Hoppa yfir valmynd
17. maí 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nýr samræmdur gagnagrunnur í barnavernd

 Með fjárveitingunni verður unnt að stytta biðtíma barna á aldrinum 2- 6 ára eftir þjónustu.  - mynd

Ríkiskaup hafa fyrir hönd félagsmálaráðuneytisins óskað eftir tilboðum í vinnu við smíði nýs miðlægs gagnagrunns fyrir upplýsingar sem varða hag barna ásamt kerfi þar sem sveitarfélög geta haft yfirsýn yfir og rekið barnaverndarmál. Gagnagrunnurinn og kerfið eiga að tryggja að upplýsingar og skráningar hjá barnaverndarnefndum landsins verði samræmdar, sjálfvirkni í gagnaöflun og að auðvelt verði að flytja mál á milli sveitarfélaga með einföldum hætti án þess að þjónusta við börn skerðist.

Hin miðlæga þjónustugátt mun keyra saman upplýsingar úr nokkrum mismunandi kerfum sem varða málefni barna og eru í dag hýstar hjá margskonar misjöfnum aðilum á öllum stigum barnaverndarmála. Í dag er tímafrekt ferli að afla upplýsinga milli aðila auk þess sem samráð sveitarfélaga er mjög takmarkað þegar börn sem hafa barnaverndarsögu flytja milli landshluta.

Með miðlægri nálgun og sameiginlegu kerfi þvert á sveitarfélög er sóst eftir tvíþættum ábata; annarsvegar að nýta stafrænt ferli og sjálfvirkni í gagnaöflun og hinsvegar að færa málavinnslu sveitarfélaga í sama kerfi og á sama grunni til að geta flutt mál á milli málastjóra með einföldum hætti án þess að þjónusta við börn skerðist.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Ég fagna því að þetta verkefni sé farið af stað en þetta nýja kerfi er hluti af þeirri kerfisbreytingu sem við erum að vinna í málefnum barna, og er hluti af framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar árin 2019-2022. Það er mikilvægt að tryggja að upplýsingar og skráningar hjá barnaverndarnefndum séu aðgengilegar og samræmdar og að til sé einn gagnagrunnur yfir barnaverndarmál á landsvísu. Með því náum við að bæta verklag og styrkja starf barnaverndarnefnda svo hægt verði að koma auga á vandamál eins fljótt og auðið er.“

Auglýst er eftir tveimur teymum til að sinna verkinu en nánari upplýsingar má finna á vef Ríkiskaupa.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum