Hoppa yfir valmynd
29. mars 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 225/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 225/2016

Miðvikudaginn 29. mars 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 20. júní 2016, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 13. júní 2016, um að synja beiðni kæranda um stöðvun milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins á meðlagsgreiðslum til barnsmóður hans.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með tölvubréfi 5. júní 2016 fór kærandi fram á að milliganga Tryggingastofnunar ríkisins á meðlagi til barnsmóður hans yrði stöðvuð, auk niðurfellingar meðlagsgreiðslna með afturvirkum hætti. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 13. júní 2016, var kröfum kæranda synjað með þeim rökum að barnsmóðir kæranda og sonur væru með lögheimili á Íslandi.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 20. júní 2016. Með bréfi, dags. 21. júní 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 5. júlí 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. júlí 2016, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir og viðbótargögn bárust frá kæranda með bréfi, dags. 3. nóvember 2016 og voru send Tryggingastofnun með bréfi, dagsettu sama dag. Athugasemdir Tryggingastofnunar bárust með bréfi, dags. 2. desember 2016. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dagsettu sama dag, voru þær sendar kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að úrskurðarnefndin felli úr gildi ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 13. júní 2016 um að synja beiðni hans um stöðvun milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins á meðlagsgreiðslum til barnsmóður hans. Auk þess má ráða af málatilbúnaði kæranda að hann geri kröfu um að meðlagsgreiðslur verði felldar niður með afturvirkum hætti frá því að barnsmóðir hans og barn fluttu til C árið X.

Í kæru segir frá málsatvikum á þá leið að kærandi og barnsmóðir hans hafi eignast saman son árið X. Þau hafi slitið sambúð árið X og ákveðið hafi verið að forsjá barnsins yrði sameiginleg. Síðar um árið hafi verið ákveðið að lögheimili barnsins skyldi vera hjá móður. Fyrst um sinn hafi samkomulag um umgengni og samskipti vegna barnsins verið góð. Barnsmóðir kæranda hafi flust með syni þeirra til C í X og eigi þau þar fasta búsetu og njóti þar réttinda og beri skyldur samkvæmt C lögum.

Þrátt fyrir að vera búsett í C hafi barnsmóðir kæranda fengið greidd meðlög frá Tryggingastofnun. Þá segir að samkvæmt dómsúrskurði um umgengni (málsnr. E-4218/2013) komi skýrlega fram að lögheimili og föst búseta barns og móður sé í C. Í 6. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé að finna reglugerðarheimild er varði framkvæmd útgreiðslu meðlaga vegna barna sem búsett eru erlendis. Í 5. tölul. 8. gr. reglugerðar nr. 945/2009 segi að greiðslur falli niður ef meðlagsmóttakandi og/eða barn séu búsett erlendis. Hafa beri í huga að ekki séu milliríkjasamningar um meðlagsgreiðslur í gildi á milli C og Íslands.

Samkvæmt lögheimilislögum sé bannað að hafa lögheimili annars staðar en þar sem viðkomandi hafi fasta búsetu. Hljóti því íslensk stjórnvöld, rétt eins og héraðsdómur hafi gert, að gera ráð fyrir að lögheimili barnsmóður kæranda sé í C en ekki á Íslandi og í öllu falli að föst búseta í skilningi laga sé í C. Njóti barnsmóðir kæranda þar réttinda, þar á meðal gagnvart C velferðarkerfi, og beri jafnframt skyldur. Ef ákvörðun Tryggingastofnunar verði ekki hrundið muni barnsmóðir kæranda njóta réttinda á Íslandi og í C.

Samkvæmt 56. gr. barnalaga nr. 76/2003 geti sá sem standi straum af útgjöldum vegna framfærslu barns krafist þess að meðlag sé ákveðið og innheimt, enda hafi hann forsjá barns eða búi hjá honum samkvæmt lögmætri skipan. Að eiga fasta búsetu annars staðar en á lögheimili teljist samkvæmt íslenskum rétti ekki vera lögmæt skipan.

Til skýringarauka vísar kærandi til úrskurðar úrskurðarnefndar almannatrygginga nr. 54/2011 á þá leið að samkvæmt 14. gr. reglugerðar nr. 945/2009 sé Tryggingastofnun aðeins skylt að greiða meðlagsmóttakanda meðlag sé hann búsettur hér á landi, sbr. 67. gr. barnalaga nr. 76/2003. Í 2. mgr. 14. gr. segir að þrátt fyrir 1. mgr. skuli Tryggingastofnun hafa milligöngu um meðlag til meðlagsmóttakanda sem búsettur sé utan Íslands ef ákvæði milliríkjasamninga mæli fyrir um það.

Kærandi krefjist þess að Tryggingastofnun hætti milligöngu meðlagsgreiðslna til móður. Ákvörðun Tryggingastofnunar sé ólögmæt þar sem framangreind reglugerðarákvæði og ákvæði lögheimilislaga hafi verið virt að vettugi. Að auki hafi Tryggingastofnun ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni áður en hún hafi tekið ákvörðun í málinu. Þá vísar kærandi og til lögmætisreglunnar.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærandi hafi nú fengið staðfestingu frá skóla um að sonur hans hafi lokið ástundun þann X vegna flutnings til útlanda.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærð sé synjun stofnunarinnar um að stöðva meðlagsgreiðslur sem kærandi sé greiðandi að.

Umboðsmaður kæranda hafi með tölvupósti, dags. 5. júní 2016, óskað eftir að greiðslur meðlags til barnsmóður kæranda yrðu stöðvaðar á grundvelli þess að mæðginin séu búsett erlendis eins og dómsúrskurður um umgengni (málsnúmer E-4218/2013) beri skýrt með sér.

Tryggingastofnun hafi synjað beiðninni með bréfi, dags. 13. júní 2016, á grundvelli þess að mæðginin séu skráð með lögheimili hér á landi í Þjóðskrá og að stofnuninni sé skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt meðlagssamningi sem búsettur sé hér á landi, sbr. 67. gr. barnalaga nr. 76/2003, lögum nr. 21/1990 um lögheimili og úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga nr. 134/2012.

Kærandi hafi til stuðnings kröfu sinni vísað til dómsúrskurða um umgengni þar sem búseta mæðginanna sé sögð vera erlendis. Þær upplýsingar sem þar komi fram hafi ekki í för með sér að Tryggingastofnun geti litið framhjá skráðu lögheimili í Þjóðskrá. Kæranda sé á hinn bóginn bent á að hann geti snúið sér til Þjóðskrár til að fara fram á breytingu á skráðu lögheimili þeirra. Þá segir að Tryggingastofnun telji sér ekki heimilt að taka kröfur kæranda til greina.

Í athugasemdum Tryggingastofnunar ríkisins var upplýst að lögheimili barnsins hafi verið flutt frá Íslandi hjá Þjóðskrá frá X og að meðlagsgreiðslur hafi verið stöðvaðar frá sama tíma.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 13. júní 2016 um að synja kæranda um stöðvun milligöngu meðlagsgreiðslna til barnsmóður hans.

Í 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 er kveðið á um greiðsluskyldu Tryggingastofnunar ríkisins en þar segir:

"Tryggingastofnun ríkisins er skylt að greiða rétthafa greiðslna skv. IV. og IX. kafla, sem búsettur er hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setja.“

Ákvæði 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar kveður á um rétt til fyrirframgreiðslu meðlags frá Tryggingastofnun ríkisins. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

„Hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga, nr. 76/2003, getur snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skal gilda þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga. Fyrirframgreiðsla meðlags frá Tryggingastofnun skal ávallt vera innan þeirra marka sem 20. gr. laga þessara setur um fjárhæð greiðslna og aldur barna.“

Samkvæmt framangreindum ákvæðum ber Tryggingastofnun ríkisins að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur þegar umsækjandi hefur lögformlega meðlagsákvörðun og er búsettur hér á landi. Óumdeilt er í þessu máli að lögformleg meðlagsákvörðun liggur fyrir í málinu.

Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili er lögheimili skilgreint sem sá staður þar sem maður hefur fasta búsetu. Maður telst hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna.

Kærandi krefst stöðvunar milligöngu meðlagsgreiðslna með afturvirkum hætti frá því að barnsmóðir hans og barn fluttu til C árið X. Kærandi byggir kröfu sína á því að Tryggingastofnun beri að fara eftir raunverulegri búsetu kæranda en ekki lögheimilisskráningu. Samkvæmt viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins hefur lögheimili mæðgnanna verið flutt frá Íslandi frá X og milliganga meðlagsgreiðslna stöðvuð frá sama tíma.

Hlutverk Tryggingastofnunar varðandi milligöngu meðlagsgreiðslna markast af ákvæðum viðeigandi laga. Eins og áður hefur verið rakið er réttur á milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins um meðlagsgreiðslur meðal annars bundinn við það að rétthafi greiðslna sé búsettur hér á landi. Við mat á búsetu lítur úrskurðarnefnd til laga nr. 21/1990 um lögheimili. Samkvæmt fyrrgreindri 1. gr. laga um lögheimili telst lögheimili manns vera sá staður þar sem maður hefur fasta búsetu. Maður telst hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika. Úrskurðarnefndin telur að við mat á búsetu beri að líta til þessarar skilgreiningar en ekki einungis hvernig opinber skráning í Þjóðskrá er, sbr. 5. tölul. 2. gr. laga um almannatryggingar. Ef vafi er uppi um hvort opinber skráning sé rétt ber stjórnvaldi að gæta að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og kanna hvort lögheimili sé rétt skráð. Þar sem Tryggingastofnun synjaði kæranda um stöðvun milligöngu meðlagsgreiðslna til barnsmóður hans af þeirri ástæðu einni að lögheimili hennar væri skráð á Íslandi er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að málið hafi ekki verið nægjanlega upplýst áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Þegar af þeirri ástæðu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja beiðni kæranda um að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um stöðvun milligöngu meðlagsgreiðslna er felld úr gildi. Málinu er heimvísað til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum