Hoppa yfir valmynd
14. ágúst 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda

Félagsmálaráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í morgun að hann hafi falið innflytjendaráði að hefja vinnu við gerð heildstæðrar framkvæmdaáætlunar í málefnum innflytjenda í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. maí 2007. Markmið áætlunarinnar er að betur verði tekið á móti erlendu fólki sem flyst til landsins, því auðveldað að verða virkir þátttakendur í íslensku samfélagi og rækta menningu sína. Framkvæmdaáætlunin grundvallast á stefnu í málefnum innflytjenda sem samþykkt var í janúar sl. og ákvæðum stjórnarsáttmálans. Verður áhersla lögð á að innflytjendaráðið hafi víðtækt samráð við þá aðila sem einkum koma að málefnum innflytjenda. Gert er ráð fyrir að tillögur ráðsins að heildstæðri framkvæmdaáætlun liggi fyrir snemma árs 2008.

Innflytjendaráð hefur á að skipa fulltrúum þeirra ráðuneyta sem talin eru hafa mikilvægu hlutverki að gegna á sviði aðlögunar innflytjenda að íslensku samfélagi auk fulltrúa að frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einstaklings af erlendum uppruna. Í ráðinu sitja Hrannar Björn Arnarsson, skipaður af félagsmálaráðherra, formaður, Hildur Jónsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Vilborg Ingólfsdóttir, tilnefnd af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, Þorsteinn Davíðsson, tilnefndur af dóms- og kirkjumálaráðuneyti, Kristín Jónsdóttir, tilnefnd af menntamálaráðuneyti, og Tatjana Latinovic, án tilnefningar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum