Hoppa yfir valmynd
5. ágúst 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Þjónustustofnanir fyrir fatlaða

Félagsmálaráðherra heimsækir Sjálfsbjargarhúsið

Félagsmálaráðherra heimsótti síðastliðinn fimmtudag Sjálfsbjargarhúsið við Hátún 12 og Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi við Digranesveg 5 í Kópavogi.

Félagsmálaráðherra hefur eins fram hefur komið lýst því yfir að hann muni á starfstíma sínum láta sig málefni fatlaðra miklu varða. Til þess að kynnast betur aðstæðum fatlaðra ákvað ráðherra að heimsækja Sjálfsbjargarhúsið við Hátún 12 og Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi. Þessar heimsóknir voru einungis byrjun á fjölda heimsókna þar sem ráðherra hyggst heimsækja stofnanir og starfsstöðvar þar sem fötluðum er veitt þjónusta.

Í fyrri heimsókninni þennan dag tóku á móti ráðherra og fylgdarliði Sigurður Einarsson, framkvæmdastjóri Sjálfsbjargar landssambands fatlaðra, og Tryggvi Friðjónsson, framkvæmdastjóri Sjálfsbjargarheimilisins. Þeir kynntu fjölda þeirra úrræða sem boðið er upp á í húsinu. Í sumar hefur t.d. Sjálfsbjörg boðið ellefu fötluðum ungmennum upp á vinnu við ýmiss konar verkefni. Eitt þessara verkefna er blaðaútgáfa þar sem þessi ungmenni hafa fengið tækifæri til þess að búa til blað sem fylgja mun "Klifri" sem er fréttablað Sjálfsbjargar. Lýsti ráðherra yfir ánægju með þetta framtak og óskaði eftir að fylgjast frekar með framvindu þess. Í framhaldi skoðaði ráðherrann endurhæfingaríbúð fyrir hreyfihamlað fólk sem vill búa sig undir að lifa sjálfstæðu lífi. Fram kom að á síðastliðnum tíu árum hafa á annan tug einstaklinga dvalið í þessari íbúð. Ráðherra skoðaði einnig íbúðir á dvalarheimilinu þar sem nú búa um 38 einstaklingar og eru þar af tveir í skammtímadvöl. Loks skoðaði ráðherra sundlaug og þjónustumiðstöð heimilisins. Heimsókninni lauk síðan með hádegisverði þar sem formaður Sjálfsbjargar, Arnór Pétursson, hélt stutt ávarp. Félagsmálaráðherra lýsti síðan yfir ánægju sinni með þessa heimsókn.

Eftir hádegisverðinn hélt ráðherra ásamt fylgdarliði áfram för sinni og heimsótti Svæðisskrifstofu Reykjaness. Þar tók framkvæmdastjóri Svæðisskrifstofunnar ásamt starfsfólki á móti ráðherra. Framkvæmdastjórinn hélt stutta tölu og kynnti starfsemina. Fram kom að nú eru vel á fjórða tug starfsstöðva sem starfa undir hatti skrifstofunnar og hefur umfangið aukist verulega á síðustu árum. Framkvæmdastjóri kynnti áherslur skrifstofunnar til næstu ára og var sérstaklega vakin athygli á búsetumálum og skammtímavistunarmálum. Í máli starfsmanna kom fram að álag á starfsemina er mikið þar sem sífellt fleiri verkefni bætast við. Eftir kynningu starfsmanna á starfseminni voru sambýli við Vallargerði, Blikaás og Erluás heimsótt.

Fleiri myndir:



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum