Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2013 Innviðaráðuneytið

Teymi fjögur: 3. fundur umhlutverk stjórnvalda við veitingu þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði

  • Fundarheiti og nr. fundar: Samvinnuhópur um framtíðarskipan húsnæðismála: 3. fundur teymis 4.  Hlutverk stjórnvalda við veitingu þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði.
  • Staður og stund: Velferðarráðuneytið, 22. nóvember 2013, kl. 10-12.
  • Málsnúmer: VEL13060104
  • Mætt: Bolli Þór Bollason (fundarstjóri, verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála), Daníel Hafsteinsson (Búmenn), Halldór Árnason (Samtök atvinnulífsins), Jónína S. Lárusdóttir (Samtök fjármálafyrirtækja), Sigurbjörn Skarphéðinsson (Félag fasteignasala), Soffía Guðmundsdóttir (Íbúðalánasjóður), Tryggvi Þórhallsson (Samband íslenskra sveitarfélaga),  Þórný K. Sigmundsdóttir (Samtök leigjenda) ásamt Lísu Margréti Sigurðardóttur (velferðarráðuneyti) og Sigrúnu Jönu Finnbogadóttur (velferðarráðuneyti) sem rituðu fundargerð.
  • Forföll: Elín Hirst (þingflokkur Sjálfstæðisflokksins), Erling G. Kristjánsson (Samtök leigjenda á Íslandi), Gestur Guðjónsson (þingflokkur Bjartrar framtíðar), Guðbjartur Hannesson (þingflokkur Samfylkingarinnar), Halldór Auðar Svansson (þingflokkur Pírata), Ólöf Birna Björnsdóttir (þingflokkur Framsóknarflokksins) og Vilhjálmur Bjarnason (Hagsmunasamtök heimilanna) voru fjarverandi.

Fundarritarar: Sigrún Jana Finnbogadóttir og Lísa Margrét Sigurðardóttir.

D A G S K R Á

1. Kynning á ríkisaðstoðarreglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins) með tilliti til starfsemi Íbúðalánasjóðs.

Bjarnveig Eiríksdóttir hdl. LL.M., sérfræðingur í Evrópurétti, kynnti ríkisaðstoðarreglur EES-samningsins með tilliti til starfsemi Íbúðalánasjóðs. Unnt er að nálgast kynninguna á eftirfarandi slóð: http://www.velferdarraduneyti.is/media/velferdarraduneyti-media/media/framtidarskipan-husnaedismala/Kynning-Bjarnveigar-Eiriksdottur-a-rikisadstodarreglum-EES-samningsins-m.t.t.-ILS.pdf

Í kynningunni er meðal annars gerð grein fyrir stöðu mála Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna rannsóknar á ríkisaðstoð til Íbúðalánasjóðs. Um er að ræða tvo mál, annars vegar um ríkisaðstoð til sjóðsins í formi bóta fyrir almannaþjónustu og hins vegar neyðaraðstoð til sjóðsins (eiginfjárframlag). Um stöðu þessara mála kom meðal annars eftirfarandi fram:

  • Skilgreina þarf félagslegt hlutverk Íbúðalánasjóðs með skýrari hætti, þ.e. hlutverk sjóðsins við „veitingu þjónustu í almannaþágu“ (SGEI-hlutverk). Ríkisaðstoð til slíks aðila er talin samræmanleg ríkisaðstoðarreglum EES-samningsins að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um ríkisaðstoð í formi bóta fyrir almannaþjónustu.
  • Meta þarf hvort nauðsynlegt sé að endurskoða viðmið um verðmæti fasteigna sem lánað er til og/eða hvort setja þurfi viðbótarskilyrði sem takmarka lánveitingar sjóðsins enn frekar.
  • Setja þarf reglugerð um lánveitingar Íbúðalánasjóðs til leigufélaga.
  • Ákvarða þarf með hvaða hætti stjórnvöld skuli veita þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði. Meta þarf hvort veita þurfi Íbúðalánasjóði frekari eiginfjárframlög.
    Ef þörf er á frekari stuðningi þarf að tilkynna um slíkt til Eftirlitsstofnunar EFTA.
  • Setja þarf mál Eftirlitsstofnunar EFTA vegna ríkisaðstoðar til Íbúðalánasjóðs í formi bóta fyrir almannaþjónustu í nýtt ferli til samræmis við nýjar leiðbeiningarreglur stofnunarinnar um bætur fyrir almannaþjónustu. Auglýsingu þess efnis þarf að birta í EES-viðbæti til samræmis við reglur Eftirlitsstofnunar EFTA og kalla þarf eftir athugasemdum varðandi starfsemi sjóðsins (public consultation).
  • Þegar málið vegna bóta til Íbúðalánasjóðs fyrir almannaþjónustu er komið í nýtt ferli til samræmis við nýju reglurnar og búið er að gera tímaáætlun um framhald málsins er unnt að sameina málið um ríkisaðstoð til Íbúðalánasjóðs í formi bóta fyrir almannaþjónustu og málið um neyðaraðstoð til sjóðsins (eiginfjárframlag).

Í framhaldi af kynningunni voru fulltrúar í teyminu hvattir til að kynna sér dóm EFTA-dómstólsins í máli E-9/04 sem unnt er að nálgast á eftirfarandi slóð: http://www.eftacourt.int/uploads/tx_nvcases/9_04_Judgment_EN.pdf

Til nánari kynningar var jafnframt bent á nýjar leiðbeinandi reglur Eftirlitsstofnunar EFTA um ríkisaðstoð í formi bóta fyrir almannaþjónustu þar sem gerð er grein fyrir því með hvaða hætti stofnunin túlkar og beitir ríkisaðstoðarreglum EES-samningsins, einkum við mat á því hvort ríkisaðstoð verði talin samræmast ríkisaðstoðarreglum samningsins:

Kafli IV. um bætur fyrir þjónustu í almannaþágu (e. Compensation granted for the provision of services of general economic interest (SGEI)):

http://www.eftasurv.int/media/velferdarraduneyti-media/media/state-aid-guidelines/Part-VI---Compensation-granted-for-the-provision-of-services-of-general-economic-interest.pdf

Kafli VI. um rammaákvæði um ríkisaðstoð í formi bóta fyrir almannaþjónustu (e. Framework for state aid in the form of public service compensation):

http://www.eftasurv.int/media/velferdarraduneyti-media/media/state-aid-guidelines/Part-VI---Framework-for-state-aid-in-the-form-of-public-service-compensation.pdf

2. Umræður um kynningu á ríkisaðstoðarreglum EES-samningsins með tilliti til starfsemi Íbúðalánasjóðs.

Í umræðum um kynninguna kom meðal annars fram sú hugmynd að afnema ríkisaðstoð til sjóðsins þannig að ríkisaðstoðarreglur EES-samningsins, þar á meðal þær takmarkanir sem leiða af reglum um þjónustu í almannaþágu, taki ekki lengur til sjóðsins.

Þá kom fram það sjónarmið að þjónusta Íbúðalánasjóðs sé óþörf á húsnæðislánamarkaði og að ekki sé til staðar markaðsbrestur á húsnæðislánamarkaði sem réttlæti þær lánveitingar sem sjóðurinn býður í dag. Einnig kom fram sú skoðun að hið félagslega hlutverk sjóðsins sé túlkað með of víðtækum hætti og að lög nr. 84/2012, um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, feli ekki í sér fullnægjandi takmarkanir til að tryggja að starfsemi sjóðsins samræmist ríkisaðstoðarreglum EES-samningsins.

Á móti komu fram þau sjónarmið að Íbúðalánasjóður verði að vera til staðar fyrir þá sem fjármálafyrirtækin lána ekki til, staðan sé ekki svo einföld að Íbúðalánasjóður geti alfarið horfið af markaði. Þannig sé ein leið að starfsemi Íbúðalánasjóðs dragist saman og sjóðurinn sinni eingöngu félagslegu hlutverki ásamt því að vera til taks ef þörf er á vegna markaðsbrests, til að mynda á landsbyggðinni. Fjármálafyrirtækin myndu þannig vera á „high-end“ hluta húsnæðislánamarkaðarins en Íbúðalánasjóður á „low-end“ hluta hans.

Þá var rætt um afleiðingar þess ef brotið er gegn ríkisaðstoðarreglum EES-samningsins. Fram kom að fari ríki ekki að tilmælum Eftirlitsstofnunar EFTA um viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að ríkisaðstoð samræmist ríkisaðstoðarreglum EES-samningsins geti málið endað fyrir EFTA-dómstólnum. Vísast að öðru leyti til umfjöllunar um endurheimt ólögmætrar ríkisaðstoðar í kynningu Bjarnveigar Eiríksdóttur.

Loks var spurt um hvort teymisvinnan sjálf væri hluti af „public consultation“ ferlinu sem kveðið er á um í leiðbeinandi reglum Eftirlitsstofunar EFTA um rammaákvæði um ríkisaðstoð í formi bóta fyrir almannaþjónustu. Fram kom að svo væri ekki heldur væri þörf á setja af stað „public consulation“ ferli á síðari stigum í tengslum við málið um rannsókn á ríkisaðstoð til Íbúðalánasjóðs.

3. Greiningarvinna.

Fundarstjóri gerði grein fyrir því að fjárveiting hafi fengist til að fá greiningu óháðra ráðgjafa á hinum svokölluðu „sviðsmyndum“ um framtíðarskipan húsnæðismála. Gert er ráð fyrir að ráðgjafafyrirtækin hefji greiningarvinnu sína innan skamms og að þau muni hafa um fjórar vikur til að ljúka þeirri vinnu. Eins og fram kom á fyrsta fundi teymisins var í upphafi gert ráð fyrir að teymið myndi skila niðurstöðum sínum til samvinnuhópsins fyrir lok nóvember. Fundarstjóri upplýsti um að í ljósi þess að dregist hafi að fá fjárveitingu vegna greiningarvinnunnar væri nú verið að endurskoða tímafresti enda ljóst að bæði teymi 4 og teymi 1 hefðu gagn af því að hafa niðurstöður ráðgjafanna til hliðsjónar við mótun tillagna sinna.

4. Næsti fundur.

Ákveðið var að fjórði fundur teymisins skyldi haldinn þann 26. nóvember frá 14-16.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum