Hoppa yfir valmynd
9. febrúar 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Tryggja fjármagn í bráðaviðgerðir á Norræna húsinu

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, samstarfsráðherra Norræns samstarfs, tók í gær þátt í fyrsta fundi samstarfsráðherra Norðurlandanna á árinu fyrir hönd Íslands. Norski samstarfsráðherrann stýrði fundinum, en Norðmenn fara með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á þessu ári. Ísland tekur við formennsku á næsta ári.

Á dagskrá samstarfsráðherrana voru ýmis málefni tengd samstarfi Norðurlandanna. Málefni Norræna hússins í Vatnsmýrinni voru rædd sérstaklega. Húsið er í eigu Norrænu ráðherranefndarinnar og er þörf á viðgerðum til að halda því í því horfi sem sæmir einu af kennileitum Reykjavíkurborgar og mikilvægum vettvangi fyrir Norræna menningu. Húsið er hannað af finnska hönnuðinum Alvar Aalto, opnaði 1968 og er friðað. Á fundinum fór Guðmundur Ingi yfir mikilvægi Norræna hússins fyrir íslenska og norræna list og menningu, samstarf og menningartengsl þjóðanna og hlutverk hússins sem miðpunktar norrænnar samvinnu á Íslandi. Norræna ráðherranefndin samþykkti að tryggja fjármagn svo hægt yrði að ráðast strax í nauðsynlegar bráðaviðgerðir og að fundnar verði leiðir til að tryggja frekari viðgerðir og viðhald til framtíðar.

Meðal annarra mála á dagskrá fundarins voru fjármál skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar og gerð fjárlaga nefndarinnar. Samþykktu ráðherrarnir heildarramma fjárlaga fyrir árið 2023, sem verður um 19 milljarðar íslenskra króna á verðlagi ársins 2022. Þá var rætt um aukið samstarf við Norðurlandaráð um fjárhagsáætlunarferlið, norrænt samstarf á krísutímum og um drög að samstarfsáætlun um aðlögun flóttamanna og innflytjenda. Lögðu ráðherrarnir áherslu á að ráðstöfun fjármuna væri í samræmi við framtíðarsýnina fyrir norrænt samstarf um sjálfbærasta, samkeppnishæfasta og samþættasta svæði heims fyrir árið 2030.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum