Hoppa yfir valmynd
18. apríl 2013 Innviðaráðuneytið

Ýmsar tölur um umferðarslys undir meðaltali síðustu tíu ára

Skýrsla um umferðarslys á Íslandi 2012 var kynnt á blaðamannafundi Umferðarstofu og innanríkisráðuneytis í dag. Kom þar meðal annars fram hjá Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra að síðasta ár hefði að flestu leyti verið gott í umferðinni, tölur um slys og slasaða væru undir meðaltali síðustu tíu ára. Hörmuleg slys síðustu vikur skyggðu þó á þessa góðu þróun.

Innanríkisráðherra og fulltrúar Umferðarstofu kynntu skýrslu um umferðarslys 2012 í dag.
Innanríkisráðherra og fulltrúar Umferðarstofu kynntu skýrslu um umferðarslys 2012 í dag.

Umferðarstofa hefur undanfarin ár gefið út viðamikla samantekt um slys hvers árs. Er þar að finna yfirlit yfir slys, greiningu á stað og tíma slyss, aldri, kyni og þjóðerni þeirra sem slasast eða látast og slysin eru flokkuð eftir því hvort gangandi, akandi eða hjólandi vegfarendur eiga í hlut.

Ögmundur Jónasson fór nokkrum orðum um slysaskýrsluna ásamt þeim Gunnari Geir Gunnarssyni, framkvæmdastjóra umferðaröryggissviðs Umferðarstofu, og Einari Magnúsi Magnússyni, upplýsingafulltrúa Umferðarstofu. Ráðherra þakkaði í upphafi Umferðarstofu og starfsfólki hennar fyrir að standa skil á þessari tölfræði. Umferðastofa væri mikilvægur stólpi á þessu sviði ásamt Vegagerðinni og öðrum aðilum sem sinna umferðar- og öryggismálum. Hann sagði árlegar skýrslur um umferðarslys mikilvæga tölfræði og þær gæfu góða mynd af því hvort við værum á réttri braut í forvarnarmálum og hver þróunin hefur verið varðandi umferðarslys. Slíkar samantektir séu því mikilvæg gögn fyrir alla sem rýna í þessa þróun.

Innanríkisráðherra sagði síðasta ár hafa að flestu leyti verið gott í umferðinni, tölur sýndu að árangur hafi náðst og færri látist eða slasast alvarlega. Tölur um slys og slasaða væru undir meðaltali síðustu tíu ára. Innanríkisráðherra og fulltrúar Umferðarstofu kynntu skýrslu um umferðarslys 2012 í dag.

Meðal þess sem fram kemur í skýrslunni má nefna: 

  • Um það bil helmings fækkun látinna síðustu 5 ár miðað við 5 ár þar á undan.
  • Fjöldi látinna og alvarlega slasaðra var í fyrra 22% undir fimm ára meðaltali.
  • Alvarlega slösuðum hefur fækkað um 34% á tveimur árum.
  • Íslenskir vegfarendur eru með þeim fremstu í heimi hvað öryggi varðar.
  • Ekkert banaslys árið 2012 af völdum ölvunar.

Sjá má skýrsluna sjálfa og nánari umfjöllun á vef Umferðarstofu.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum