Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Íslensk sendinefnd í hugvitsdrifnu Singapúr

Íslensk sendinefnd í hugvitsdrifnu Singapúr  - myndDaniel Welsh / Unsplash

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra leiðir nú sendinefnd til Singapúr sem samanstendur af hinum ýmsu aðilum úr stjórnsýslunni, háskóla- og nýsköpunarumhverfinu ásamt fulltrúum íslensks viðskiptalífs. Formleg dagskrá heimsóknarinnar hefst í dag.

Markmið heimsóknarinnar er að kynnast þeim leiðum sem Singapúr hefur farið undanfarin ár við að efla umhverfi nýsköpunar. Þessi vinna hefur leitt til eftirtektarverðs árangurs og eflt hugvitsdrifið hagkerfi landsins til muna en á síðasta áratug hefur landið skipað sér í fremstu röð á því sviði. Uppbygging þessi á rætur að rekja til öflugs háskólaumhverfis og samvinnu við alþjóðlega háskóla á heimsmælikvarða en singapúrsk yfirvöld mörkuðu langtímastefnu í að laða rannsóknatengdar hátæknigreinar, iðnað, rannsóknir og erlendar fjárfestingar til landsins.

Singapúr, þar sem íbúafjöldi er 5,7 milljónir og heildarlandssvæði aðeins á stærð við höfuðborgarsvæðið, hefur klifrað hratt upp ýmsa alþjóðlega lista um samkeppnishæfni og tæknivæðingu á nýliðnum árum og situr nú í áttunda sæti lista Alþjóðahugverkstofunnar (WIPO) um mest nýskapandi ríki heims, þriðja sæti í samkeppnishæfni skv. IMD Global Competitive Index og fyrsta sæti á lista IMD yfir tækniumhverfi. Þá eru tveir singapúrskir háskólar meðal 20 bestu háskóla í heiminum og singapúrska hagkerfið það 37. stærsta í heimi.

Stefna íslenskra stjórnvalda er að byggja upp hagkerfi þekkingar og hugvits og minnka vægi takmarkaðra auðlinda í íslensku hagkerfi. Framtíðarsýn háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins er að hugvitið verði stærsta útflutningsgrein íslensku þjóðarinnar og er öflugt vísinda- og nýsköpunarstarf forsenda fyrir vexti í nýtingu hugvits auk framsækinnar uppbyggingar á sviði tækni- og skapandi greina.

Í heimsókn sinni til Singapúr mun íslenska sendinefndin skoða helstu stofnanir og fyrirtæki þar í landi sem tengjast málefnasviðum háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins og kynnast þannig nýsköpunar-, tækni- og rannsóknarumhverfi Singapúr ásamt háskóla- og vísindasamfélagi. Þá eru singapúrsk yfirvöld áhugasöm um góðan árangur Íslands þegar kemur að jafnréttismálum og því ljóst að innblástur og fræðsla fer báðar leiðir á meðan á heimsókninni stendur.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum