ISTP 2025 – lokaskýrsla
Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur birt lokaskýrslu um alþjóðlegan leiðtogafund um málefni kennara sem haldinn var í Reykjavík í vor. Á ISTP 2025 ræddu menntamálaráðherrar og kennaraforysta 22 ríkja menntaumbætur og lögðu fram skuldbindingar sínar fram að næsta fundi. Hann verður haldinn í Eistlandi á næsta ári.
ISTP stendur fyrir International Summit on the Teaching Profession. Viðburðurinn er árlegur. Umræðuefnið er helgað kennarastarfinu, áskorunum til framtíðar, starfsumhverfi og starfsþróun kennara og hvernig best megi innleiða menntaumbætur. Þar deila leiðandi þjóðir á sviði menntamála þekkingu sinni og reynslu um hvernig stuðla megi að gæðamenntun með öfluga kennara við stjórnvölinn.
Svipmyndir frá ISTP 2025 í Reykjavík
Fundurinn í Reykjavík markaði þann 15. í röðinni. Áherslan var á leikskólastigið og mikilvægi þess í að jafna tækifæri nemenda með ólíka félags- og fjárhagsstöðu til náms og stuðla að bættum námsárangri. Stuðningur við kennara og mótun gagnrýnnar hugsunar nemenda gagnvart samfélaginu ásamt getu til að leggja eigið mat á upplýsingar bar hátt á góma. Þá var lýðræði í menntun og virk þátttaka nemenda í að móta eigin framtíð til umræðu, ásamt ábyrgri notkun tækninýjunga o.fl..
Mennta- og barnamálaráðuneytið skipulagði fundinn í samstarfi við Kennarasamband Íslands, Alþjóðasamtök kennara (Education International) og Efnahags- og framfarastofnunina (OECD).
Í lokaskýrslunni er farið yfir umræðurnar og helstu niðurstöður. Skuldbindingar þátttökuríkja fram að næsta fundi eru tíundaðar ásamt framvindu menntaumbóta út frá skuldbindingum frá árinu áður á ISTP 2024 í Singapore. Tekin voru viðtöl við nemendur í leik-, grunn- og framhaldsskólum landsins sem finna má í skýrslunni. Rödd þeirra og sýn á skóla framtíðarinnar var innlegg í allar umræðulotur leiðtogafundarins.