Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2006 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 4/2005


Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 4/2005:

A

gegn

Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur (ÍTR)

 

--------------------------------------------------------------

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 5. apríl 2006 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I

Inngangur

Með kæru, dags. 11. júlí 2005, óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur (ÍTR) hefði brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, við ráðningu í stöðu forstöðumanns frístundamiðstöðvarinnar Miðbergs í Breiðholti, en ráðið var í stöðuna frá og með 1. mars 2005.

Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt ÍTR með bréfi, dags. 12. september 2005. Umsögn Reykjavíkurborgar er dagsett 12. október 2005 og var kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum við hana á framfæri. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 3. nóvember 2005. Viðbótarathugasemdir Reykjavíkurborgar bárust með bréfi, dags. 15. desember 2005, og var það sent kæranda til kynningar. Til viðbótar óskaði nefndin eftir tilteknum viðbótarupplýsingum með bréfi, dags. 16. mars sl., og bárust þær upplýsingar með bréfi til nefndarinnar, dags. 22. mars 2006. Hafa þær upplýsingar verið kynntar kæranda.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II

Málavextir

Málavextir eru þeir að ÍTR auglýsti stöðu forstöðumanns frístundamiðstöðvarinnar Miðbergs í Breiðholti lausa til umsóknar í Morgunblaðinu 23. janúar 2005. Í auglýsingunni kom meðal annars fram að leitað væri að metnaðarfullum einstaklingi með leiðtogahæfileika sem hefði áhuga á þróun og eflingu á frístundastarfi barna og unglinga í Breiðholti. Fram kom að helstu verkefni frístundamiðstöðvarinnar Miðbergs væru yfirumsjón með öllu barna- og unglingastarfi ÍTR í Breiðholti, félags- og tómstundastarf fyrir börn og unglinga, forvarnarstarf, þverfaglegt samstarf við aðrar stofnanir, hverfasamstarf og samstarf við félagasamtök og íbúa.

Helstu verkefni forstöðumannsins voru tilgreind þessi í auglýsingu um starfið; að vera leiðandi á sviði frítímaþjónustu og skapa jákvæða umgjörð fyrir borgarbúa til frístundaiðkunar, bera ábyrgð á starfsemi sem heyri undir Miðberg, fjármála- og starfsmannastjórnun og skipulagning og áætlanagerð.

Í auglýsingunni kom einnig fram að gerð væri krafa um háskólamenntun, stjórnunarreynslu, forystu-, skipulags- og samskiptahæfileika, tungumálakunnáttu og hæfni til að setja fram mál í ræðu og riti.

Umsækjendur um stöðuna voru 22. Af þeim voru átta taldir uppfylla almennar hæfniskröfur, sex konur og tveir karlar. Voru þessir átta umsækjendur boðaðir í viðtöl dagana 16.–18. febrúar 2005 og tók hvert viðtal um eina klukkustund. Kærandi og sá sem ráðinn var til starfans voru í þessum hópi. Starfsmannastjóri, fræðslustjóri og æskulýðsfulltrúi ÍTR tóku viðtölin.

Sá sem ráðinn var tók til starfa 1. mars 2005. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ráðningunni og barst hann kæranda með bréfi ÍTR, dags. 19. mars 2005.

 

III

Sjónarmið kæranda

Kærandi byggir á því að hún hafi haft mun meiri menntun og reynslu en sá sem ráðinn var til starfans. Sá, karlmaður, sé einungis menntaður sem „Fritids pedagog“ frá Köbenhavns Pædagogseminarium, auk stúdentsprófs frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Kærandi hafi bæði rekstrarlega menntun og uppeldismenntun þar sem hún hafi útskrifast með B.Ed. gráðu frá Kennaraháskóla Íslands árið 1985, sé með diploma í rekstrarfræði frá Tækniháskóla Íslands árið 2001 og B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá sama skóla árið 2002 og hafi auk þess lokið fyrsta ári í meistaranámi, MPA, frá Háskóla Íslands. Þar að auki hafi hún sótt fjölda námskeiða.

Kærandi lýsir starfsreynslu sinni í megindráttum svo að hún hafi verið grunnskólakennari í 13 ár og verkefnastjóri fyrir B frá árinu 2002 til 2005 auk ýmissa sumarstarfa.

Af hálfu kæranda kemur fram að menntunar- og hæfniskröfur varðandi umrætt starf hafi verið háskólamenntun, stjórnunarreynsla, forystu-, skipulags- og samskiptahæfileikar, tungumálakunnátta og hæfni til að setja fram mál í ræðu og riti. Þá vísar kærandi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 121/2002 en þar sé vísað til þess að auglýsing um viðkomandi stöðu hafi veitt ákveðna forsögn um það hvernig umsóknir yrðu metnar. Í rökstuðningi ÍTR komi fram að sá sem ráðinn var til starfans hafi verið valinn þar sem hann hafði bæði reynslu og þekkingu á vettvangi sem Miðberg starfar á. Í auglýsingu um starfið hafi hins vegar hvergi komið fram að viðkomandi þyrfti að hafa slíka þekkingu og reynslu og hafni kærandi því þeim sjónarmiðum. Í auglýsingu þeirri, er lögð hafi verið til grundvallar ráðningu í starfið, hafi ekki verið óskað sérstaklega eftir starfsmanni með umrædda þekkingu, heldur fyrst og fremst talin upp helstu verkefni forstöðumanns, þ.e. að vera leiðandi á sviði frítímaþjónustu og skapa jákvæða umgjörð fyrir borgarbúa til frístundaiðkunar, að bera ábyrgð á starfsemi sem heyri undir Miðberg, að sjá um fjármála- og starfsmannastjórnun og sjá um skipulagningu og áætlanagerð, en á þeim sviðum hafi kærandi meiri þekkingu, menntun og reynslu.

Varðandi stjórnunarreynslu kæranda kemur fram að hún hafi á kennsluferli sínum verið umsjónarkennari og borið ábyrgð á nemendum sínum að því er varðar nám, hegðun og framkomu, auk þess hafi reynt á samstarf við foreldra. Hún hafi verið fagstjóri í byrjendakennslu, samfélags- og náttúrufræðigreinum og skrift í mörg ár. Hún hafi auk þess kennt nemendum með sérþarfir í mörg ár þar sem áhersla hafi verið lögð á einstaklingsmiðað nám. Fram hafi komið að starf forstöðumanns í Miðbergi feli í sér mikið samstarf við stjórnendur grunnskólanna í Breiðholti þar sem forstöðumaðurinn sé yfirmaður skólavistunar. Skólavistun sé vistun nemenda eftir að skóladegi ljúki og sé staða hennar hvað þetta varðar sterkari en þess sem stöðuna hlaut, þar sem hann hafi enga reynslu hvorki af kennslu né samstarfi við grunnskólann.

Fram kemur hjá kæranda að þar sem frístundamiðstöðvar sjái um rekstur félagsmiðstöðva og frístundaheimila í sínu hverfi sé mikilvægt að viðkomandi forstöðumaður hafi góða rekstrarlega menntun, enda sjái hann um fjármálastjórnun og áætlanagerð. Þá menntun hafi hún en ekki sá sem ráðinn var til starfans.

Kærandi greinir frá því að hún hafi verið fulltrúi kennara í foreldraráði í þrjú ár, þar sem hún hafi skipulagt frístundir nemenda, stjórnað samstarfi milli heimila og skólans, og borið rekstrarlega ábyrgð á því starfi. Hún hafi setið í skólanefnd í þrjú ár þar sem hún hafi tekið mikilvægar ákvarðanir í samstarfi við skólastjóra og yfirkennara. Síðast hafi kærandi starfað sem millistjórnandi hjá einkafyrirtæki sem verkefnisstjóri. Þar hafi hún meðal annars séð um innleiðingu á birgðastýringarkerfi og hagræðingarátaki og komið að ýmsum rekstrarlegum verkefnum fyrirtækisins.

Með vísan til menntunar sinnar og starfsreynslu, hafnar kærandi því alfarið að forystu-, skipulags- og samskiptahæfileikar þess sem stöðuna hlaut séu meiri en hennar. Nám þess er stöðuna hlaut, í frístundafræðum, geti ekki tekið yfir alla þá menntun og reynslu, sem hún hafi. Nám í frístundafræðum sé auk þess ekki á háskólastigi, heldur sé aðeins um starfsþjálfun að ræða. Þá hafi slíks náms ekki verið sérstaklega krafist í auglýsingu um starfið.

Kærandi telur það hafið yfir allan vafa að Reykjavíkurborg hafi brotið gegn 24. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, við umrædda ráðningu, vegna þeirra yfirburða sem hún telur sig hafa í menntun og reynslu á þeim sviðum sem krafist var í auglýsingu um starf forstöðumanns frístundamiðstöðvarinnar Miðbergs.

 

IV

Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Reykjavíkurborg hafnar því að lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, hafi verið brotin við ráðningu í stöðu forstöðumanns frístundarmiðstöðvarinnar Miðbergs í Breiðholti. Umboðsmaður Alþingis hafi í álitum sínum staðfest rúmar heimildir atvinnurekenda til að skilgreina menntunar- og hæfniskröfur sem gerðar séu við ráðningar í störf og ákveða hvaða sjónarmið skuli lögð til grundvallar ráðningum, svo fremi að þau teljist málefnaleg með hliðsjón af eðli og verkefnum þess starfs sem verið sé að ráða í.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er á því byggt að allt frítímastarf ÍTR í Breiðholti heyri undir Miðberg og megi þar nefna sjö starfsstöðvar, þ.e. fimm frístundaheimili (áður skóladagheimili eða skólavistun) og tvær félagsmiðstöðvar. Auk þess sé í Miðbergi höfð yfirumsjón með öllu barna- og unglingastarfi ÍTR í hverfinu, þar fari fram margs konar forvarnastarf og samstarf við aðrar stofnanir innan sem utan ÍTR. Faglegt frístundastarf með börnum og unglingum hafi verið í örri þróun auk þess sem aðstæður og umhverfi unglinga hafi tekið miklum breytingum. Á undanförnum árum hafi umfangsmiklu samstarfi við aðra aðila verið hrundið af stað og hafi það skapað mikla þekkingu á málefnum hverfisins.

Í auglýsingu um starf forstöðumanns Miðbergs hafi verið lögð sérstök áhersla á að leitað væri að einstaklingi með leiðtogahæfileika og áhuga á þróun og eflingu frístundastarfs barna og unglinga í Breiðholti. Fram hafi komið að krafist væri háskólamenntunar en ekki tilgreint hversu mikillar eða á hvaða sviði, stjórnunarreynslu en ekki sérstakrar menntunar á því sviði, forystu-, skipulags- og samskiptahæfileika auk tungumálahæfileika og hæfni til að setja fram mál í ræðu og riti. Helstu verkefni forstöðumanns og hlutverk frístundamiðstöðvarinnar hafi verið talin upp, enda hafi það verið talið auðvelda umsækjendum bæði í skriflegri starfsumsókn og í starfsviðtali að rökstyðja hvernig hann teldi sig geta gegnt starfinu. ÍTR telji þessar hæfniskröfur eðlilegar og málefnalegar með hliðsjón af eðli og verkefnum viðkomandi starfs. Hæfniskröfurnar séu sumar þess eðlis að á þær verði ekki lagðir einhlítir hlutlægir mælikvarðar, heldur hljóti þær að vera metnar í samhengi við hlutverk, menningu og hugmyndafræði ÍTR í frístundaþjónustu, og eiginleikar umsækjenda þannig virtir í heild, m.a. á grundvelli frammistöðu í viðtali.

Af 22 umsækjendum hafi átta þótt uppfylla almennar hæfniskröfur; sex konur og tveir karlar. Hafi þessir átta umsækjendur verið boðaðir í viðtöl sem hvert hafi tekið um eina klukkustund. Viðtölin hafi tekið sameiginlega starfsmannastjóri, fræðslufulltrúi og æskulýðsfulltrúi, en sá síðastnefndi sé næsti yfirmaður forstöðumanns Miðbergs. Í viðtölunum hafi verið stuðst við viðtalsvísi og spurt um menntun, almenna starfsreynslu, reynslu í starfi með börnum og unglingum, reynslu og þekkingu á stjórnun og starfsmannahaldi og reynslu af stjórnun fjármála. Spurt hafi verið um persónulega eiginleika, styrkleika og veikleika, auk samskiptahæfni, en á þann þátt reyni verulega í starfi forstöðumanns í frístundamiðstöð. Fræðslustjóri, sem nú stundi meistaranám í mannauðsstjórnun, hafi haft það hlutverk umfram aðra sem tóku viðtölin fyrir hönd ÍTR að tryggja að jafnræðis milli umsækjenda væri gætt, til dæmis með því að sjá svo um að allir umsækjendur fengju sömu spurningar og áþekkan tíma í viðtölunum. Þessi þriggja manna hópur hafi farið sameiginlega yfir niðurstöður viðtala og komist samhljóða að þeirri niðurstöðu eftir fyrstu umferð að þrír umsækjendur væru hæfastir. Kærandi hafi ekki verið meðal þeirra. Fáum dögum síðar hafi þriggja manna hópurinn orðið sammála um að ráða karl til starfans. Borgaryfirvöld telji að í ráðningarferlinu hafi fagleg vinnubrögð og jafnræðissjónarmið verið virt og að ráðningarferlið hafi ekki falið í sér beina eða óbeina mismunun í skilningi jafnréttislaga.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er á því byggt að sá sem ráðinn var til starfans hafi lokið uppeldisfræðimenntun með áherslu á frítímann frá Köbenhavns Pedagogseminarium, árið 2002. Hann hafi þar sérhæft sig í starfi með unglinga sem sýna áhættuhegðun eða eru í vanda auk þess sem hann hafi hlotið starfsþjálfun á sambærilegum starfsvettvangi og heyrir undir Miðberg. Ekki hafi þótt raunhæft að gera kröfu um þetta nám í auglýsingu þar sem svo stutt er síðan farið var að bjóða það hér á landi. Bent er á að sérstaða ÍTR og Miðbergs sem veitanda frítímaþjónustu komi glögglega fram í auglýsingu og það hafi augljóslega verið ætlað til að hvetja þá sem hafa sérhæft sig á þessu sviði til að sækja um. Leggja verði áherslu á það sjónarmið sem málefnalegt og bent á að grundvallarmunur sé á því annars vegar, að nálgast einstakling á forsendum skólakerfis þar sem kennari hafi tiltekið boðvald og agahlutverk, eða hins vegar á grundvelli frítímaþjónustu, þar sem nær einvörðungu verði að byggja á því að laða börn eða unglinga til þátttöku á þeirra eigin forsendum. Ekki sé hægt að leggja kennarapróf að jöfnu við próf þess sem stöðuna hlaut, þ.e. í frístundafræðum, með hliðsjón af þeirri stöðu sem verið var að ráða í.

Í auglýsingu um starfið hafi ekki verið gerð krafa um háskólamenntun á sviði reksturs eða stjórnunar, en krafist hafi verið stjórnunarreynslu. Sá sem ráðinn var til starfans uppfylli þá kröfu. Stjórnunarreynsla hans sé að mestu bundin við starfsvettvang ÍTR og nýtist því vel í starfi forstöðumanns Miðbergs. Hann hafi starfað hjá ÍTR í margvíslegum störfum frá árinu 1999, bæði sem hlutastarfsmaður og heilsársstarfsmaður. Frá árinu 2002 hafi hann meðal annars verið í 50% starfi sem deildarstjóri á æskulýðssviði, sem unglingaráðgjafi fyrir forstöðumenn og starfsmenn æskulýðssviðs í málefnum barna og unglinga í vanda og í 50% starfi sem unglingaráðgjafi í Miðbergi. Í starfi sínu sem miðlægur ráðgjafi hafi hann verið staðgengill æskulýðsfulltrúa í ýmsum nefndum og verkefnum og leyst af í sumarleyfum. Hann hafi annast fyrir hönd ÍTR skipulag og rekstur á fjölliða og léttliðastarfi sem sé samstarf um unglinga í vanda með Vinnuskóla Reykjavíkur, Félagsþjónustu Reykjavíkur og Fræðslumiðstöð. Í því vandasama verkefni hafi hann stýrt fjölda starfsmanna og handleitt þá. Sá sem ráðinn var til starfans sé sterkur fagmaður á sviði æskulýðsmála og þekki vel sumarstarf ÍTR, allt unglingastarf og tómstundastarf. Hann hafi þannig starfað mjög lengi hjá ÍTR og þekki allt það starf og jafnframt menningu ÍTR.

Í þeim verkefnum sem sá sem ráðinn var til starfans, hafi sinnt fyrir ÍTR, hafi hann sýnt að hann hefur mikla forystu-, skipulags- og samskiptahæfileika. Hann hafi sýnt mikið sjálfstæði og frumkvæði í sínum verkefnum. Hann nái vel til fólks og sé vel liðinn af öllum þeim fjölda starfsmanna sem hann hafi handleitt og stutt í erfiðum málum. Hann hafi glöggt auga fyrir sóknarfærum og skili verkefnum þannig að til fyrirmyndar sé. Hann sé hugmyndaríkur og fljótur að ná tökum á nýjum viðfangsefnum. Hann eigi auðvelt með að skapa tengsl og afla trausts, sem sé ákaflega mikilvægt í frítímaþjónustu við borgarbúa. Hann sé með mjög skýra og sterka framtíðarsýn á þróun æskulýðsstarfs í Breiðholti. Það sé því niðurstaða Reykjavíkurborgar að við ráðningu í starf forstöðumanns frístundamiðstöðvarinnar Miðbergs í Breiðholti hafi hæfasti umsækjandinn verið ráðinn, og að jafnframt hafi við ráðninguna verið gætt ákvæða laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Að því er nám það varðar sem sá sem ráðinn var lauk við Pædagogsseminarium í Kaupmannahöfn telur Reykjavíkurborg að gögn sem send hafi verið kærunefnd jafnréttismála staðfesti að námið sé á háskólastigi sem ljúki með próftitlinum „professionalbachelor som pædagog“ og að námið, sem taki þrjú og hálft ár, samsvari 210 svokölluðum ECTS einingum, sem samsvari 150 „íslenskum“ einingum, en til samanburðar sé B.Ed.-próf frá Kennaraháskóla Íslands 90 einingar. Þá er bent á að Kennaraháskóli Íslands sé í samstarfi við umræddan skóla í Kaupmannahöfn og sendi kennaranema þangað í skiptinám.

 

V

Niðurstaða

Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum karla og kvenna og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 24. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 3. mgr. 24. gr. sömu laga.

Kærandi hefur óskað eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, þegar ráðinn var forstöðumaður frístundamiðstöðvarinnar Miðbergs í Breiðholti hinn 1. mars 2005.

Staðan var auglýst í Morgunblaðinu þann 22. janúar 2005 og kom þar fram að leitað væri að metnaðarfullum einstaklingi með leiðtogahæfileika sem hefði áhuga á þróun og eflingu á frístundastarfi barna og unglinga í Breiðholti. Samkvæmt auglýsingunni eru helstu verkefni frístundamiðstöðvarinnar yfirumsjón með öllu barna- og unglingastarfi ÍTR í Breiðholti, félags- og tómstundastarf fyrir börn og unglinga, forvarnarstarf og þverfaglegt samstarf við aðrar stofnanir. Nánar tiltekið voru helstu verkefni forstöðumanns talin vera þau að vera leiðandi á sviði frítímaþjónustu, bera ábyrgð á þeirri starfsemi sem undir miðstöðina heyrðu, fjármála- og starfsmannastjórnun, sem og skipulagning og áætlanagerð. Að því er menntun og hæfiskröfur varðar var áskilin háskólamenntun, stjórnunarreynsla, forystu-, skipulags- og samskiptahæfileikar, tungumálakunnátta og hæfni til að setja fram mál í ræðu og riti.

Kærandi lauk stúdentsprófi árið 1980 og B.Ed. gráðu frá Kennaraháskóla Íslands árið 1985. Til viðbótar hefur kærandi lokið prófi sem iðnrekstrarfræðingur frá Tækniháskóla Íslands árið 2001, B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Tækniháskóla Íslands árið 2002 og hafði að auki lokið einu ári í meistaranámi í opinberri stjórnsýslu. Að því er starfsreynslu varðar hafði kærandi verið grunnskólakennari frá 1985 til 1998 og þá hafði hún einnig starfað sem verkefnisstjóri hjá B í tæplega þrjú ár. Kærandi hefur einnig unnið ýmis sumarstörf og sótt ýmis námskeið.

Sá sem ráðinn var lauk stúdentsprófi árið 1997 og uppeldisfræðimenntun með áherslu á frítímafræði frá Köbenhavns Pedagogseminarum árið 2002. Auk annarra starfa hefur hann sinnt störfum á sviði unglingastarfs hjá ÍTR á sumrin og með námi frá árinu 1999 til ársins 2002 og var síðan starfsmaður ÍTR frá árinu 2002 til ársins 2005, meðal annars sem deildarstjóri á æskulýðssviði og sem unglingaráðgjafi hjá Miðbergi. Þá hefur hann annast ýmis skipulagsstörf fyrir ÍTR og sótt námskeið.  

Kærandi byggir á því að menntun hennar og reynsla sé mun meiri en þess sem ráðinn var og vísar meðal annars til þess að nám þess sem ráðinn var í frístundafræðum sé ekki menntun á háskólastigi. Þá bendir kærandi á að hún hafi, auk stúdentsprófs, lokið þremur prófum á háskólastigi og sé auk þess í meistaranámi. Þá hafi hún 13 ára reynslu sem grunnskólakennari, sem feli í sér fjölbreytta reynslu, auk þess sem hún hafi starfað sem verkefnisstjóri hjá einkafyrirtæki. Hafnar kærandi því að sá er ráðinn var hafi meiri forystu-, skipulags- og samskiptahæfileika en hún, eins og fram kom í rökstuðningi Reykjavíkurborgar fyrir ráðningunni. Vísar hún í því sambandi til menntunar sinnar og reynslu.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er á því byggt, að undir umrætt starf forstöðumanns frístundamiðstöðvarinnar heyri allt frístundastarf ÍTR í Breiðholti, auk þess sem þar sé höfð yfirumsjón með öllu barna- og unglingastarfi ÍTR í hverfinu. Faglegt frístundastarf með börnum og unglingum hafi verið í örri þróun og aðstæður unglinga tekið miklum breytingum, en á undanförnum árum hafi umfangsmiklu samstarfi við aðra aðila verið hrundið af stað í þessu sambandi. Í auglýsingu um starf forstöðumannsins hafi verið lögð áhersla á að leitað væri að einstaklingi með leiðtogahæfileika með áhuga á þróun og eflingu frístundastarfs barna- og unglinga í Breiðholti. Krafist hafi verið háskólamenntunar en ekki tilgreint nánar hversu mikillar eða á hvaða sviði, auk stjórnunarreynslu. Af hálfu Reykjavíkurborgar er til þess vísað að framangreindar kröfur hafi verið eðlilegar og málefnalegar með hliðsjón af eðli og verkefnum þess starfs sem um var að ræða. Þá hafnar Reykjavíkurborg því að menntun þess sem ráðinn var við Köbenhavns Pædagogseminarium teljist ekki vera nám á háskólastigi.

Fyrir liggi að alls bárust 22 umsóknir um starfið og að átta umsækjendur, sex konur og tveir karlar, hafi verið boðaðir í viðtöl sem hvert um sig tók um eina klukkustund. Viðtölin hafi tekið starfsmannastjóri, fræðslufulltrúi og æskulýðsfulltrúi sameiginlega, en sá síðastnefndi hafi verið næsti yfirmaður forstöðumanns frístundamiðstöðvarinnar. Að sögn Reykjavíkurborgar mun það hafa verið sameiginleg niðurstaða þeirra sem viðtölin tóku að mæla með þeim sem ráðinn var til starfans.

Í máli þessu telst mega leggja til grundvallar að báðir aðilar hafi uppfyllt þau hæfisskilyrði sem krafist var í auglýsingu um starfið. Verður í því sambandi, á grundvelli fyrirliggjandi gagna, að fallast á það með Reykjavíkurborg að menntun sú, sem sá sem ráðinn var aflaði sér við Köbenhavns Pædagogseminarium, hafi fullnægt því skilyrði að teljast á háskólastigi eða að vera a.m.k. samsvarandi slíku námi í því samhengi sem hér skiptir máli.

Hins vegar er ljóst að kærandi hefur aflað sér víðtækari menntunar en sá sem ráðinn var. Verður almennt að telja að það nám, einkum kennaranámið og viðskiptafræðinámið, og að auki nám það sem kærandi hefur stundað á sviði opinberrar stjórnsýslu, geti fallið að því starfi sem um ræðir, ef litið er til þeirra almennu krafna sem tilteknar voru í auglýsingunni, þ.e. að hafa umsjón með barna- og unglingastarfi á vegum frístundamiðstöðvarinnar, auk fjármála- og starfsmannastjórnunar. Þá má líta svo á að kærandi hafi haft víðtæka starfsreynslu einkum á sviði kennslu og tengdra starfa, sem hafi án efa getað nýst í því starfi sem hér um ræðir.

Almennt verður að telja að það sé á valdi þess sem ræður í störf hjá opinberum aðilum, að ákveða hvaða atriði skuli leggja til grundvallar við slíka ráðningu í starf. Í því sambandi hefur verið litið til þeirra áhersluatriða sem fram koma m.a. í auglýsingu um viðkomandi starf. Jafnvel þó svo að ráðningaraðili hafi ákvörðunarvald um framangreint verður ákvörðun um slík atriði og eftirfarandi ráðning í starf að styðjast við málefnaleg sjónarmið og uppfylla almennar grundvallarreglur stjórnsýsluréttar.

Í þessu sambandi ber að hafa í huga, eins og staðfest hefur verið meðal annars í dómum Hæstaréttar í málum nr. 121/2002 og 330/2003, að atvinnurekanda er játað nokkuð svigrúm við mat á vægi menntunar og starfsreynslu umsækjanda þegar kemur að ákvörðun um ráðningu í starf, enda teljist sjónarmið atvinnurekanda í þá veru almennt eðlileg og málefnaleg. Uppfylli ákvörðun um ráðningu í starf ekki þessi skilyrði kann að vera um að ræða brot á ákvæðum jafnréttislaga, enda er þar kveðið á um að óheimilt sé að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis.

Það starf sem hér er um að ræða er starf forstöðumanns frístundamiðstöðvar í einu af hverfum Reykjavíkurborgar. Í auglýsingu um starfið var leitað eftir metnaðarfullum einstaklingi með leiðtogahæfileika, sem áhuga hefði á þróun og eflingu frístundastarfs barna og unglinga í hverfinu. Helstu verkefni á vegum miðstöðvarinnar voru umsjón með öllu barna- og unglingastarfi ÍTR í hverfinu, félags- og tómstundastarf fyrir börn og unglinga, forvarnarstarf og samstarf á vegum hverfasamtaka, félagasamtaka o.fl. Helstu verkefni forstöðumannsins voru að vera leiðandi á sviði frítímaþjónustu, bera ábyrgð á starfsemi sem heyri undir miðstöðina, fjármála og starfsmannastjórnun og skipulagning og áætlanagerð.

Svo sem að framan er rakið verður ekki annað ráðið af gögnum málsins, en að kærandi hafi haft menntun og reynslu, sem almennt hafi mátt telja viðameiri en þess sem ráðinn var.

Á hinn bóginn verður að telja, með tilliti til framangreindrar lýsingar á starfi því sem hér um ræðir, og stöðu þess innan stjórnkerfis Reykjavíkurborgar, að ekki hafi verið ómálefnalegt af hálfu Reykjavíkurborgar að líta umfram annað til hinnar sértæku starfsreynslu þess sem ráðinn var hjá ÍTR, sem telst hafa verið á því sviði sem hér skiptir máli og jafnframt til þeirrar menntunar á sviði frítímafræða sem sá sem ráðinn var hafði aflað sér, og sem telja verður að hafi fallið vel að þeim meginatriðum sem lýst var eftir í auglýsingunni, þ.e. varðandi frítímastarfsemina sem slíka og þjónustu á vegum miðstöðvarinnar.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða telur kærunefnd jafnréttismála að ekki hafi verið sýnt fram á að það mat Reykjavíkurborgar að sá sem ráðinn var teljist hafa verið hæfari til að gegna umræddu starfi hafi verið ómálefnalegt. Af því leiðir að líta verður svo á að Reykjavíkurborg hafi ekki brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, við ráðningu forstöðumanns frístundamiðstöðvarinnar Miðbergs í Breiðholti þann 1. mars 2005.

Að áliti kærunefndar jafnréttismála telst Reykjavíkurborg ekki hafa brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, í máli þessu.

 

 

Andri Árnason

Ragna Árnadóttir

Ása ÓlafsdóttirEfnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira