna stoðum undir frásögn hans. Með vísan til framangreinds taldi kærunefnd ekki ástæðu til að óska eftir frumriti skjalsins. Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun lagði M auk þess fram ljósmynd af skjali sem hann kveður vera dóm frá apríl 2017. Skjalið er að mestu leyti eins útlítandi og framangreint ákæruskjal og er að mati kærunefndar ekki til þess fallið að styðja frekar við frásögn kæranda, einkum í ljósi þess að aðeins er um ljósmynd að ræða og því engin leið að sannreyna gildi þess. Með vísan til alls framangreinds er það mat kærunefndar að M hafi ekki tekist að sýna fram á með rökstuddum hætti að hans bíði fangelsisvist í heimaríki sínu. 

Samkvæmt 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal, við mat skv. 1. og 2. mgr. 37. gr. í málum sem varða börn, fylgdarlaus sem önnur, hafa það sem er barninu fyrir bestu að leiðarljósi. Í ákvæðinu kemur fram að við það mat beri að líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis barnsins, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skal tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Leggur kærunefnd mat á hagsmuni þeirra samkvæmt 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga með hliðsjón af upplýsingum úr fyrirliggjandi gögnum málsins og framangreindum aðstæðum í heimaríki þeirra. Að mati kærunefndar var sjónarmiðum barnsins C nægilega komið á framfæri með framburði kærenda og hagsmunagæslu talsmanns. Kærunefnd telur að teknu tilliti til ákvæða barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og íslenskrar löggjafar um barnavernd, að engin rök standi í vegi fyrir því að C fylgi foreldrum sínum aftur til heimaríkis. Kærunefnd horfir m.a. til þess að barn það sem um ræðir er í fylgd foreldra sinna sem eru heilsuhraust og vinnufær og nýtur barnið stuðnings þeirra. Líkt og áður greinir stendur barni kæranda til boða gjaldfrjáls menntun frá sex ára aldri í heimaríki. Þá beri gögn með sér að barnið muni jafnframt hafa aðgang að heilbrigðiskerfinu í heimaríki. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar, að teknu tilliti til sjónarmiða um öryggi, velferð og félagslegan þroska barnsins, að það sé því fyrir bestu að fylgja foreldrum sínum til heimaríkis síns.

Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að kærendur og C hafi ekki sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. og 3. mgr. 38. gr. laganna. Telur kærunefnd því ljóst að kærendur og börn þeirra uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Þær heimildir sem kærunefnd hefur skoðað benda til þess að Kúrdistan sé að mestu talið öruggt svæði í Írak og að lögregla og öryggissveitir Kúrda séu öflugar og vel búnar. Að teknu tilliti til trúverðugleika kærenda, gagna málsins og heimilda bendir ekkert til þess að þau eða C séu í raunverulegri hættu á að sæta dauðarefsingu eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í heimaríki sínu. Jafnframt er það mat kærunefndar, með vísan til skýrslna um aðstæður í heimaríki kærenda, að þeim standi til boða vernd og aðstoð lögreglu í Kúrdistan telji þau sig þurfa á slíkri aðstoð að halda.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kærenda telur kærunefndin að aðstæður þeirra og C þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærendur og C uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi. 

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærendur og C uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eiga þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu, að því tilskildu að skorið hafi verið úr um að hann uppfylli ekki skilyrði 38. gr. og 39. gr. laganna. Frekari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í þeim tilvikum koma fram í a- til d-lið 2. mgr. 74. gr. laganna en þau er að tekin hafin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd, ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er, ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda og að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls.

Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi 22. nóvember 2021. Eins og fram hefur komið sættu umsóknir kærenda og C fyrst málsmeðferð í samræmi við c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga þar sem sænsk stjórnvöld báru ábyrgð á umsóknum þeirra og höfðu samþykkt viðtöku þeirra á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað 3. febrúar 2022 að taka umsóknir kærenda og C um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og að þeim skyldi vísað frá landinu. Kærunefnd útlendingamála staðfesti ákvarðanir Útlendingastofnunar 31. mars 2022 með úrskurði nefndarinnar nr. 148/2022. Eins og fram hefur komið lögðu kærendur fram beiðni um endurupptöku 13. september 2022. Þá barst kærunefnd önnur beiðni frá K um endurupptöku 15. september 2022 á þeim grundvelli að aðstæður hefðu verulega breyst þar sem M væri horfinn. Ekkert hefði spurst til hans í nokkurn tíma og fjölskyldan vissi ekki hvar hann væri niðurkominn. Með úrskurðum kærunefndar nr. 387/2022 og 391/2022, dags. 22. september 2022, var beiðnum kærenda um endurupptöku hafnað.

Kærendur lögðu fram beiðni um endurupptöku að nýju 30. september 2022 á þeim grundvelli að frestur til að flytja fjölskylduna til viðtökuríkis, þ.e. Svíþjóðar, samkvæmt 1. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar væri runninn út. Kröfðust kærendur þess að Útlendingastofnun yrði gert að taka umsóknir fjölskyldunnar til efnismeðferðar. Hinn 24. nóvember 2022 bárust kærunefnd viðbótarathugasemdir þar sem fram kom að meira en 12 mánuðir væru liðnir síðan fjölskyldan hefði sótt um alþjóðlega vernd hér á landi. Töldu kærendur að tafir á afgreiðslu umsókna fjölskyldunnar væru ekki á þeirra ábyrgð. Með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 töldu kærendur að taka ætti umsóknirnar til efnismeðferðar á Íslandi. Með úrskurðum kærunefndar nr. 3/2023, 4/2023 og 5/2023, dags. 10. janúar 2023, tók kærunefnd afstöðu til framangreindra málsástæðna kærenda.

Við meðferð málanna, n.t.t. 10. október 2022, óskaði kærunefnd eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun og stoðdeild ríkislögreglustjóra um flutning kærenda og C til viðtökuríkis, s.s. hvort frestur til flutnings hafi verið framlengdur úr sex mánuðum í 18 mánuði, sbr. 2. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Svar Útlendingastofnunar barst þann sama dag en þar kemur fram að fjölskyldan hafi verið skráð horfin og eftirlýst og tilkynning um það send til viðtökuríkisins. Þá hafi frestur til flutnings verið framlengdur úr 6 í 18 mánuði, sbr. síðari málslið 2. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Í svari stoðdeildar sem barst kærunefnd 11. október 2022, kom m.a. fram að stoðdeild hefði farið í búsetuúrræði fjölskyldunnar 26. september 2022 til að ræða um flutning til Svíþjóðar morguninn 28. september 2022. Stoðdeild hefði hitt á K og B en B hefði talað mjög góða ensku og túlkað fyrir K. Þeim hafi verið tilkynnt að 28. september 2022 myndu þau vera sótt. K hafi greint frá því að M og A hefðu látið sig hverfa og ekkert hafi spurst til þeirra síðan þá. K hafi verið tilkynnt að hún auk B og C yrðu flutt 28. september 2022 þrátt fyrir að feðgarnir myndu ekki skila sér. Þá hafi stoðdeild farið í búseturúrræði kærenda 27. september 2022 og tilkynnt K að þau yrðu sótt daginn eftir. Hinn 28. september 2022 hafi stoðdeild farið í búsetuúrræði kærenda til að flytja K, B og C úr landi. Þar hafi K verið ásamt B og þær greint frá því að hafa ekki pakkað niður í ferðatösku. Aðspurðar hafi K og B greint frá því að C hefði sofið annars staðar. Þær hafi ekki vitað hvar og hefðu ekki símanúmer til þess að boða hann til baka. Gæsla hefði verið sett utan við íbúðina, ef C kæmi, en hún hafi verið tekin af klukkan 10 þar sem fyrirséð hafi verið að flutningur gengi ekki upp þennan dag. Stoðdeild hefði áður reynt að hafa samband við M án árangurs. Oftast hafi verið slökkt á síma hans en í það eina skipti sem hann hafi svarað síma hafi hann ekki viljað gefa upp dvalarstað og hafi beðið um að haft yrði samband við B. K og B hefðu greint frá því að hafa ekki heyrt í M og A í marga mánuði.

Það var mat kærunefndar að M, K, A og B hefðu hlaupist á brott í skilningi 2. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Önnur niðurstaða hefði að mati kærunefndar gengið gegn tilgangi Dyflinnarreglugerðarinnar og laga um útlendinga um tryggja skilvirka málsmeðferð í þágu umsækjenda um alþjóðlega vernd. Frestur til að flytja kærendur og C til viðtökuríkis á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar væri ekki liðinn og skilyrði 1. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar fyrir því að Ísland bæri ábyrgð á umsóknum þeirra um alþjóðlega vernd væru því ekki uppfyllt. Var beiðni kærenda um endurupptöku úrskurðar kærunefndar á þeim grundvelli því hafnað.

Hvað varðaði síðari málsástæðu kærenda um 2. málsl. 2.mgr. 36. gr. laga um útlendinga þá var það mat kærunefndar að óumdeilt væri að M, K og A hefðu tafið mál sín með því að koma sér undan framkvæmd ákvörðunar. Það var hins vegar mat kærunefndar að börn gætu ekki talist bera ábyrgð á töfum í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga þegar rekja mætti þær tafir til athafna forráðamanna. Með úrskurðum kærunefndar nr. 3/2023, 4/2023 og 5/2023, dags. 10. janúar 2023, var fallist á endurupptökubeiðnir fjölskyldunnar. Ákvarðanir Útlendingastofnunar voru felldar úr gildi og lagt var fyrir stofnunina að taka mál þeirra til efnismeðferðar.

Frá því kærendur og C sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi þar til úrskurður þessi er kveðinn upp, dags. 20. júní 2023, er liðið eitt ár og sjö mánuðir. Kærendur teljast því ekki hafa fengið niðurstöðu í málum sínum á stjórnsýslustigi innan þeirra tímamarka sem getið er í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Að mati kærunefndar uppfylla kærendur og C skilyrði a- til c-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður ekki talið að kærendur og A hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn mála sinna. Jafnframt er ljóst með vísan til framangreinds að M og A uppfylla ekki skilyrði b-liðar 3. mgr. laga um útlendinga sem kveður á um að 2. mgr. 74. gr. eigi ekki við um útlending sem dvalist hefur á ókunnum stað í meira en tvær vikur. Þá kveður d-liður 3. mgr. 74. gr. á um að 2. mgr. 74. gr. eigi ekki við um útlending sem sjálfur eigi þátt í því að niðurstaða hafi ekki fengist innan tímamarka. Líkt og fram hefur komið er óumdeilt að mati kærunefndar að M, K og A töfðu mál sín sjálf, m.a. með því að fara í felur og neita að vinna með stjórnvöldum. Í 4. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt sé að víkja frá ákvæðum 2. mgr. ákvæðisins þegar sérstaklega standi á. Ekkert hefur komið fram sem að mati kærunefndar gefur tilefni til þess að beita undanþáguákvæði 4. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá er ekki mælt fyrir um undanþágur frá ákvæðum 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Með vísan til framangreinds er það því niðurstaða kærunefndar að M, K og A uppfylli ekki skilyrði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. laganna.

Eins og fram hefur komið er það afstaða kærunefndar að börn geti ekki talist bera ábyrgð sjálf á töfum, enda megi rekja þær tafir til athafna forráðamanna. Barn kærenda, B, er fætt árið 2004 og telst því ekki lengur barn í skilningi laganna. Kærunefnd tekur hins vegar mið af aldri B á þeim tíma þegar foreldrar hennar og A töfðu mál fjölskyldunnar en hún var þá 17 ára gömul. Er það mat kærunefndar að B og C uppfylli skilyrði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá eigi ekkert af þeim tilvikum sem tilgreind eru í 3. mgr. 74. gr. laganna við um þau. Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar að veita beri B og C dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Meginreglan um einingu fjölskyldunnar á samkvæmt handbók Flóttamannastofnunar um réttarstöðu flóttamanna einungis við um flóttamenn. Kærunefnd hefur hins vegar almennt haft meginregluna til hliðsjónar við mat á 74. gr. laga um útlendinga. Í handbókinni kemur fram að meginreglan skuli að lágmarki ná til maka og ólögráða barna, en í raun séu aðrir þeir sem séu á framfæri flóttamannsins að öllu jöfnu taldir vera flóttamenn ef þeir haldi heimili saman. Í ljósi þess að C er ólögráða og forsjá þess er í höndum M og K verður lagt fyrir Útlendingastofnun að veita þeim einnig dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga. Ljóst er að A er 19 ára og því lögráða. Hins vegar horfir kærunefnd til þess að A hefur búið hjá foreldrum sínum í Írak, Svíþjóð og nú hér á landi og hafa mál fjölskyldunnar haldist í hendur. Þá má ráða að hann hafi ávallt verið á framfæri foreldra sinna í ljósi ungs aldurs hans. Í ljósi þess að foreldrum hans hefur verið veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða telur kærunefnd rétt með vísan til meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar að A verði einnig veitt dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Athugasemdir kærunefndar við ákvarðanir Útlendingastofnunar

Við meðferð málanna hjá Útlendingastofnun óskaði talsmaður kærenda eftir því við Útlendingastofnun að stofnunin aðstoðaði kærendur við að afla frumrita vegabréfa þeirra frá sænskum stjórnvöldum. Hefði talsmaðurinn haft samband við sænsk yfirvöld og fengið þau svör að vegabréfin yrðu aðeins send til Íslands ef íslensk útlendingayfirvöld myndu senda slíka beiðni. Ráða má af ákvörðunum Útlendingastofnunar að stofnunin hafi ekki talið þörf á að óska eftir frumritum vegabréfanna þar sem ekki væri dregið í efa að kærendur kæmu frá Kúrdistan og væru írakskir ríkisborgar. Óskaði stofnunin því ekki eftir vegabréfum kærenda frá sænskum stjórnvöldum þrátt fyrir að fyrir lægi að vegabréf þeirra væru þar.

Eitt af grundvallaratriðum við rannsókn íslenskra stjórnvalda í tengslum við umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi er að staðreyna auðkenni umsækjenda. Hafi íslensk stjórnvöld tök á því að staðreyna auðkenni sem umsækjendur gefa, m.a. með því að afla gagna frá stjórnvöldum í öðrum ríkjum en heimaríki umsækjenda, eiga stjórnvöld að óska eftir slíkum gögnum. Þrátt fyrir að ekki sé ástæða til annars en að leggja til grundvallar uppgefið ríkisfang umsækjenda er ljóst að skilríki er sanna auðkenni umsækjenda eru mikilvæg gögn hvort sem umsækjanda verður veitt vernd hér á landi eða ekki, sbr. m.a. 2. mgr. 24. gr. og 2. mgr. 26. laga um útlendinga. Hefði því verið rétt af Útlendingastofnun að óska eftir framangreindum vegabréfum eða að lágmarki staðfestingu sænskra yfirvalda á framlagningu þeirra og gildi.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barna þeirra að því er varðar synjun á umsóknum um alþjóðlega vernd. Lagt verður fyrir Útlendingastofnun að veita kærendum og börnum þeirra dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kærendum og C dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvarðanir Útlendingastofnunar hvað varðar umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd eru staðfestar.

The Directorate is instructed to issue the appellants and C residence permits based on Article 74(2) of the Act on Foreigners. The decisions of the Directorate of Immigration with regard to their applications for international protection are affirmed.

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

 

Sindri M. Stephensen                                                Þorbjörg I. Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum