Hoppa yfir valmynd
9. apríl 2019 Forsætisráðuneytið

12. fundur um stjórnarskrármál

Fundur formanna stjórnmálaflokka,
sem sæti eiga á Alþingi, um stjórnarskrármál

12. fundur – haldinn þriðjudaginn 9. apríl 2019, kl. 12.00-13.30, í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu.

Fundargerð

Mætt eru: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra (VG), Bjarni Benediktsson (Sjálfstæðisflokki), Helgi Hrafn Gunnarsson (Pírötum), Inga Sæland (Flokki fólksins), Logi Einarsson (Samfylkingu), Sigurður Ingi Jóhannsson (Framsóknarflokki), og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (Viðreisn).
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (Miðflokki) er forfallaður vegna ferðar erlendis. SIJ víkur af fundi þegar 3. dagskrárliður hefst. Þá situr fundinn Unnur Brá Konráðsdóttir, verkefnisstjóri stjórnarskrárendurskoðunar, og Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri forsætisráðuneytinu, sem ritar fundargerð. Þá er Skúli Magnússon héraðsdómari gestur fundarins undir 3. lið.

 

1. Fundargerð síðasta fundar
Drög að fundargerð síðasta fundar höfðu verið send út fyrir fundinn. Engar athugasemdir eru gerðar og telst hún samþykkt.

 

2. Auðlindaákvæði
Forsætisráðherra rifjar upp stöðu málsins og kynnir nýja útgáfu frumvarps þar sem tekið hefur verið tillit til skriflegra athugasemda sem bárust eftir síðasta fund. Einnig kynnir hún drög að inngangstexta sem myndi fylgja frumvörpum um náttúruauðlindir og umhverfisvernd í samráðsgátt.

Umræðan snýst um hvort enn þurfi að hnykkja á orðalagi í ákvæðinu um hvað felist í því að enginn geti fengið auðlindir í þjóðareign til varanlegra afnota, hvort taka eigi fram í greinargerð að gjald fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni megi ekki vera of lágt og hvort hugtakið auðlindarenta eigi þar erindi.

Ákveðið að gefa viðbótarfrest fram að næsta fundi til að allir geti farið betur yfir fyrirliggjandi texta með baklandi sínu og forsætisráðherra muni meta hvort enn sé svigrúm til að taka tillit til atriða sem nefnd voru á fundinum.

3. Þingrof
Skúli Magnússon héraðsdómari kynnir minnisblað um þingrof sem fundarmenn höfðu fengið sent í tölvupósti 8. mars sl.

Fram kemur í máli Skúla að hann telji stjórnarskrána skýra að því leyti að það þurfi atbeina bæði forsætisráðherra og forseta til að þingrof eigi sér stað. Sumir fræðimenn hafi haldið því fram að forseta sé í vissum tilfellum skylt að fallast á tillögu forsætisráðherra í þessu efni. Enga slíka lagalega skyldu sé hins vegar hægt að leiða af stjórnarskránni og sagan staðfesti það.

Að mati Skúla eru engir augljósir gallar á gildandi fyrirkomulagi. Í stjórnarskrárbreytingunni 1991 felist að þingmenn haldi umboði sínu til kjördags og geti komið fram vantrausti á forsætisráðherra og því standi og falli þingræðið ekki með þessu hlutverki forseta. Hann kveðst ekki sannfærður um að það sé heppilegasti kosturinn að breyta fyrirkomulaginu þannig að þing verði ekki rofið án samþykkis þess. Þingrof skýrist hugmyndafræðilega sem liður í aðhaldi valdþáttanna hver með öðrum. Það sé ekki ólýðræðislegt að forseti geti gripið í taumana við vissar aðstæður þegar pattstaða er uppi í þinginu til dæmis. Afleiðingarnar séu þá aldrei verri en þær að kosið sé á ný. Það sé tæknileg spurning hvort forseti geti dregið ákvörðun um þingrof til baka. Kveðst Skúli telja að sú sé raunin. Í finnsku stjórnarskránni sé tekið fram að forseti þurfi að ráðfæra sig við þingið áður en þing er rofið. Ákvæði af því tagi kunni að koma til álita við endurskoðun.

Í umræðu er minnst á norska fyrirkomulagið þar sem þingrof er ekki heimilt sem hafi þann kost að það knýi menn til að finna leiðir út úr stjórnarkreppu. Jafnframt kemur fram að norska fyrirkomulagið sé undantekning í alþjóðlegu samhengi. En það eigi sér vissulega hliðstæðu á sveitarstjórnarstiginu hér á landi. Þá koma fram sjónarmið um að þingrofsheimildin eigi að vera til varnar lýðræði og valddreifingu en athugandi sé hvort hægt sé að afstýra því að hún sé notuð sem pólitískt valdatæki. Loks er nefnt sem möguleiki að afmarka þingrofsheimildir við tilvik þar sem stjórnarkreppa hefur verið viðvarandi í lengri tíma.

4. Önnur mál
Ákveðið að næsti fundur verði síðdegis 10. maí næstkomandi.

Fleira ekki rætt.

Fundi slitið kl. 13.30


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum