Hoppa yfir valmynd
28. nóvember 2023 Innviðaráðuneytið

Hitt Húsið vígir ramp númer 1000

Stórum áfanga var náð í verkefninu Römpum upp Ísland nú á dögunum þegar rampur númer 1000 var reistur við Hitt Húsið, miðstöð ungs fólks í Reykjavík. Markmið verkefnisins er að auka aðgengi hreyfihamlaðra að samfélaginu og stuðla þannig að auknu jafnrétti. Stefnt er að því að byggja 1.500 rampa fyrir 11. mars 2025, en upphaflega var ætlunin að reisa þúsund rampa fyrir árslok 2024.

Af þessu tilefni var haldinn var sérstakur viðburður með þeim aðilum sem koma að verkefninu ásamt ungmennum úr frístundastarfi Hins Hússins. Ungmennin höfðu útbúið myndband fyrir gesti þar sem þau vöktu athygli á mikilvægi verkefnisins með tilliti til framtíðarinnar og hvernig þau sæju hana fyrir. Einnig var Vilhjálmur Hauksson, baráttumaður fyrir málefnum fatlaðra barna, með stutt ávarp.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannesson, innviðaráðherra og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, lýstu yfir ánægju sinni með verkefnið og mikilvægi þess að bæta aðgengi fyrir fatlaða.

Innviðaráðherra sagði það hafa verið einstakt að sjá kraftinn sem hefur verið í uppbyggingunni í kringum Römpum upp Ísland. „Hér er um að ræða verkefni sem hefur veruleg áhrif á daglegt líf hreyfihamlaðra um allt land. Forysta Haraldar Þorleifssonar í verkefninu er aðdáunarverð. Það er ánægjulegt að Jöfnunarsjóður hafi getað stutt við verkefnið af myndarbrag,” sagði Sigurður Ingi.

Fram að þessu hafa flestir rampanna verið byggðir fyrir einkaaðila, en nú mun verkefnið einnig taka að sér að bæta aðgengi að byggingum opinberra aðila.

Nánar um verkefnið

Verkefnið Römpum upp Ísland hefur þann mikilvæga tilgang að greiða aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, afþreyingu og þátttöku og stuðlar þannig að auknu jafnrétti. Römpunum er ætlað að veita hreyfihömluðum aukið aðgengi að samfélaginu en stofnaður var sjóður með aðkomu fyrirtækja og opinberra aðila sem stendur straum af kostnaðinum við gerð rampanna.

Verkefnið Römpum upp Ísland hefur nú reist 1000 rampa, á undan áætlun, en sá fyrsti var tekinn í notkun í maí 2021. Upphaflega var stefnt að því að reisa 1000 rampa, en nú er markmiðið að byggja 1500 rampa. Að verkefninu koma margir styrktaraðilar, þeirra á meðal eru innviðaráðuneytið, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Ueno, ÖBÍ, Sjálfsbjörg, Össur, Deloitte, Brandenburg, Aton.JL, Lex lögmannsstofa, BM Vallá, Icelandair, Orkan og ÞG Verk, auk sveitarfélaga á hverjum stað.

  • Hitt Húsið vígir ramp númer 1000 - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum