Hoppa yfir valmynd
13. júlí 2010 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra í opinberri heimsókn í Kína

Utanríkisráðherra hittir Yang Jiechi utanríkisráðherra Kína
Utanríkisráðherra hittir Yang Jiechi utanríkisráðherra Kína

Á klukkustundarlöngum fundi með Xi Jinping varaforseta Kína sem haldinn var í Höll Alþýðunnar í Peking í dag lagði Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, til að Kína og Ísland gerðu með sér formlegt samkomulag um að vinna saman að jarðhitanýtingu í þróunarlöndum, einkum í Austur-Afríku þar sem mikinn jarðhita er að finna. Skv. tillögu utanríkisráðherra myndu Kínverjar afla fjármagns, en hlutur Íslands myndi byggjast á íslenskri sérfræðiþekkingu, og verða framlag Íslands til yfirfærslu á endurnýjanlegri orkutækni í samræmi við Kaupmannahafnarsáttmálann frá í desember sl. Varaforseti Kína taldi hugmyndina mjög góða til að efla samvinnu Kína og Íslands, og vinna um leið gegn loftslagsbreytingum.

Utanríkisráðherra og varaforsetinn ræddu einnig hvernig nýta mætti 40 ára afmæli stjórnmálasambands Íslands og Kína á næsta ári, og opnun tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu til að efla verulega samskipti landanna á sviði menningar og lista. Kínverjar sjá sem kunnugt er um að leggja glerhjúpinn utan um Hörpu. Sendiherra Íslands í Kína, Kristín Árnadóttir, hefur þegar lagt drög að mikilvægum samningum í því efni.

Varaforsetinn og íslenski utanríkisráðherrann ræddu margvísleg önnur málefni, svo sem fjármálakreppuna á Íslandi, stöðu efnahagsmála í heiminum og viðhorf Kínverja til þeirra, viðskipti þjóðanna með fisk auk þess sem norðurslóðasamstarf var ítarlega rætt. Ráðherrann lýsti jafnframt ánægju íslensku ríkisstjórnarinnar með nýlegt samkomulag Kína og Íslands um gjaldmiðlaskipti og þakkaði öflugan stuðning Kínverja við málstað Íslands innan AGS. Varaforseti Kína taldi meðal annars að hagkerfum heimsins myndi farnast mun betur á þessu ári en því síðasta, og lýsti ánægju með hversu föstum tökum Ísland hefði tekið fjármálakreppu sína í samstarfi við AGS.

Xi Jinping er einn af valdamestu mönnum Kína og talinn líklegur arftaki Hu Jintao, forseta.

Í gær átti utanríkisráðherra jafnframt tæplega þriggja tíma fund með Yang Jiechi, utanríkisráðherra Kína. Í umræðum um norðurslóðamál, og opnun nýrrar siglingaleiðar frá Kyrrahafi um Norður-Íshaf til Atlantshafsins hvatti kínverski utanríkisráðherrann til þess að löndin formgerðu samstarf á sviði rannsókna á norðurslóðum með samkomulagi. Kínverjar hafa sent fjóra stóra rannsóknarleiðangra til norðurskautsins, og stendur einn yfir núna.

Össur tók upp mannréttindamál og spurði starfsbróður sinn eftir því hvernig unnið væri að því að tryggja réttindi þjóðarbrota, og innti sérstaklega eftir hvenær Kínverjar hyggðust fullgilda hinn mikilvæga mannréttindasáttmála um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sem þeir undirrituðu 1998. Yang Jiechi sagði unnið að því að fullgilda sáttmálann, og kvað Kínverja ekki skorast undan því að eiga viðræður við vinveitt ríki um mannréttindamál. Voru viðhorf ríkjanna til mannréttinda rætt ítarlega.

Kínverski utanríkisráðherrann tók sérstaklega upp viðskipti landanna, og hafði frumkvæði að því að hvetja til þess að fundur sameiginlegrar nefndar ríkjanna tveggja um viðskiptamál færi fram hið fyrsta. Ráðherrarnir ræddu jafnframt um viðræður landanna tveggja um fríverslun og má gera ráð fyrir því að næsti fundur sem tengist þeim fari fram í Peking síðar á þessu ári eða í byrjun næsta árs. Mikill hugur kom fram hjá bæði utanríkisráðherranum, sem og á fundinum með varaforseta alþýðulýðveldisins, um að efla viðskipti landanna.

Utanríkisráðherrarnir ræddu ítarlega um samstarf landanna á sviði jarðhita, og kínverski ráðherrann kvað mikinn vilja hjá Kínverjum til að nýta þekkingu Íslendinga til að reisa fleiri hitaveitur í Kína. Ein slík, sem reist var í samstarfi landanna, sér á annað hundrað þúsund manns fyrir heitu vatni. Þá lýsti Yang Jiechi miklum áhuga á hugmynd hins íslenska starfsbróður síns um samstarf landanna á sviði jarðorkuframleiðslu, ekki síst í Austur-Afríku þar sem mikinn jarðhita er að finna, er orkufátækt hamlar hagvexti.

Mynd með grein: Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hittir Yang Jiechi utanríkisráðherra Kína.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum