Hoppa yfir valmynd
19. október 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 590/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 19. október 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 590/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23040014

 

Kæra [...]

á ákvörðun Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 5. apríl 2023 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Sómalíu (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. mars 2023, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 26. ágúst 2019. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann sama dag, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Danmörku. Hinn 4. september 2019 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Danmörku, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá dönskum yfirvöldum, dags. 16. september 2019, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað 3. október 2019 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Kærandi kærði ákvörðunina 22. október 2019 til kærunefndar útlendingamála. Með úrskurði kærunefndar nr. 47/2020, uppkveðnum 17. febrúar 2020, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar.

Hinn 4. ágúst 2020 var kæranda fylgt með Stoðdeild Ríkislögreglustjóra til Danmerkur. Kærandi kom aftur hingað til lands 15. júlí 2022 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun 22. september 2022 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 22. mars 2023, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála hinn 5. apríl 2023. Kærunefnd barst greinargerð kæranda 21. mars 2023. Frekari gögn bárust kærunefnd frá kæranda 30. maí 2023.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna ofsókna meirihlutaættbálks og hryðjuverkasamtakanna Al-Shabaab og þá eigi hann yfir höfði sér dauðarefsingu í heimaríki.

Niðurstaða Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var brottvísað frá landinu og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Kæranda var veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið. Fram kom að yfirgæfi kærandi landið sjálfviljugur innan frestsins yrði endurkomubannið fellt niður.

Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.          Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi í viðtali hjá Útlendingastofnun 22. september 2022 greint frá því að vera fæddur í Mógadisjú, búið þar til tveggja ára aldurs og flutt svo til [...] í neðra-Shabelleh þar sem hann hafi verið búsettur þar til hann hafi yfirgefið heimaríki sitt 5. október 2014. Kærandi kvað föður sinn og eldri bróður hafa verið myrta af meðlimum Hawiye ættbálksins árið 2007 og hafi þeir ráðist á kæranda á sama tíma sem hafi leitt til spítalavistar í átta mánuði. Þegar kærandi hafi komið aftur í sveit föður síns hafi Hawiye ættbálkurinn verið búinn að taka yfir bæinn og eignirnar. Eftir það hafi kærandi byrjað að vinna á veitingastað og hitt konuna sem hann hafi síðar kvænst. Kærandi og konan hafi gifst í leyni, ekki flutt saman en aðeins hist með reglulegu millibili á heimili kæranda. Þegar kona hans hafi orðið barnshafandi hafi kærandi beðið föður hennar um að fá að giftast henni formlega. Faðir konunnar hafi synjað beiðninni með morðhótunum. Kærandi kvað föður konunnar hafa unnið fyrir Al-Shabaab og þegar hann hafi verið í vinnuferðum hafi konan búið hjá kæranda. Stuttu síðar hafi AMISOM náð stjórn yfir svæðinu og Al-Shabaab aðeins verið á ferð í sumum hlutum borgarinnar. Eftir morðhótanir tengdaföður kæranda hafi kærandi flutt nær bækistöðvum AMISOM. Eftir hótanir bræðra konu kæranda hafi átök milli ættbálkanna byrjað. Eina nótt hafi fjölskylda eiginkonu hans ráðist á þau á heimili þeirra, barið kæranda og slasað hann og numið eiginkonu hans á brott. Kærandi kvaðst hafa þurft að gangast undir aðgerð í Danmörku vegna áverkanna. Þegar bróðir kæranda hafi frétt af atvikinu hafi hann lent í átökum við fjölskyldu eiginkonu hans og hafi það endað með því að hann hafi myrt bræður hennar og móður og sjálfur verið drepinn. Eftir það hafi stjórnvöld og Hawiye ættbálkurinn haft afskipti af málinu sem hafi leitt til niðurstöðu um dauðarefsingu kæranda. Kærandi kvaðst enga fjölskyldu eiga í Sómalíu og gæti hvorki leitað verndar hjá ættbálknum né aðstoðar hjá yfirvöldum þar sem ættbálkur hans nyti lítilla áhrifa.

Kærandi gerir ýmsar athugasemdir við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar í hinni kærðu ákvörðun. Meðal annars gerir kærandi athugasemdir við mat stofnunarinnar á hjúskaparstöðu hans og telur hann jafnframt ómálefnalegt að gera þá kröfu til hans að afla gagna um hjúskapinn í ljósi þess að um leynilegan hjúskap hafi verið að ræða. Þá gerir kærandi athugasemd við það að stór hluti frásagnar hans hafi verið metinn ótrúverðugur á þeim forsendum að hann hafi flutt og hafið störf í borginni [...] í neðra-Juba umdæmi. Um sé að ræða staðreyndavillu hjá Útlendingastofnun en kærandi hafi ekki flutt til þeirrar borgar heldur hafið störf á veitingastað að nafninu [...] sem sé staðsettur í Qoryooley. Þá gefi ekkert í efnismeðferðarviðtali við hann til kynna að atburðir hafi gerst í neðra-Juba umdæmi. Jafnframt gerir kærandi athugasemdir við að ósamræmi sé milli viðtals hans hjá Útlendingastofnun árið 2019, í svonefndri Dyflinnarmeðferð, og efnismeðferðarviðtals hans varðandi málsatvik um árásir sem hafi leitt til flótta hans frá heimaríki.

Þá mótmælir kærandi mati Útlendingastofnunar um að lýsing hans á dómskerfinu í Sómalíu standist ekki heimildir. Í hinni kærðu ákvörðun sé því  haldið fram að kærandi blandi saman venjubundnum rétti (Xeer), hlutverki öldunga og þeim refsingum sem ættbálkar dæma við refsingar hins almenna réttarkerfis. Kærandi bendir á að þó hann hafi í viðtali hjá Útlendingastofnun minnst á stjórnvöld þýði það ekki endilega að hann hafi átt við dómskerfið. Að mati kæranda á einstaka óskýrleiki í frásögn hans um uppbyggingu réttarkerfisins í Sómalíu ekki að vera metið honum í óhag.

Þá telur kærandi að umfjöllun í hinni kærðu ákvörðun um ættbálkaskipulag í Sómalíu vera bæði óljósa og í ósamræmi við rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar og laga um útlendinga, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafnar þeirri afstöðu Útlendingastofnunar að hjúskapur á milli einstaklinga úr Hawiye og Rahanweyn ættbálkanna eigi ekki að valda erjum samkvæmt landaupplýsingum. Kærandi telur það vera einföldun að ræða á flóknu ættbálkaskipulagi í Sómalíu að ætla að kærandi sem sé meðlimur undirættbálksins Garre geti ekki lent í útistöðum vegna hjúskapar við meðlim úr Hawiye ættbálknum.

Að lokum mótmælir kærandi því sem fram kemur í hinni kærðu ákvörðun að ólíklegt sé að hann sem sé á þrítugasta og öðru aldursári hafi verið stoppaður út á götu í borginni Afgooey af meðlimum Al-Shabaab í því skyni að þvinga hann til að starfa fyrir samtökin. Kærandi bendir á að hann hafi ekki verið sá eini sem hafi verið stöðvaður. Al-Shabaab liðar hafi séð að hann hafi verið á flótta þar sem margir ungir einstaklingar hafi verið samankomnir í einni bifreið. Að mati kæranda skipti aldursár hans ekki grundvallarmáli heldur einnig aldur þeirra sem hafi verið með honum í bíl í umrætt sinn.

Aðalkröfu sína um alþjóðlega vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga byggir kærandi á hans bíði dauðarefsing í heimaríki vegna atvika sem varði leynilegan hjúskap hans við konu þar í landi úr Hawiye ættbálknum, skotárásar bróður hans á fjölskyldumeðlimi konunnar og flótta frá Al-Shabaab. Kærandi byggir á því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki á grundvelli trúarbragða, sbr. b-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga vegna hins leynilega hjúskapar. Kærandi telur að ljóst sé af málsatvikum hafi kærandi með því að ganga í hjúskap við hana gengið gegn trúarskoðunum og öðrum lífsskoðunum þar sem ekki hafi legið fyrir samþykki ættbálksins. Kærandi vísar til þess að upplýsingar um Sómalíu beri með sér að staða karlmanna sem giftist konum úr æðri ættbálki sé sérstaklega erfið. Vegna hjúskaparins hafi kærandi einnig orðið fyrir ofsóknum og búi við ástæðuríkan ótta við að sæta ofsóknum sem aðili að þjóðfélagshópi, sbr. d-liður 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Hafi hinn ósamþykkti hjúskapur leitt til skotárásar á fjölskyldumeðlimi konu hans. Kærandi sé því útsettari fyrir frekari glæpum sem kynnu að vera útkljáðir milli ættbálka og þá eigi hann yfir höfði sér dauðrefsingu vegna atburðanna sem telja verði sem óhófleg refsing sem feli í sér mismunun á ómálefnalegum grundvelli sbr. c-liður 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Þá sé ein stærsta ástæða fyrir ofsóknum í hans garð uppruni kæranda sem meðlimur Garre ættbálksins. Um sé að ræða þjóðerni eða þjóðfélagshóp í skilningi c- og d-liðar 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga enda hafi Garre ættbálkurinn aðgreinda menningarlega sjálfsmynd, sameiginlegt tungumál og hafi verið skilgreindur út frá nánari ættartengslum við hóp fólks á tilteknu svæði. Að mati kæranda leiði þeir atburðir sem hafi átt sér stað eftir brottvísun hans frá Danmörku til Sómalíu einnig til grundvallar á ástæðuríkum ótta hans við ofsóknir í heimaríki. Kærandi hafi lýst því með nákvæmum hætti hvernig hann hafi komist undan Al-Shabaab og þá komi frásögn hans á atburðarás heim og saman við landaupplýsingar, svo sem um sprengjur hersveita á El-Adde. Að lokum bendir kærandi á að sú krafa að leggja fram hlutlæg gögn sem sýni fram á að hann búi við ástæðuríkan ótta á ofsóknum í Sómalíu af hálfu Al-Shabaab fái ekki staðist vægari sönnunarkröfur í flóttamannarétti þegar nákvæm frásögn komi heim og saman við landaupplýsingar.

Varakröfu sína um viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga byggir kærandi á því að vegna þess að hann eigi á hættu ómannúðlega og vanvirðandi meðferð í heimaríki. Kærandi vísar til öryggisreglu stjórnsýsluréttar. Kærandi vísar til þess að rannsaka ber mál eins og unnt sé í samvinnu við umsækjanda um alþjóðlega vernd og túlka vafa umsækjanda í hag sé frásögn hans trúverðug og eigi hún stoð í hlutlægum gögnum. Kærandi telur að enginn vafi leiki á trúverðugleika frásagnar hans í ljósi hlutlægra gagna um ástandið í Sómalíu.

Til þrautavara gerir kærandi kröfu um dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggir framangreinda kröfu á því að hann hafi ríka þörf á vernd með tilliti til almennra aðstæðna, erfiðra félagslegra aðstæðna og vegna heilbrigðisaðstæðna hans.

V.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem séu nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann ber fyrir sig. Í athugasemdum með 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun sé, þeim mun strangari kröfur verði almennt að gera til stjórnvalds um að það gangi úr skugga um að upplýsingar, sem búi að baki ákvörðun, séu sannar og réttar. Þá kemur fram að rannsóknarreglan tengist mjög náið andmælarétti og oft verði mál ekki nægjanlega upplýst nema aðila hafi verið gefinn kostur á að kynna sér gögn máls, svo og að koma að frekari upplýsingum um málsatvik.

Í greinargerð sinni gerði kærandi athugasemd við það að Útlendingastofnun hafi lagt til grundvallar við úrlausn málsins að hann hafi flust til [...] borgar í neðra-Juba umdæmi og hafi það haft áhrif á trúverðugleikamat stofnunarinnar í máli hans honum í óhag. Kærunefnd hefur farið yfir gögn málsins og ekki er að sjá af endurritum viðtala hans hjá Útlendingastofnun að hann hafi nokkru sinni minnst á það að hafa flust frá [...] borg til [...] í neðra-Juba umdæmi. Hins vegar kemur fram í málsatvikakafla í greinargerð sem lögð var fram til Útlendingastofnunar, dags. 13. október 2022, að kærandi hafi eftir árás á föður hans og bróður árið 2007 flutt og byrjað að vinna á veitingastaðnum [...] í [...] hverfinu. Má af hinni kærðu ákvörðun lesa að stofnunin hafi því litið svo á að atburðarás er tengist konu hans og fjölskyldu hennar og deilna milli ættbálka þeirra hafi átt sér stað í [...], sem sé samkvæmt útreikningum stofnunarinnar í 344 km akstursfjarlægð frá [...]. Útlendingastofnun leggur það til grundvallar þrátt fyrir að kærandi hafi verið nokkuð staðfastur í framburði sínum að hafa búið í [...] frá unga aldri þangað til hann hafi yfirgefið Sómalíu í október 2014.

Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. laga um útlendinga skal viðtal við umsækjanda um alþjóðlega vernd hagað þannig að sem mestar líkur séu á að aðstæður sem geta haft þýðingu fyrir umsókn umsækjanda upplýsist.

Í viðtölunum var kærandi ekki spurður út í veigamikil atriði í frásögn hans er vörðuðu ástæðu flótta frá heimaríki, þ.m.t. tímasetningar atburða, samband hans við umrædda konu, hversu lengi það hafi staðið, giftingu þeirra og eðli hennar, aðstæður kæranda almennt í [...] en hann kvaðst hafa verið á eigin vegum frá 17 ára aldri, stöðu tengdaföður kæranda sem kærandi kvað hafa unnið með Al-Shabaab samtökunum eða hvar veitingastaður sem kærandi kvaðst hafa unnið á í um sjö ár væri staðsettur. Mikilvægt er að allar þær upplýsingar sem máli skipta um ástæður flótta frá heimaríki liggi fyrir við ákvörðunartöku og að leitast sé við með nákvæmum spurningum að fá heildstæða frásögn frá umsækjanda um alþjóðlega vernd um atburði þá sem hafi leitt til flótta. Með tilliti til heildarmats í máli kæranda er ljóst að ítarlegra viðtal þar sem greinagóðar upplýsingar um atburðarás og ástæðu flótta hans frá heimaríki hefðu komið fram hefði mögulega getað haft áhrif á niðurstöðu í máli hans. Er það mat kærunefndar að með þessum annmörkum á málsmeðferð kærenda hjá Útlendingastofnun hafi stofnunin ekki fullnægt skyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga og 23. gr. laga um útlendinga.

Hinn 8. september 2022 bárust kærunefnd þær upplýsingar frá Útlendingastofnun að beiðni um málsmeðferðargögn hafi verið send á dönsk stjórnvöld við vinnslu málsins hjá stofnuninni. Gögn frá dönskum stjórnvöldum hafi hins vegar ekki borist fyrr en eftir ákvarðanatöku hjá Útlendingastofnun í máli kæranda. Kærunefnd hefur yfirfarið gögn mála kæranda hjá dönskum stjórnvöldum og af lestri þeirra má sjá að frásögn kæranda um ástæður flótta frá heimaríki árið 2014 er í grófum dráttum sambærileg þeirri sem hann hefur gefið hjá íslenskum stjórnvöldum. Er það mat kærunefndar að mikilvægt sé að Útlendingastofnun hafi gögnin til hliðsjónar við endurskoðun sína á máli kæranda.

Meginmarkmið með stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Eins og að framan greinir telur kærunefnd að annmarkar hafi verið á rannsókn Útlendingastofnunar í máli kæranda og að ekki hafi farið fram viðhlítandi mat á máli hans. Kærunefnd telur þá annmarka verulega og að þeir kunni að hafa haft áhrif á niðurstöðu máls hans. Kærunefnd telur jafnframt að ekki sé unnt að bæta úr þeim annmörkum á kærustigi og því rétt að mál kæranda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.

Með vísan til þess sem að framan er rakið um málsmeðferð Útlendingastofnunar er ljóst að mál kæranda var ekki nægilega upplýst meðal annars hvað varðar atburðarás í heimaríki árið 2014 og fyrr ef því væri að skipta, tímasetningar atburða og ítarlegri upplýsingar um þá sem að máli komu. Málsmeðferð Útlendingastofnunar var ekki í samræmi við 10. gr. og 22. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Framangreindir annmarkar á ákvörðun Útlendingastofnunar eru verulegir og kunna að hafa áhrif á niðurstöðu í máli kæranda. Ekki er unnt að bæta úr þeim á kærustigi og því nauðsynlegt að mál kæranda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun. Er hin kærða ákvörðun af þessum sökum felld úr gildi, svo sem í úrskurðarorði greinir.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er hin kærðu ákvörðun felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar. Í ljósi þessarar niðurstöðu er ekki ástæða til umfjöllunar um aðra þætti í hinni kærðu ákvörðun.

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka málið til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

 

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta