Hoppa yfir valmynd
6. júlí 2018 Utanríkisráðuneytið

Innleiðingarhallinn ekki verið minni í átta ár

Mjög hefur dregið úr innleiðingarhalla Íslands á tilskipunum Evrópusambandsins. Samkvæmt nýbirtu frammistöðumati ESA nemur hann hann einu prósenti en fyrir fimm árum var hann 3,2 prósent. 

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) gefur tvisvar á ári gefur út frammistöðumat þar sem tekinn er saman árangur EFTA-ríkjanna þriggja innan EES við innleiðingu EES-gerða. Samkvæmt nýbirtu frammistöðumati ESA bætir Ísland sig umtalsvert þegar kemur að innleiðingu á tilskipunum Evrópusambandsins. Í frammistöðumatinu kemur fram að að innleiðingarhalli Íslands á tilskipunum nemur einu prósenti. Miðað var við stöðu innleiðinga þann 31. maí 2018 og voru óinnleiddar tilskipanir Íslands þá átta talsins. 

„Það er ánægjulegt að sjá hve mikið hefur dregið úr innleiðingahallanum á undanförnum misserum enda hef ég lagt á það sérstaka áherslu síðan ég varð utanríkisráðherra. Með fullnægjandi framkvæmd EES-samningsins almennt getur Ísland skapað sér betri stöðu til að hafa áhrif á mótun lagasetningar ESB snemma í ferlinu og jafnvel til að fá undanþágu eða sértæka aðlögun á gerð þar sem miklir hagsmunir eru í húfi,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. 

Frammistaða Íslands hvað varðar innleiðingu á tilskipunum hefur batnað mikið á síðustu misserum og hefur Ísland ekki staðið betur að vígi í átta ár eða frá árinu 2010. Í frammistöðumatinu er Íslandi hrósað sérstaklega fyrir bættan árangur og eru íslensk stjórnvöld hvött til að halda áfram á sömu braut. Í síðasta mati, sem gert var opinbert fyrir um hálfu ári síðan, var innleiðingarhalli Íslands 1,8 prósent og þar áður 2,2 prósent. Til samanburðar náði innleiðingarhalli Íslands hámarki á fyrri hluta ársins 2013 þegar hann nam 3,2 prósent. 

Óinnleiddar tilskipanir í Liechtenstein námu sem svaraði til 0,7 prósenta innleiðingarhalla, en Noregur stóð sig best með 0,1 prósentinnleiðingarhalla samkvæmt frammistöðumatinu. 
Ísland bætti einnig frammistöðu sína varðandi innleiðingu á reglugerðum. Innleiðingarhalli á sviði reglugerða nam 0,8 prósentum miðað við stöðuna 31. maí 2018 en var áður 1,2 prósent. 

Sjá umfjöllun um málið á vefsvæði ESA

Mikilvægt endurbótastarf á undanförnum árum

Mikið endurbótastarf hefur verið unnið til að bæta framkvæmd EES-samningsins á Íslandi á síðastliðnum árum. Til marks um það má nefna þrjár skýrslur sem allar kveða á um tillögur um bætta framkvæmd. Í fyrsta lagi ber að nefna skýrslu stýrihóps forsætisráðuneytisins um framkvæmd EES-samningsins sem kom út árið 2015. Þar var sjónum beint að þeim vanda sem skapast hafði í stjórnsýslu varðandi innleiðingu EES-gerða. Þar var meðal annars lagt til að Stjórnarráðið auki þann mannauð sem vinnur að innleiðingu EES-gerða. 

Í öðru lagi má nefna skýrslu stýrihóps utanríkisráðuneytisins Utanríkisþjónusta til framtíðar sem kom út 2017. Þar er kveðið á um níu tillögur um bætta framkvæmd EES-samningsins. 

Að lokum skal nefnd skýrsla utanríkisráðuneytisins Gengið til góðs sem kom út fyrr á þessu ári. Þar er bent á frekari úrræði til að efla frammistöðu Íslands þegar kemur að framkvæmd EES-samningsins. Þar kemur fram að vonir standa til að ná enn betri árangri við framkvæmd samningsins hér á landi. 
 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira