Hoppa yfir valmynd
17. ágúst 2010 Félagsmálaráðuneytið

Um 190 námspláss tryggð í framhaldsskólum fyrir atvinnulaus ungmenni

Ungmennum yfir 18 ára aldri sem nú eru á atvinnuleysisskrá verður tryggð námsvist í framhaldsskólum. Ríkisstjórnin samþykkti á fundi í morgun tillögu um samstarf menntamálaráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins í þessu skyni.  

Félags- og tryggingamálaráðherra mun beita sér fyrir því að fé verði veitt úr Atvinnuleysistryggingarsjóði til þess að mæta viðbótarkostnaði framhaldsskólanna vegna skólavistar fyrir um 190 ungmenni eldri en 18 ára sem nú eru á atvinnuleysisskrá. Þá mun mennta- og menningarmálaráðherra stuðla að því að framhaldsskólar bjóði námsúrræði fyrir þennan hóp umsækjenda og verða gerðir samningar við Vinnumálastofnun um greiðslur fyrir þá þjónustu. Málið var tekið fyrir og samþykkt á fundi ríkisstjórnar í morgun. Verkefnið er framhald verkefnisins Ungt fólk til athafna sem hleypt var af stokkunum um áramót.

Samkvæmt upplýsingum mennta- og menningarmálaráðuneytisins eru um 850 umsækjendur eldri en 18 ára sem ekki hefur verið tryggð skólavist í framhaldsskóla í haust. Um 190 ungmenni úr þessum hópi eru á atvinnuleysisskrá  og er kynjaskipting þeirra jöfn. Stærstur hluti þessa fólks býr á höfuðborgarsvæðinu og hefur sóst eftir því að komast á verknámsbrautir í framhaldsskólum.

Í ársbyrjun hófst átak félags- og tryggingamálaráðuneytisins og Vinnumálastofnunar undir yfirskriftinni Ungt fólk til athafna. Markmið átaksins var að bjóða ungum atvinnuleitendum fjölbreyttar leiðir til náms og starfsþjálfunar. Innan ramma þess verkefnis voru á vorönn tryggð pláss í framhaldsskólum fyrir unga atvinnuleitendur og er samstarf menntamála- og félagsmálaráðuneytisins nú byggt á sama grunni.

Áfram verður unnið að greiningu á þeim hópi umsækjenda eldri en 18 ára sem ekki er á atvinnuleysisskrá með það fyrir augum að skapa honum viðeigandi námsúrræði.

Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, segir mikilvægt að allt kapp verði lagt á að finna ungu fólki tækifæri til að mennta sig, nú þegar kreppir að á vinnumarkaði. „Það skortir mikið á að við séum jafn vel menntuð þjóð og við helst vildum vera. Skortur á fjölbreyttri menntun stendur ungum atvinnuleitendum fyrir þrifum. Það er verðugt verkefni að leita allra leiða til að auka menntunarstig þjóðarinnar á þessum erfiðu tímum. Það styrkir jafnt atvinnuleitendur og efnahagslífið til lengri tíma litið.“

Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir það mikilvægt að ungu fólki sé beint í nám og að framhald verkefnisins sé mikilvægur liður í því. „Þetta verkefni tókst vel á vorönn og við teljum það mikilvægt að sem flestum sé gefinn kostur á að stunda nám í okkar góðu framhaldsskólum þó að það sverfi að hjá þeim í þessum efnahagsþrengingum. Af þeim sökum er þetta samstarf við Vinnumálastofnun og félags- og tryggingamálaráðuneytið sérlega mikilvægt.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira