Hoppa yfir valmynd
16. maí 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 1/2007: Dómur frá 16. maí 2007

Ár 2007, miðvikudaginn 16. maí, var í Félagsdómi í málinu nr. 1/2007:

Alþýðusamband Íslands f.h.

Starfsgreinasambands Íslands

vegna Afls, starfsgreinafélags Austurlands

f.h. Guðnýjar Einarsdóttur

og Guðrúnar Margrétar Óladóttur

gegn

Fjarðabyggð

og

Félagi opinberra starfsmanna á Austurlandi

kveðinn upp svohljóðandi

dómur:

Mál þetta var dómtekið 7. þessa mánaðar að lokinni aðalmeðferð.

Málið dæma Helgi I. Jónsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Lára V. Júlíusdóttir og Gísli Gíslason.

Stefnandi er Alþýðusamband Íslands, Sætúni 1, Reykjavík f.h. Starfsgreinasambands Íslands vegna Afls, starfsgreinafélags Austurlands f.h. Guðnýjar Einarsdóttur og Guðrúnar Margrétar Óladóttur.

Stefndu eru Fjarðabyggð, Hafnargötu 2, Reyðarfirði, og Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi, Stekkjarbrekku 8, Reyðarfirði.

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að Afl, starfsgreinafélag, fari með samningsaðild fyrir Guðnýju Einarsdóttur, kt. 301148-3489, og Guðrúnu Margréti Óladóttur, kt. 250861-4869, við gerð kjarasamnings við Fjarðabyggð vegna starfa þeirra við Grunnskólann á Eskifirði og Almenningsbókasafnið á Eskifirði, Fjarðabyggð.

Þá krefst stefnandi þess að viðurkennt verði að um laun og kjör þeirra Guðnýjar og Guðrúnar hafi frá og með ráðningu til Fjarðabyggðar farið samkvæmt kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Starfsgreinasambands Íslands sem gerður var í maímánuði 2005.

Að lokum er þess krafist að stefndu verði dæmdir til greiðslu málskostnaðar auk álags er nemi virðisaukaskatti.

Stefndi, Fjarðabyggð, krefst sýknu af kröfu stefnanda um að viðurkennt verði að Afl, starfsgreinafélag, fari með samningsaðild fyrir Guðnýju Einarsdóttur vegna starfa hennar við Almenningsbókasafnið á Eskifirði og að um laun og kjör Guðnýjar fari samkvæmt kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Starfsgreinasambands Íslands frá maímánuði 2005. Stefndi fellst hins vegar á kröfu stefnanda um að Afl, starfsgreinafélag, fari með samningsaðild fyrir Guðrúnu Margréti Óladóttur, kt. 250861-4869, vegna starfs hennar við Grunnskólann á Eskifirði. Jafnframt er fallist á að um laun og kjör Guðrúnar frá og með ráðningu í ofangreint starf fari samkvæmt kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Starfsgreinasambands Íslands sem gerður var í maímánuði 2005.

Að lokum krefst stefndi að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

Af hálfu stefnda, Félags opinberra starfsmanna á Austurlandi, er fallist á stefnukröfur er varða réttindi Guðrúnar Margrétar Óladóttur og stefnanda fyrir hennar hönd að undanskilinni málskostnaðarkröfu, en krafist er sýknu af kröfum stefnanda um að viðurkennt verði að Afl, starfsgreinafélag, fari með samningsaðild fyrir Guðnýju Einarsdóttur, kt. 301148-3489, við gerð kjarasamnings við Fjarðabyggð vegna starfa hennar við Almenningsbókasafnið á Eskifirði, Fjarðabyggð, og af kröfum stefnanda um að viðurkennt verði að um laun og kjör Guðnýjar hafi frá og með ráðningu til Fjarðabyggðar farið samkvæmt kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Starfsgreinasambands Íslands sem gerður var í maímánuði 2005.

I

Í ágúst árið 2005 var Guðrún M. Óladóttir ráðin sem stuðningfulltrúi við Grunnskólann á Eskifirði. Óskaði hún þá eftir að halda óbreyttri félagsaðild sinni að Afli, starfsgreinafélagi, og í samræmi við það strikaði hún yfir þegar útfylltan reit ráðningarsamnings um félagsaðild og reit AFL í stað Félags opinberra starfsmanna á Austurlandi (FOSA). Voru ekki gerðar athugasemdir við það af hálfu Hilmars Sigurjónsson skólastjóra sem gekk frá ráðningu Guðrúnar. Við fyrstu launagreiðslu tók Guðrún hins vegar eftir því að ekki hafði verið farið að óskum hennar í þessu efni. Hafði hún því samband við Kristin Þorsteinsson, aðalgjaldkera stefnda, Fjarðabyggðar, og Gunnar Jónsson, forstöðumann fjármála- og stjórnsýslusviðs stefnda, sem báðir kváðu það vera forsendu starfs hennar hjá Fjarðabyggð að stéttarfélagsgjöldum yrði skilað til FOSA, enda ætti kjarasamningur þess félags við um starf hennar. 

Guðný Einarsdóttir var ráðin til starfa hjá Fjarðabyggð í lok september 2005. Voru þá gerðir við hana tveir ráðningarsamningar, annars vegar um 25% starf við Grunnskólann á Eskifirði og hins vegar um 70% starf við Almenningsbókasafnið á Eskifirði. Þegar gengið var frá ráðningu Guðnýjar óskað hún eftir að félagsgjöld sín yrðu greidd til Afls, starfsgreinafélags, enda hefði hún verið þar félagsmaður um árabil, auk þess sem kjarasamningur félagsins tæki til þess starfs er hún hafði nú ráðist til hjá stefnda, Fjarðabyggð. Í tölvupósti frá skólastjóra grunnskólans til stefnda, Fjarðabyggðar, kemur fram staðfesting á þessari ósk Guðnýjar. Í þeim tölvupóstsamskiptum kemur og fram sú afstaða stefnda, Fjarðabyggðar, að Guðný hafi ekkert val um stéttarfélagsaðild og að slík ákvörðun sé aðeins á valdi atvinnurekanda hverju sinni. Þá líti stefndi svo á að kjarasamningur Afls, starfsgreinafélags, eigi ekki við um starf Guðnýjar.

Stefnandi kveður að er Guðný komst að raun um, við fyrstu launagreiðslu, að ekki hafði verið komið til móts við ósk hennar um áframhaldandi félagsaðild að Afli og greiðslur iðgjalda til þess félags hafi hún óskað leiðréttingar á því af hálfu stefnda, Fjarðabyggðar, en þeirri ósk verið hafnað. Afl, starfsgreinafélag, lét þá málið til sín taka að beiðni Guðnýjar. Var tölvupóstur sendur til stefnda, Félags opinberra starfsmanna á Austurlandi, sem og meðstefnda, Fjarðabyggðar, í júní 2006, en honum ekki svarað. Stefndu var aftur sent bréf 12. júlí 2006. Var þess þar óskað að tekið yrði tillit til vilja þeirra Guðnýjar og Guðrúnar hvað varðaði áframhaldandi aðild að Afli og vísað til sambærilegs deilumáls sömu aðila sem Félagsdómur leysti úr með dómi þann 6. apríl 2006 í máli nr. 1/2006. Með bréfi stefnda, Fjarðabyggðar 17. ágúst 2006 var stefnanda tilkynnt að bæjarráð hefði falið Launanefnd sveitarfélaganna að leysa úr ágreiningnum.

Með bréfi lögmanns stefnanda, dagsettu 23. október 2006, var enn á ný skorað á stefndu að láta af afskiptum af félagsaðild þeirra Guðnýjar og Guðrúnar og vísað til þess að stefndi, Fjarðabyggð, hefði gert kjarasamning við Afl, starfsgreinafélag, um störf þeirra hjá stefnda, en með bréfi til lögmanns stefnanda frá 29. desember 2006 áréttaði stefndi afstöðu sína í málinu.

 

II

Stefnandi byggir í fyrsta lagi á því að stefndu sé óheimilt að hafa afskipti af félagsaðild áðurnefndra félagsmanna stefnanda. Í því felist að stefndu sé óheimilt að þvinga þær til þátttöku í öðru stéttarfélagi en þær sjálfar kjósa. Þær hafa aldrei sótt um félagsaðild að stefnda, Félagi opinberra starfsmanna á Austurlandi (FOSA), heldur þvert á móti óskað eftir áframhaldandi aðild að félagi stefnanda.

Réttur stefnanda í þessu efni sé tryggður í 74. gr. stjórnarskrárinnar sem og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu (MSE), sbr. lög nr. 62/1994. Af reglu 11. gr. MSE leiði að atvinnurekendum sé óheimilt að setja aðild að tilteknu stéttarfélagi að starfsgengisskilyrði, sbr. t.d. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu frá 11. janúar 2006 í málunum nr. 52562/99 og 52620/99. Þá sé í 4. gr. laga nr. 80/1938 lagt bann við því að atvinnurekendur, verkstjórar eða aðrir trúnaðarmenn atvinnurekenda, reyni að hafa áhrif á afstöðu starfsmanna og afskipti af stéttar- eða stjórnmálafélögum, til dæmis með uppsögnum eða loforðum um hagnað og af þeirri reglu megi leiða svipaða reglu hvað varðar aðild að tilteknu stéttarfélagi sem starfsgengisskilyrði.

Í öðru lagi byggir stefnandi á því að þær Guðrún og Guðný hafi, þegar þær voru ráðnar til starfa hjá sveitarfélaginu, verið félagar í stéttarfélagi sem hafi gert samning við stefnda, Fjarðabyggð, um þau störf er þær réðu sig til. Af þeirri ástæðu hafi engin ástæða verið til þess að þessir félagsmenn færðu félagsaðild sína til FOSA gegn yfirlýstum vilja sínum.

Kjarasamningur Launanefndar sveitarfélaga f.h. stefnda, Fjarðabyggðar, við Afl, starfsgreinafélag sé í öllum aðalatriðum sama efnis og samningur Fjarðabyggðar við Samflot vegna sömu starfa. Sem dæmi um sambærileika samninganna megi taka röðun í grunnlaunaflokka sem sé hin sama. Af þessari ástæðu sé ljóst að þau rök, að aðeins annar þessara kjarasamninga eigi við um störf þeirra Guðnýjar og Guðrúnar, standist ekki og séu því ekki rök fyrir aðild þeirra að FOSA fremur en Afli. Þá standist röksemdir stefndu, þess efnis að tilgreind störf „tilheyri“ ákveðnum stéttarfélögum, ekki að mati stefnanda. Í  yfirliti, sem unnið hafi verið í tengslum við mat á störfum hjá sveitarfélögunum og gildi fyrir viðsemjendur þeirra, svokölluðu starfsmati, komi fram að þeir, sem vinni sama starf og Guðrún Óladóttir, stuðningsfulltrúar án menntunar hjá Gunnskóla Eskifjarðar, hafi hingað til verið félagsmenn í Afli, starfsgreinafélagi. Fullyrðingar þess efnis, að kjarasamningur Afls hafi ekki átt eða eigi ekki við um þau störf, standist því ekki skoðun enda hafi kjarasamningur starfsgreinasambandsins að geyma þá launaflokka sem vísað sé til í ráðningarsamningum beggja þeirra kvenna sem mál þetta varðar og sé í fullu samræmi við greidd laun.

Þá byggir stefnandi á því að stefndi, Fjarðabyggð, geti ekki, sér til hagræðis, ákveðið einhliða stéttarfélagsaðild starfsmanna sinna, enda fari slík stefna gegn grundvallarréttindum stefnenda. Þessi vilji stefnda komi þó skýrt fram í starfsmannastefnu stefnda, Fjarðabyggðar, en þar segir í 49. gr.: „Þrátt fyrir félagafrelsi er það markmið sveitarfélagsins að samkonar störf hjá sveitarfélaginu tilheyri öll sama stéttarfélaginu, enda sé um að ræða sömu starfsstétt og einungis einn kjarasamningur sé í gildi um starfið.“ Samkvæmt þessu sé það vilji og yfirlýst stefna stefnda, Fjarðabyggðar, að beita sér fyrir því að starfsmenn sveitarfélagsins njóti ekki félagafrelsis í reynd heldur skuli miðað að því að starfsmenn sveitarfélagsins séu allir í sama félaginu, sveitarfélaginu til hagræðis. Slík stefna standist ekki skoðun en hún byggi auk þess á þeirri forsendu að aðeins sé í gildi einn samningur um viðkomandi starf sem ekki sé raunin í tilviki því sem hér um ræðir.

Loks byggir stefnandi á því að umræddum félagsmönnum stefnanda hafi þegar frá fyrsta degi í starfi sínu hjá stefnda, Fjarðabyggð, verið heimil aðild að Afli, starfsgreinafélagi. Hafi þær báðar verið félagsmenn í stéttarfélaginu er þær voru ráðnar  til stefnda, Fjarðabyggðar, og snúist mál þetta ekki um heimild þeirra til að skipta um stéttarfélag heldur rétt þeirra til þess að vera áfram félagsmenn sama stéttarfélags sem þá þegar hafi verið með gildan kjarasamning við stefnda, Fjarðabyggð. Til samræmis við það hafi hafi þeim borið réttur til þess að Afl, starfsgreinafélag, færi með samningsumboð fyrir þær og geti þær ekki verið bundnar af stéttarfélagsaðild sem stefndu hafi, einhliða, án samráðs og gegn vilja þeirra, ákveðið  þeim til handa.

 

III

Af hálfu stefnda, Fjarðabyggðar, er á því byggt að sveitarfélagið hafi orðið til í núverandi mynd 8. júní 2006 með sameiningu sveitarfélaganna Austurbyggðar, Fáskrúðsfjarðarhrepps, Fjarðabyggðar og Mjóafjarðarhrepps. Áður hafi sameinast  Neskaupstaður, Eskifjarðarkaupstaður og Reyðarfjarðarhreppur í sveitarfélagið Fjarðabyggð 1998. Hafi samskipti sveitarfélaganna, sem sameinuðust undir heiti Fjarðabyggðar, við stéttarfélög og samningsfyrirsvar varðandi ýmis störf, verið með mismunandi hætti.  Þannig hafi samningsfyrirsvar varðandi sambærileg störf í einstökum tilvikum verið hjá Félagi opinberra starfsmanna á Austurlandi í Fjarðabyggð (FOSA), hinni eldri, en hjá AFLI, Starfsgreinafélagi Austurlands í Austurbyggð, eða stéttarfélögum sem sameinuðust undir merkjum þess, þ.e. Verkalýðsfélagi Norðfjarðar, Verkalýðsfélagi Reyðarfjarðar og Verkalýðsfélaginu Árvakri.  FOSA eigi aðild að BSRB og hafi rétt til að gera kjarasamninga við sveitarfélagið samkvæmt 4. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, en  AFL, starfsgreinafélag, starfi á grundvelli laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og hafi gert kjarasamninga sem tryggja félagsmönnum forgangsrétt til allrar þeirrar vinnu sem samningur félagsins við sveitarfélagið tekur yfir.

Guðrún M. Óladóttir hafi verið ráðin í starf stuðningsfulltrúa við Grunnskólann á Eskifirði í ágúst 2005. Starfið hafi í auglýsingu verið skilgreint á samningssviði FOSA á grundvelli kjarasamnings sem gerður hafði verið milli stéttarfélagsins og Fjarðabyggðar með gildistíma frá 1. apríl 2005 - 30. nóvember 2008.  Með hliðsjón af  7. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna og með tilliti til þess að sveitarfélagið taldi FOSA eitt fara með samningsfyrirsvar vegna hlutaðeigandi starfs hafi stefndi ekki talið sig geta orðið við ósk starfsmannsins um að greiða stéttarfélagsgjöld vegna starfsins til AFLS, starfsgreinafélags. Nánari skoðun málsatvika hafi þó leitt í ljós að kjarasamningur um sambærileg störf hjá Austurbyggð hafi verið við Starfsgreinasamband Íslands fyrir hönd AFLS, starfsgreinafélags.  Gildistími þess samnings sé frá 1. maí 2005 til 30. nóvember 2008.  Gildandi kjarasamningar stefnda um starf stuðningsfulltrúa við grunnskóla séu því við bæði stéttarfélögin.  Í ljósi þess sé fallist á kröfu um að AFL, starfsgreinafélag, fari með samningsaðild fyrir Guðrúnu M. Óladóttur í starfi stuðningsfulltrúa við Grunnskólann á Eskifirði.  Jafnframt sé viðurkennt að um laun og kjör Guðrúnar fari samkvæmt kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Starfsgreinasambands Íslands frá maímánuði 2005.

Guðný Einarsdóttir hafi verið ráðin í 25% starf forstöðumanns bókasafns Grunnskólans á Eskifirði og 70% starf forstöðumanns almenningsbókasafnsins á Eskifirði frá ágúst 2005. Starfið hafi verið skilgreint á samningssviði FOSA með vísan til kjarasamnings sem gerður hafi verið milli stéttarfélagsins og stefnda með gildistíma frá 1. apríl 2005 til 30. nóvember 2008. Eins og fram komi í 7. gr. laga nr. 94/1986 eigi starfsmaður rétt til þátttöku í stéttarfélagi sem fer með samningsumboð samkvæmt lögunum. Sé starfsmaður ekki innan stéttarfélags samkvæmt lögunum skuli hann eftir sem áður greiða gjald til þess stéttarfélags, sem hann ætti að tilheyra, jafnt því sem honum bæri að greiða væri hann í því, enda fari um laun hans og önnur starfskjör samkvæmt samningum þess.

Ekki liggi fyrir að stefndi hafi gildan kjarasamning um störf forstöðumanna bókasafnanna við aðra en Samflot bæjarstarfsmannafélag fyrir hönd FOSA. Verði því ekki fallist á að AFL, starfsgreinafélag, geti farið með samningsaðild fyrir Guðnýju Einarsdóttur. Af því leiði að ekki skuli fara um laun og kjör hennar samkvæmt kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Starfsgreinasambands Íslands frá maímánuði 2005.

Samkvæmt 4. gr. laga FOSA skuli allir starfsmenn, sem taka laun samkvæmt kjarasamningi félagsins, greiða félagsgjöld til þess.  Þótt starfsmaður standi utan félagsins leysi það hann ekki undan greiðsluskyldu, sbr. 7. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Með vísan í gr. 13.2.1 í kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga f.h. Fjarðabyggðar og Samflots bæjarstarfsmannafélaga f.h. FOSA beri launagreiðanda að innheimta félagsgjöld fyrir stéttarfélag sem fer með samningsfyrirsvar, hvort sem starfsmaðurinn kýs að vera í stéttarfélaginu eða ekki. Þeirri skyldu sinni hafi stefndi sinnt.

Stefndi telji sér skylt að kanna og taka afstöðu til þess hvort það félag, sem um ræðir, fari með samningsaðild vegna hlutaðeigandi starfa. Það sé því ekki sjálfgefið að stéttarfélag, sem starfsmaður kýs að eiga aðild að, fari með samningsfyrirsvar vegna þess starfs sem hann ræður sig til.

Umræddir starfsmenn hafi, þegar þeir voru  ráðnir til starfa hjá sveitarfélaginu, verið félagar í stéttarfélagi sem hafi gert samning við stefnda um þau störf sem þeir réðu sig til. Hafi því álitamáli, hvort samningur Starfsgreinasambandsins fyrir hönd Afls og Launanefndar sveitarfélaga fyrir hönd stefnda taki til þeirra starfa, sem stefnendur réðu sig til hjá sveitarfélaginu, verið svarað þannig að hann taki til annars starfsins en ekki hins. 

Samkvæmt grunnreglu 1. mgr. 6. gr. laga nr. 94/1986 sé meginregla að einungis eitt félag hafi rétt til samningsgerðar fyrir sama vinnuveitanda fyrir sömu starfsstétt. Þótt kjarasamningar Launanefndar sveitarfélaga fyrir hönd stefnda við Starfsgreinasambandið annars vegar og Samflotið hins vegar vegna sömu starfa hafi í veigamiklum atriðum verið samræmdir í samningunum 2001 og séu sama efnis hafi ekki verið áformað að breyta samningsaðildinni sem skipað sé með misjöfnum hætti eftir sveitarfélögum. Vísist í því sambandi meðal annars til bókana á samstarfsnefndarfundum LN og SGS þar sem fram komi sá sameiginlegi skilningur að forgangsréttarákvæði í samningi aðila frá apríl 2001 hafi sem slíkt ekki átt að leiða til breytinga á stéttarfélagsaðild (samningsaðild) samningsaðila sveitarfélaga eins og hún var við undirritun samnings.

 

IV

Stefndi, Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi, byggir á því að samkvæmt 4. gr. laga stefnda skuli allir starfsmenn, sem taka laun samkvæmt kjarasamningi félagsins, greiða félagsgjöld til þess. Leysi úrsögn úr félaginu engan undan greiðsluskyldu, sbr. 7. gr. laga stefnda og 7. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Líti stefndi svo á að tilvitnuð ákvæði taki til Guðnýjar Einarsdóttur.

Samkvæmt grunnreglu 1. málsgr. 6. gr. laga nr. 94/1986 sé meginregla að einungis eitt félag hafi rétt til samningsgerðar fyrir sama vinnuveitanda fyrir sömu starfsstétt. Sé starfsmannastefna meðstefnda í samræmi við það. Þessi grunnregla sé sett meðal annars til að koma í veg fyrir glundroða á vinnumarkaði opinberra starfsmanna sem hlytist af því að sveitarfélög þyrftu að semja við fleiri en eitt stéttarfélag um hvert einstakt starf og að starfsmenn gætu „hoppað“ á milli kjarasamninga eftir því hvernig vindar blása og hvað þeir telji henta sér hverju sinni. Verði sveitarfélög ekki skylduð til kjarasamningsgerðar við önnur stéttarfélög en þau sem starfa samkvæmt lögum nr. 94/1986.

Mótmælt er að stefnandi hafi gert kjarasamning við meðstefnda, Fjarðabyggð, sem taki til starfa Guðnýjar Einarsdóttur samkvæmt umræddum ráðningarsamningum. Í bókunum á fundum í samstarfsnefndum LN og SGS frá því á árinu 2001, sem enn séu í gildi, komi fram að það sé sameiginlegur skilningur að forgangsréttarákvæði samnings LN og SGS frá 7. apríl 2001 hafi sem slíkt ekki átt að leiða til breytinga á stéttarfélagsaðild samningsaðila sveitarfélaga eins og hún var við undirritun þess kjarasamnings.

Starfsmat það, sem stefnandi byggi á, sé ekki kjarasamningur eða ígildi hans.  Um sé að ræða „excel“ skjal sem hafi aldrei verið ætlað að breyta gildissviði gildandi kjarasamninga, þ.e. til hverra starfa hver kjarasamningur tekur. Beri starfsmatið allt að einu með sér að starf forstöðumanns á bókasöfnum sé á samningssviði stefnda.    

Stefnandi byggi á sömu málsástæðum og hann gerði í máli Sveins Brimis Björnsonar gegn Fjarðabyggð og FOSA sem Félagsdómur dæmdi um í máli nr. F-1/2006.  Séu atvik þessa máls ólík atvikum í því máli. Í málinu hafi verið óumdeilt að stefnandi hafi við ráðningu hjá meðstefnda strikað yfir tilgreiningu á FOSA sem stéttarfélagi og tilfært þess í stað Afl, starfsgreinafélag. Vegna þessa hafi niðurstaða Félagsdóms verið sú að umræddur starfsmaður hafi ekki í neinn tíma eftir ráðningu sína í starf sitt sem vélamaður hjá Fjarðabyggð talist félagsmaður í FOSA. Í ráðningarsamningi Guðnýjar sé FOSA tilgreint sem stéttarfélag. Er mótmælt sem ósönnuðu að hún hafi gert fyrirvara um þetta við ráðningarnar.

Þá hafi í máli nr. F-1/2006 verið litið til starfs stefnanda og þeirrar staðreyndar að samkvæmt gögnum málsins hafi tækjamenn í þjónustu hins stefnda bæjarfélags, meðstefnda Fjarðabyggðar, ýmist verið í almennum stéttarfélögum eða stéttarfélögum opinberra starfsmanna. Sömu sögu sé ekki að segja af störfum Guðnýjar Einarsdóttur á bókasöfnum meðstefnda.

Einnig hafi í málinu verið litið til framlagðs starfsmats sem hafi verið sambærilegt því sem liggi fyrir í þessu máli. Þá sé sá munur á málum þessum að starf stefnanda í máli nr. F-1/2006 hafi verið á samningssviði Afls, starfsgreinasambands, eins og önnur dæmi hafi verið um í starfsmatinu. Störf þau, er Guðný Einarsdóttir réð sig til, séu hins vegar eingöngu á samningssviði FOSA.

Framangreindu til viðbótar er á því byggt að áratuga hefð sé fyrir því að kjarasamningar, annars vegar verkalýðsfélaga, sem starfa samkvæmt lögum nr. 80/1938, og hins vegar sveitarfélaga, taki ekki til starfa forstöðumanna bókasafna og annarra viðlíka þjónustustarfa í opinbera þágu. Í málinu bendi ekkert til að meðstefndi hafi vikið frá þessari venju. 

Varðandi kröfu stefnanda um viðurkenningu á því að um laun Guðnýjar Einarsdóttur hafi, frá og með ráðningu til meðstefnda,  farið samkvæmt kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Starfsgreinasambands Íslands, bendi stefndi á að útilokað sé að verða við þeirri kröfu, að minnsta kosti á meðan kjarasamningur FOSA sé í gildi.  Vísist til 2. málsgr. 3. gr. laga nr. 80/1938, 4. málsgr. 6. gr. laga nr. 94/1986 og fordæmi í dómi Félagsdóms í máli nr. 18/1998 um þetta, auk framangreindra málsástæðna.

 

V

Með ráðningarsamningi, dagsettum 11. ágúst 2005, réð Guðrún M. Óladóttir sig í starf stuðningsfulltrúa við Grunnskólann á Eskifirði. Í reit fyrir stéttarfélag á ráðningarsamningnum var vélritað „FOSA“ en yfir það strikaði Guðrún og ritaði eigin hendi „AFL“. Svo sem áður greinir hafa stefndu, eftir að mál þetta var höfðað, fallist á kröfu stefnanda um að Afl, starfsgreinafélag, fari með samningsaðild Guðrúnar við gerð kjarasamnings við stefnda, Fjarðabyggð, vegna ofangreinds starfa hennarar og jafnframt að um laun og kjör hennar hafi farið samkvæmt kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaganna og Starfsgreinasambands Íslands með gildistíma frá 1. maí 2005 til 30. nóvember 2008. Hafa þau rök verið færð fyrir þeirri niðurstöðu að komið hafi í ljós við nánari skoðun að kjarasamningur um sambærilegt starf hjá Austurbyggð hafi verið gerður við Starfsgreinasamband Íslands f.h. Afls, starfsgreinafélags, en kjarasamningur hafi einnig verið gerður um starfið við stefnda, Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi, með gildistíma frá 1. apríl 2005 til 30. nóvember 2008. Séu því í gildi kjarasamningar við bæði stéttarfélögin um starf stuðningsfulltrúa.

Fram er komið í málinu að er Guðný Einarsdóttir var ráðin í 25% starf sem forstöðumaður bókasafns Grunnskólans á Eskifirði, með ráðningarsamningi 20. september 2005, og 70% starf sem forstöðumaður almenningsbókasafnsins á Eskifirði, með ráðningarsamningi 29. september 2005, hafi hún óskað eftir að félagsgjöld sín yrðu greidd til Afls, starfsgreinafélags, þar sem kjarasamningur stéttarfélgsins tæki til þessara starfa. Verður þetta ráðið af bréfaskiptum milli skólastjóra Grunnskólans á Eskifirði, Hilmars Sigurjónssonar, og stefnda 26. og 27. september 2005. Kemur fram í bréfi Gunnars Jónssonar, forstöðumanns fjármála- og stjórnsýslusviðs stefnda, Fjarðabyggðar, dagsettu 27. september 2005, til skólastjórans, að Guðný yrði að óska formlega eftir því við stefnda, Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi, að fá að greiða félagsgjöldin til Afls, starfsgreinafélags. Að því samþykki fengnu væri unnt að ganga frá ráðningarsamningi á forsendum Afls, starfsgreinafélags, en ekki fyrr.

Enda þótt ofangreind bréfaskipti taki til ráðningar Guðnýjar sem forstöðumanns bókasafns Grunnskólans á Eskifirði verður að telja nægjanlega fram komið í málinu að ósk hennar um að félagsgjöld hennar vegna beggja ráðninganna yrðu greidd til Afls, starfsgreinafélags, hafi jafnframt tekið til ráðningar hennar í starf sem forstöðumanns almenningsbókasafnsins á Eskifirði, en sömu forsendur fyrir höfnun stefnda, Fjarðabyggðar, á að verða við beiðni hennar um greiðslu félagsgjalda til Afls, starfsgreinafélags, lágu að baki í báðum tilvikum. Verður því að telja að vilji Guðnýjar um að Afl, starfsgreinafélag, færi með samningsaðild gagnvart stefnda, Fjarðabyggð, vegna beggja starfanna, hafi legið fyrir þegar gengið var frá ráðningarsamningunum. Eins og afstöðu stefnda, Fjarðabyggðar, til stéttarfélagsaðildar Guðnýjar var háttað verður að telja að hún hafi ekki átt annarra kosta völ en að rita undir ráðningarsamningana eins og þeir voru lagðir fyrir hana.

Kjarasamningur var gerður milli Launanefndar sveitarfélaga og Starfsgreinasambands Íslands með gildistíma frá 1. maí 2005 til 30. nóvember 2008 en Afl, starfsgreinafélag, er stéttarfélag innan starfsgreinasambandsins. Þá gerðu Launanefnd sveitarfélaga og Samflot bæjarstarfsmannafélaga kjarasamning sín á milli með gildistíma frá 1. apríl 2005 til 30. nóvember 2008, en Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi er eitt þeirra stéttarfélaga sem eiga aðild að Samfloti bæjarstarfsmannafélaga.

Liggur því fyrir í málinu að er Guðný Einarsdóttir réð sig til starfa hjá stefnda, Fjarðabyggð, hafði stefndi gert kjarasamninga við tvö stéttarfélög, annars vegar stéttarfélag opinberra starfsmanna, samkvæmt lögum nr. 94/1986, og hins vegar almennt stéttarfélag, samkvæmt lögum nr. 80/1938, þar sem um getur verið að ræða sömu störf.

Af samanburði á ofangreindum kjarasamningum verður ekki annað séð en að þeir séu í meginatriðum sama efnis og að röðun í grunnlaunaflokka sé hin sama sem og launafjárhæðir. Verður því ekki talið að stefndi, Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi, hafi fært haldbær rök fyrir því að starf Guðnýjar heyri undir samningssvið stefnda. Með vísan til þess ber að taka til greina kröfu stefnanda um að Afl, starfsgreinafélag, fari með samningsaðild fyrir Guðnýju Einarsdóttur við gerð kjarasamnings við Fjarðabyggð vegna starfa hennar við Grunnskólann á Eskifirði og Almenningsbókasafnið á Eskifirði, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 80/1938, enda er megininntak aðildar að stéttarfélögum samningsfyrirsvar félaganna við kjarasamningsgerð. Verður ekki talið að ákvæði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 94/1986 standi í vegi fyrir þeirri niðurstöðu eins og kjarasamningsgerð var háttað og rakið hefur verið.

Sá eini munur er á ráðningarsamningum Guðrúnar M. Óladóttur og Guðnýjar Einarsdóttur að hin fyrrnefnda strikaði yfir nafn stefnda, Stéttarfélags opinberra starfsmanna, á ráðningarsamningi sínum, en Guðný ekki. Svo sem áður greinir verður að telja nægilega fram komið í málinu að vilji Guðnýjar hafi staðið til þess að Afl, starfsgreinafélag, færi með samningsaðild fyrir sína hönd við gerð kjarasamnings við stefnda, Fjarðabyggð, vegna starfa sinna við Grunnskólann á Eskifirði og Almenningsbókasafnið á Eskifirði. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 80/1938, og samkvæmt þeirri undirstöðureglu sem fram kemur í 4. mgr. 6. gr. laga nr. 94/1986, hættir meðlimur stéttarfélags að vera bundinn af samþykktum félags síns og sambands þess þegar hann samkvæmt reglum félagsins er farinn úr því en samningar þeir, sem hann hefur orðið bundinn af, meðan hann var félagsmaður, eru skuldbindandi fyrir hann meðan hann vinnur þau störf sem samningurinn er um þar til hann getur fyrst fallið úr gildi fyrir uppsögn. Svo áður greinir var Guðný Einarsdóttir félagi í Afli, starfsgreinafélagi, áður en hún réð sig til starfa hjá stefnda, Fjarðabyggð, en stefndi ákvað einhliða, gegn vilja hennar, að hún yrði félagi í stefnda, Félagi opinberra starfsamanna á Austurlandi, við ráðningarnar. Áður hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að ekki verði annað séð af samanburði á þeim tveimur kjarasamningum, sem hér um ræðir, en að þeir séu í meginatriðum sama efnis og að röðun í grunnlaunaflokka sé hin sama sem og launafjárhæðir. Bar því enga nauðsyn til þess að störf Guðnýjar féllu undir kjarasamning stefnda, Félags opinberra starfsmanna á Austurlandi, fremur en kjarasamning Afls, starfsgreinafélags. Verður því að líta svo á að Guðný hafi ekki orðið félagsmaður í stefnda, Félagi opinberra starfsmanna á Austurlandi, við gerð umræddra ráðningarsamninga, heldur haldið áfram að vera félagsmaður í Afli, starfsgreinafélagi, og getur sú einhliða ákvörðun stefnda, Fjarðabyggðar, að um laun og kjör hennar fari samkvæmt kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Samflots bæjarstarfsmanna, þar engu breytt.

Eftir þessum úrslitum verða stefndu, hvor um sig, dæmdir til að greiða stefnanda 150.000 krónur í málskostnað.

 

Dómsorð:

Viðurkennt er að Afl, starfsgreinafélag, fari með samningsaðild fyrir Guðnýju Einarsdóttur, kt. 301148-3489, og Guðrúnu M. Óladóttur, kt. 250861-4869, við gerð kjarasamninga við Fjarðabyggð vegna starfa þeirra við Grunnskólann á Eskifirði og Almenningsbókasafnið á Eskifirði, Fjarðabyggð, og um laun og kjör þeirra hafi frá og með ráðningum til stefnda, Fjarðabyggðar, farið samkvæmt kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Starfsgreinasambands Íslands sem gerður var í maímánuði 2005.

Stefndu, Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi og Fjarðabyggð, greiði, hvor um sig, stefnanda, Alþýðusambandi Íslands, f.h. Starfsgreinasambands Íslands vegna Afls, starfsgreinafélags Austurlands, f.h. Guðrúnar M. Óladóttur og Guðnýjar Einarsdóttur, 150.000 krónur í málskostnað.

 

Helgi I. Jónsson

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Lára V. Júlíusdóttir

Gísli Gíslason



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum