Hoppa yfir valmynd
29. september 2009 Innviðaráðuneytið

Undirbúa nýja leið til sameiningar sveitarfélaga

Samgönguráðherra og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga undirrituðu í dag yfirlýsingu um að skipa samstarfsnefnd til að ræða og meta sameiningarkosti sveitarfélaga í hverjum landshluta.

Samgönguráðherra og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga skrifa undir viljayfirlýsingu um eflingu sveitarfélaga.
Samgönguráðherra og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga skrifa undir viljayfirlýsingu um eflingu sveitarfélaga.

Efling og sameining sveitarfélaga hefur lengi verið til umfjöllunar hjá stjórnvöldum og í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að sveitarfélög verði efld með flutningi verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Flutningur málefna fatlaðra og aldraðra hefur verið tímasettur árin 2011 og 2012 og hefur einnig verið rætt um flutning á heilbrigðisþjónustu í þessu sambandi.

Í yfirlýsingu Kristjáns L. Möller samgönguráðherra og Halldórs Halldórssonar, formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga, er lýst ánægju með umræðu og vinnu um eflingu sveitarstjórnarstigsins. Nefnd eru atriði eins og undirbúningur að flutningi á málefnum fatlaðra og aldraðra, nefndir sem vinni að endurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga og reglum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og aukið samráð ríkis og sveitarfélaga með sérstakri samráðsnefnd.

Þá kemur fram að aðilar séu sammála um að liður í eflingu sveitarstjórnarstigsins sé frekari sameining sveitarfélaga í stærri og öflgri einingar.

  • Samband íslenskra sveitarfélaga hvetur til sameiningar og stækkunar sveitarfélaga en hefur ekki stutt hugmyndir um lögþvingaða sameiningu. Sambandið er þó tilbúið til viðræðna um útfærslu á öðrum leiðum hvað þetta varðar, eins og í öðrum samskiptamálum ríkis og sveitarfélaga.
  • Samgönguráðherra telur nauðsynlegt að fara nýjar leiðir við sameiningar svo ná megi heildstæðari árangri við eflingu sveitarstjórnarstigsins. Þó að leið frjálsrar sameiningar hafi leitt til verulegrar fækkunar sveitarfélaga eru fámenn sveitarfélög enn of mörg og jafnframt ákveðin hindrun fyrir frekari eflingu sveitarstjórnarstigsins.

Samkomulagið felur í sér að skipuð verði fjögurra manna samstarfsnefnd sem fær það hlutverk að ræða og meta sameiningarkosti sveitarfélaga í hverjum landshluta. Nefndin skal kynna sér stöðu mála í einstökum landshlutum og viðhorf sveitarstjórnarmanna og almennings til sameiningar. Að því loknu skal hún leggja fram drög um sameiningarkosti í hverjum landshluta og verði þau lögð fyrir landsþing eða aukalandsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga árið 2010 til umræðu og álits. Að því loknu mun ráðherra leggja fyrir Alþingi áætlun um sameiningar sveitarfélaga til ársins 2014 sem byggist á umræðum og áliti landsþingsins.

Ráðherra og formaður Sambandsins lögðu áherslu á það á fundi með fréttamönnum að flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga væri mikilvæg forsenda frekari sameiningarátaks og kváðust binda vonir við að þessi samvinna leiddi til frekari sameiningar. Nefndi ráðherra að hann hefði velt því fyrir sér hvort sveitarfélögum myndi fækka úr 77 í 17 á næstu misserum.


Samgönguráðherra og formaður Sambands íslenskra sveitarfélga skrifa undir yfirlýsingu um eflingu sveitarfélaga.
Yfirlýsing um eflingu sveitarfélaga undirrituð. Frá vinstri: Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri samgönguráðuneytis, Kristján L. Möller samgönguráðherra, Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Karl Björnsson, framkvæmdastjóri þess.       

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum