Hoppa yfir valmynd
15. mars 2011 Utanríkisráðuneytið

Hamfarirnar í Japan

Utanríkisráðherra sagði á Alþingi í dag að Ísland muni taka þátt í alþjóðlegu hjálparstarfi vegna neyðarástandsins í Japan með fjárframlögum til fjölþjóðlegra hjálparstofnana. Íslensk stjórnvöld munu fylgjast áfram náið með Íslendingum í Japan og aðstoða þá eftir því sem þörf er á og óskað er eftir. Utanríkisráðuneytið er í nánu samstarfi við önnur Norðurlönd til að leggja mat á stöðu mála og meta möguleg viðbrögð.

Á fundi ríkisstjórnar í morgun gerði utanríkisráðherra grein fyrir viðbrögðum utanríkisþjónustunnar vegna jarðskjálftans í Japan og þess neyðarástands sem skapast hefur.

Um leið og fregnir bárust af hamförunum í Japan að morgni föstudagsins 11. mars sl. virkjaði utanríkisráðuneytið viðbragðsáætlun. Þegar var hafist handa við að ná sambandi við Íslendinga sem staddir voru í Japan sem eru um 55 talsins. Um hádegi á laugardag hafði ráðuneytið haft fregnir af því að þeir væru allir óhultir. Vegna yfirvofandi hættu á flóðbylgjum á ströndum Kyrrahafs í kjölfar jarðskjálftans gaf ráðuneytið á föstudag út viðvörun. Nokkrir Íslendingar létu vita af sér á umræddum svæðum og amaði ekkert að þeim.

Frá því á laugardag hefur verið unnið að því að afla frekari upplýsinga um stöðu mála í Japan og aðstæður þeirra Íslendinga sem þar dvelja. Truflanir á samgöngum, birgðaflutningum og í raforkukerfi auk mögulegra eftirskjálfta á næstu dögum voru grundvöllur þess að ráðuneytið, líkt og norrænu utanríkisráðuneytin, gaf í gær 14. mars út ferðaviðvörun þar sem Íslendingum er ráðið frá ónauðsynlegum ferðum til Japan að svo stöddu.

Vegna stöðunnar sem upp hefur komið í kjarnorkuverinu í Fukushima hefur ráðuneytið frá því á föstudag haft náið samráð við Geislavarnir ríkisins sem vinna í nánu samstarfi við Alþjóðakjarnorkumálastofnunina og norrænar stofnanir á þessu sviði. Á laugardag átti ráðuneytið fund með almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, Geislavörnum og Veðurstofu Íslands. Sama dag sendi ráðuneytið út fréttatilkynningu þar sem Íslendingar í Japan voru hvattir til að fylgjast vel með fréttum og fyrirmælum þarlendra stjórnvalda.

Í nótt kom upp eldur í geymslustöð fyrir notaðan kjarnaúrgang í Fukushima sem hefur valdið mikilli en staðbundinni geislun. Geislavarnir ríkisins telja ekki ástæðu til að óttast heilsufarsleg áhrif á fólk sem dvelur í Tókíó, sérstaklega ekki við tímabundna dvöl þar. Íslendingar í Japan hafa fengið upplýsingar um þetta. Jafnframt hefur utanríkisráðuneytið boðið Íslendingum sem kynnu engu að síður að vilja fara frá Japan aðstoð við brottför.

Hins vegar kunna frekari jarðskjálftar, truflanir í samgöngukerfi, raforkukerfi eða birgðaflutningum að verða til þess að skapa þær aðstæður að útlendingar þyrftu að yfirgefa landið. Komi til þess mun norrænt samstarf gegna lykilhlutverki.

Í sendiráði Íslands í Tókýó starfar sendiherra ásamt tveimur japönskum aðstoðarmönnum að jafnaði. Sendiráðið hefur fengið heimild til að fjölga starfsmönnum tímabundið og ráðuneytið sendi í gær starfsmann frá Reykjavík til að efla sendiráðið. Þar hefur undanfarna daga verið vakt allan sólarhringinn en nú er gert ráð fyrir að starfsemin færist brátt í eðlilegra horf. Borgaraþjónusta ráðuneytisins hefur aftur á móti sólarhringsvakt sem endranær.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum