Hoppa yfir valmynd
15. mars 2007 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Aukin fjárframlög í samgönguáætlun

Samgöngunefnd Alþingis hefur lokið yfirferð um samgönguáætlanir fyrir árin 2007 til 2010 og 2007 til 2018. Lagðar eru til nokkrar breytingar á fjárframlögum, einkum í fjögurra ára áætluninni á sviði siglingamála og vegamála.

Í tillögu samgöngunefndar er meginbreytingin ráðstöfun á 1,6 milljarða króna viðbótarframlagi til vegamála árið 2009 sem ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum 9. mars. Leggur samgönguefnd til eftirfarandi ráðstöfun:

  • 200 milljónir fari í Suðurstrandarveg árið 2009
  • 200 milljóna viðbótarframlag í veg að Dettifossi
  • 100 milljóna viðbótarframlag í veginn um Fróðárheiði
  • 50 milljóna króna viðbótarframlag í þjóðbraut á Akranesi
  • 50 milljónir fari í endurbætur á Miðfjarðarvegi í Húnaþingi sem er tengivegur
  • 600 milljóna viðbótarframlag fari í mislæg gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar
  • 400 milljóna viðbótarframlag í gatnamót Hafnarfjarðarvegar og Vífilsstaðavegar

Önnur breyting samgöngunefndar á fjögurra ára áætluninni eru nokkrar tilfærslur fjármuna vegna vegaframkvæmda þannig að fjármagn færist framar í áætlunina til að ljúka megi ákveðnum verkefnum fyrr.

Á sviði siglingmála leggur nefndin til að hafin verði bygging grjótgarðs við Rifshöfn með 70 milljóna króna framlagi árið 2008, að 70 milljónir fari árið 2008 til dýpkunar á innsiglingarrennu í Vopnafjarðarhöfn og að 60 milljónum verði veitt árið 2008 til stækkunar tollaðstöðu á Seyðisfirði. Einnig verður 200 milljóna króna framlagi veitt í hafnarbótasjóð árið 2008.

Fram kemur í nefndaráliti samgöngunefndar að fjölmargir aðilar hafi komið á fund nefndarinnar, umsagnir borist frá ýmsum aðilum og að fjallað hafi verið sérstaklega um fjárframlög samgönguáætlunar til höfuðborgarsvæðisins. Fulltrúar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafi á fundi nefndarinnar lýst áhyggjum vegna of lítilla fjárframlaga og lagt til að það yrði tvöfaldað. Samgöngunefnd telur að stefna beri að því að umferðarástand á höfuðborgarsvæðinu versni ekki á tímabilinu en telur að spá samtakanna um framtíðarástand hafi verið máluð nokkuð dökkum litum.

Þá er í nefndarálitinu greint frá yfirlýsingu fjármálaráðherra og samgönguráðherra um að við endurskoðun samgönguáætlunar árið 2009 verði samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu tekin til sérstakrar athugunar. Segir í yfirlýsingunni að við þá endurskoðun skuli liggja fyrir áætlun um brýnustu samgönguverkefni á höfuðborgarsvæðinu og verði þá leitast við að tryggja fjármagn til þeirra. Mun samgönguráðherra hlutast til um samráð samgöngunefndar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í því skyni að ná sem mestum árangri við að hraða uppbyggingu vegakerfis höfuðborgarsvæðisins.

Hér fer á eftir yfirlýsing samgönguráðherra og fjármálaráðherra vegna samgönguáætlunar:

,,Samgönguráðherra og fjármálaráðherra lýsa því yfir vegna afgreiðslu samgönguáætlunar 2007 ? 2018, að við endurskoðun fjögurra ára samgönguáætlunar árið 2009 verði samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu tekin til sérstakrar athugunar.

Við endurskoðunina liggi fyrir áætlun um framkvæmdir, þar sem greind hafa verið brýnustu samgönguverkefnin á höfuðborgarsvæðinu. Þegar sú greining liggur fyrir verður leitast við að tryggja fjármagn til nauðsynlegra aðgerða við uppbyggingu vegakerfis höfuðborgarsvæðisins þannig að eðlileg framvinda verði í því verkefni.

Samgönguráðherra mun hlutast til um að koma á samráði á milli samgönguráðs og þar með talið Vegagerðarinnar annars vegar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hins vegar í því skyni að ná sem bestum árangri við að hraða uppbyggingu vegakerfis höfuðborgarsvæðisins og bæta þar með afköst og umferðarflæði á svæðinu.?

Nefndarálitin og breytingar tillögur má sjá á vefsíðu Alþingis en hér að neðan eru álit meirihluta nefndarinnar.

Nefndarálit um samgönguáætlun 2007 til 2010.

Nefndarálit um samgönguáætlun 2007 til 2018.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira