Hoppa yfir valmynd
13. febrúar 2023 Innviðaráðuneytið

Mál nr. 72/2022-Úrskurður

KÆRUNEFND HÚSAMÁLA

ÚRSKURÐUR

uppkveðinn 13. febrúar 2023

í máli nr. 72/2022

 

A ehf.

gegn

B

 

Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir lögmaður, Víðir Smári Petersen dósent og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur. 

Aðilar málsins eru:

Sóknaraðili: A ehf.

Varnaraðili: B.

Krafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að varnaraðila beri að greiða reikning að fjárhæð 150.000 kr. vegna skemmda sem hafi orðið á hinu leigða á leigutíma.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað að því undanskildu að hann fallist á að greiða kostnað vegna viðgerðar á hurð.

Með kæru, dags. 19. júlí 2022, beindi sóknaraðili til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við varnaraðila. Með bréfi kærunefndar, dags. 25. júlí 2022, var varnaraðila gefinn kostur á að tjá sig um efni kærunnar. Greinargerð varnaraðila, dags. 7. ágúst 2022, barst kærunefnd sama dag. Kærunefnd sendi sóknaraðila greinargerð varnaraðila með bréfi, dags. 10. ágúst 2022, til upplýsingar og var sóknaraðila veittur frestur til að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust ekki.

Með tölvupósti 18. október 2022 óskaði kærunefnd upplýsinga sóknaraðila um hvort fyrir lægju gögn til sönnunar á fjárhæð krafna hans. Gögn bárust með tölvupósti sóknaraðila 21. október 2022 og voru þau send varnaraðila með tölvupósti kærunefndar 25. október 2022. 

Með tölvupósti kærunefndar 18. október 2022 var óskað eftir upplýsingum frá varnaraðila um það hvort skápur sem sóknaraðili hefði þurft að farga hefði verið í eigu hans. Engin svör bárust við þeirri fyrirspurn.

Með tölvupósti 19. janúar 2023 óskaði nefndin eftir því að sóknaraðili legði fram gögn og/eða frekari skýringar sem styddu fullyrðingu hans um að dýrara hefði verið að kaupa spegil á baðskápinn en að skipta um hann. Svör bárust með tölvupósti 1. febrúar 2023 og voru þau send varnaraðila með tölvupósti kærunefndar 2. febrúar 2023.

I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Aðilar gerðu tímabundinn leigusamning frá 1. október 2020 til 30. apríl 2022 um leigu varnaraðila á íbúð sóknaraðila að C. Ágreiningur er um bótakröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila vegna skemmda sem hafi orðið á hinu leigða á leigutíma.

II. Sjónarmið sóknaraðila

Sóknaraðili kveður varnaraðila hafa flutt út 30. maí 2022. Við skoðun hafi komið í ljós að það þyrfti að mála og þrífa á kostnað sóknaraðila og henda gardínum.

Krafa sóknaraðila byggir á reikningi að fjárhæð 20.000 kr. vegna kostnaðar við að farga skáp sem varnaraðili hafi skilið eftir. Þá hafi sóknaraðili þurft að skipta um hurð en varnaraðili hafi verið búinn að setja nýja (gamla) hurð í sem hafi ekki passað og ekki verið hægt að loka henni þar sem ekki hafi verið skráargat á henni. Kostnaður vegna þessa nemi 80.000 kr. Að lokum hafi varnaraðili brotið baðskáp og hafi sóknaraðili þurft að kaupa nýjan á 50.000 kr. 

Varnaraðili hafi ætlað að vera á staðnum við úttektina en þegar til hafi komið hafi hann ekki verið á staðnum.

Varnaraðili hafi rætt við starfsmann D ehf. um að hann hafi jú skemmt eitthvað en að hann teldi það ekki svona mikið og að hann hygðist ekki greiða kostnaðinn. Í samtalinu hafi hann sagt að hann hefði skemmt hurð.

Varnaraðili hafi sent tölvupóst 9. júní 2022 og fengið sendan reikning frá sóknaraðila samdægurs. Hann hafi svarað þeim pósti 14. júní 2022 þar sem hann hafi viðurkennt að hafa brotið spegilinn en þá hafi hann ekki kannast við að hafa brotið hurðina. Starfsmaður sóknaraðila hafi hringt í varnaraðila og gert honum grein fyrir þessu en engin frekari viðbrögð hafi komið frá honum þar sem hann hafi hafnað reikningnum.

III. Sjónarmið varnaraðila

Varnaraðili segir að hann hafi skemmt hurð í einu herbergi í flutningnum og hann sé tilbúinn að greiða kostnað vegna hennar. Hann sé þó ekki tilbúinn að greiða 50.000 kr. fyrir eldgamlan baðherbergisskáp en hurðin hafi dottið af honum og á dóttur hans en spegillinn á skápahurðinni hafi bara brotnað. Það hafi verið í lagi með fataskápinn en hann viti ekki hvað hafi verið að honum. Gardínur hafi verið í öllum gluggum við upphaf leigutíma og íbúðin hafi ekki verið vel máluð.

Varnaraðili hafi beðið í hálftíma eftir þeim einstaklingi sem hafi átt að taka íbúðina út en hann hafi ekki mætt á þeim tíma sem varnaraðili hafi fengið úthlutaðan.

IV. Niðurstaða            

Sóknaraðili gerir kröfu um viðurkenningu á því að varnaraðila beri að greiða reikning að fjárhæð 150.000 kr. vegna förgunar á skáp sem varnaraðili hafi skilið eftir í hinu leigða við lok leigutíma, skemmda á hurð sem og á baðherbergisskápi.

Í 63. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, segir að leigjandi skuli að leigutíma loknum skila húsnæðinu í hendur leigusala ásamt tilheyrandi fylgifé í sama ástandi og hann tók við því. Beri leigjandi óskerta bótaábyrgð á allri rýrnun húsnæðisins eða spjöllum á því, að svo miklu leyti sem slíkt teljist ekki eðlileg afleiðing venjulegrar eða umsaminnar notkunar húsnæðisins eða stafi af atvikum sem voru leigjanda sannanlega óviðkomandi.

Í 1. mgr. 64. gr. húsaleigulaga segir að bótakröfu sinni á hendur leigjanda verði leigusali að lýsa skriflega, eða hafa uppi áskilnað þar að lútandi, innan fjögurra vikna frá skilum húsnæðisins.

Í 1. mgr. 69. gr. húsaleigulaga segir að leigjandi og leigusali eða umboðsmenn þeirra skuli gera úttekt á ástandi hins leigða húsnæðis áður en afhending fari fram og við lok leigutíma. 

Sóknaraðili fullyrðir í kæru sinni að farga hafi þurft skáp í eigu varnaraðila við lok leigutíma. Þar sem óljóst var af gögnum málsins hvort umrædd fullyrðing stæðist beindi kærunefnd fyrirspurn til varnaraðila þar um en engin svör bárust þrátt fyrir ítrekaða beiðni. Verður því að leggja umrædda fullyrðingu sóknaraðila til grundvallar. Með hliðsjón af framangreindu fellst kærunefnd á kröfu varnaraðila að fjárhæð 20.000 kr. vegna förgunar á skápnum.

Þá hefur varnaraðili viðurkennt að hafa eyðilagt hurð í flutningum og fallist á að greiða kostnað vegna viðgerðar á henni. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila að þessu leyti en fjárhæð hennar, 80.000 kr., hefur ekki sætt andmælum.

Hvað varðar skáp inni á baðherbergi húsnæðisins er óumdeilt aðila á milli að spegill á honum hafi brotnað. Varnaraðili kveðst ekki hafa valdið skemmdum á skápnum heldur hafi skápurinn verið gamall og önnur hurðin á honum dottið af og við það hafi spegill á henni brotnað. Skápurinn sé þannig í lagi en spegillinn brotinn en hann sé ekki tilbúinn að greiða 50.000 kr. fyrir viðgerð eða endurnýjun á gömlum skápi. Engin gögn liggja fyrir sem sýna ástand skápsins við upphaf leigutíma en ekki verður ráðið að sameiginleg úttekt hafi verið gerð þá, sbr. 1. mgr. 69. gr. húsaleigulaga.

Ekki liggja fyrir gögn sem staðfesta að ekki hafi verið hægt að setja nýjan spegil á hurð skápsins með minni tilkostnaði en sóknaraðili gerir kröfu um eða að skipta hafi þurft út skápnum og kostnaður þar um verið 50.000 kr. Kærunefnd óskaði eftir rökstuðningi frá sóknaraðila um þetta atriði en skýringar þær sem bárust frá honum voru ófullnægjandi. Með hliðsjón af framangreindu telur kærunefnd að sanngjarnar bætur vegna nýs spegils séu hæfilega ákveðnar 15.000 kr.

Ákvæði 5. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, sbr. lög nr. 63/2016, kveður á um að úrskurðir kærunefndar húsamála séu bindandi gagnvart málsaðilum og sæti ekki kæru til æðra stjórnvalds. Málsaðilum sé heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla innan átta vikna frá því að úrskurður var kveðinn upp og frestast þá réttaráhrif hans uns dómur fellur. Samkvæmt 7. mgr. 85. gr. laganna eru úrskurðir kærunefndar aðfararhæfir án undangengins dóms.


 

ÚRSKURÐARORÐ:

Varnaraðila ber að greiða sóknaraðila 115.000 kr.

Reykjavík, 13. febrúar 2023

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

Víðir Smári Petersen                                     Eyþór Rafn Þórhallsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum