Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2025 Heilbrigðisráðuneytið

Mælti fyrir frumvarpi um viðbrögð við lyfjaskorti

Alma D. Möller heilbrigðisráðherra - mynd

Alma D. Möller heilbrigðisráðherra mælti í gær fyrir frumvarpi sínu sem hefur að meginmarkmiði að sporna við lyfjaskorti. Með frumvarpinu er einkum kveðið á um ýmsar heimildir fyrir Lyfjastofnun sem gera henni kleift að bregðast við ef lyfjaskortur er fyrir hendi eða yfirvofandi og lágmarka áhrif lyfjaskorts á sjúklinga.

Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu er lyfjaskortur viðvarandi vandamál í heiminum og skortur á lyfjum vaxandi ógn við lýðheilsu sem grefur undan rétti sjúklinga til aðgangs að viðeigandi læknismeðferð. Margar ástæður geta verið fyrir lyfjaskorti og kallar staða Íslands sem örmarkaðar á ýmsar sértækar aðgerðir.

Árið 2022 kom út skýrsla starfshóps forsætisráðherra um neyðarbirgðir þar sem m.a. var lögð áhersla á að stofnunin hefði heimildir til að takmarka lyfjaafgreiðslur á hættustund til að bregðast við lyfjaskorti í neyðarástandi. Frumvarp heilbrigðisráðherra kveður á um slíkar heimildir en einskorðast ekki við neyðarástand heldur gerir Lyfjastofnun einnig kleift að bregðast við ef lyfjaskortur er fyrir hendi eða yfirvofandi líkt og gerist oft hér á landi. Heimildirnar snúast einkum um að stýra eða takmarka afgreiðslu og afhendingu lyfja frá heildsölum og einnig til sjúklinga eftir því sem aðstæður krefjast, líkt og fjallað er um í greinargerð með frumvarpinu.

Við smíði frumvarpsins var horft til þeirra heimilda sem lyfjastofnanir annars staðar á Norðurlöndunum hafa og einnig litið til lærdóms af COVID-19 faraldrinum hér á landi.

 Heilbrigðisráðherra hefur nú mælt fyrir öllum sjö frumvörpum sínum á þingmálaskrá yfirstandandi þings. 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta