Hoppa yfir valmynd
24. mars 2022 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 141/2022 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 24. mars 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 141/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22030018

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

  1. Málsatvik

    Með úrskurði kærunefndar útlendingamála í stjórnsýslumáli nr. KNU19110027, dags. 18. júní 2020, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. október 2020, um að synja [...], fd. [...], ríkisborgara Íraks (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda hinn 22. júní 2020. Hinn 29. júní 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar. Hinn 6. júlí 2020 barst kærunefnd greinargerð kæranda. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd með úrskurði nefndarinnar í máli KNU20060044, dags. 14. júlí 2020.

    Hinn 3. febrúar 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði kærunefndar frá 18. júní 2020. Með úrskurði hinn 25. febrúar 2021 var beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans hafnað. Hinn 9. mars 2022 óskaði kærandi að nýju eftir endurupptöku málsins.

    Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

  2. Málsástæður og rök kærenda

    Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku máls hans á því að aðstæður hafi breyst verulega frá því að ákvörðun í máli hans hafi verið tekin og að hún hafi verið byggð á ófullnægjandi upplýsingum, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi hafi síðan í nóvember 2019 sótt vikulega bænafundi og kristileg kynningarnámskeið undir handleiðslu [...]. Kærandi sæki nú messu hjá […] á hverjum sunnudegi. Þá hafi kærandi tekið þátt í fjarsamkomum á meðan kirkjan hafi verið lokuð vegna Covid-19 sem hann telji að gefi til kynna hversu staðfastur hann sé í trúskiptum sínum. Framangreindar upplýsingar hafi ekki verið fyrir hendi við úrskurð kærunefndar sem kveðinn hafi verið upp hinn 25. febrúar 2021 í stjórnsýslumáli nr. KNU21020011.

    Kærandi vísar til þess að aðstæður í heimaríki hans séu með þeim hætti að hann verði í hættu þar muni hann láta afstöðu sína opinberlega í ljós þar sem bæði trúarleiðtogar, öfgamenn og trúleysingjar hóti þeim sem snúist frá Íslam bannfæringum. Kærandi hafi nú tekið þátt í starfi kirkjunnar í þrjú ár og við það hafi kristin trú hans styrkst. Með hliðsjón af þessum langa tíma og umfangsmeiri iðkun kæranda á kristinni trú en áður telur hann að enn ríkari ástæður hafi skapast til þess að ætla að hann verði í hættu í heimaríki sínu vegna trúskipta.

    Með vísan til framangreinds telur kærandi að aðstæður í máli hans séu verulega breyttar í skilningi 24. gr. stjórnsýslulaga.

  3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í stjórnsýslumáli nr. KNU19110027 hinn 18. júní 2020. Með úrskurðinum komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti hvorki skilyrði 1. né 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ætti hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Með úrskurði hinn 25. febrúar 2021 var beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans synjað. Var beiðnin byggð á því að nýjar aðstæður væru komnar upp í máli hans þar sem hann hafi sótt [...] síðan í byrjun nóvember 2019 og jafnframt sótt vikulega bænafundi undir handleiðslu [...] og tveggja annarra presta og einnig sótt sex vikna kristilegt kynningarnámskeið. Til stuðnings framangreindri beiðni lagði kærandi fram yfirlýsingu frá [...] frá 28. janúar 2021 um trúariðkun kæranda í […]. Fram kom í úrskurðinum að kærandi hefði í kærumáli sínu lagt fram efnislega svipaða yfirlýsingu dags. 9. janúar 2020. Var það mat kærunefndar að af málatilbúnaði og gögnum honum til stuðnings yrði ekki annað ráðið en að hann byggði á sömu málsástæðu um trúskipti og hann byggði á og hafði borið fyrir sig í kærumáli sínu fyrir kærunefnd. Kærunefnd ítrekaði að hún hefði tekið afstöðu til þeirrar málsástæðu og gagna í úrskurði sínum kveðnum upp hinn 18. júní 2020. Var það niðurstaða kærunefndar að ekki væri hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 18. júní 2020 hefði byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða atvik máls hefðu breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi hefur að nýju lagt fram beiðni um endurupptöku máls hans. Til stuðnings beiðni sinni hefur kærandi lagt fram bréf, dags. 3. mars 2022, undirritað af [...] og [...] prestum innflytjenda og flóttafólks í […]. Í bréfinu kemur meðal annars fram að kærandi hafi sótt mjög reglulega messu og hafi á meðan kirkjan hafi verið lokuð vegna Covid-19 tekið þátt í fjarsamkomum.

Málsástæður sem kærandi byggir á í beiðni sinni um endurupptöku eru samhljóða málsástæðum í fyrri beiðni hans um endurupptöku og í kærumáli sínu. Kærunefnd telur að upplýsingar í framangreindu bréfi presta innflytjenda og flóttafólks í […] leggi ekki frekari grunn að þeirri málsástæðu kæranda að atvik í máli hans hafi breyst síðan úrskurður var kveðinn upp í kærumáli hans hinn 18. júní 2020 eða að þær upplýsingar sem nefndin byggði á þegar hún kvað upp framangreindan úrskurð hafi verið ófullnægjandi eða rangar. Þá er það mat kærunefndar að ekkert í skýrslum og gögnum um aðstæður í heimaríki kæranda bendi til þess að aðstæður þar í landi hafi breyst með þeim hætti síðan nefndin úrskurðaði í máli hans að það hafi áhrif á efnislega niðurstöðu málsins.

Að teknu tilliti til framangreinds er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 14. október 2021 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt. Kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine his case is denied.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Þorbjörg I. Jónsdóttir                                                              Sindri M. Stephensen


 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum