Hoppa yfir valmynd
18. nóvember 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 587/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 18. nóvember 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 587/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21100037

 

Beiðni […] um endurupptöku

I.       Málsatvik

Þann 21. apríl 2021 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. janúar 2021 um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Palestínu (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda hann til Grikklands. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 26. apríl 2021.

Þann 13. október 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku ásamt fylgigögnum. Dagana 29. október, 1. nóvember og 2. nóvember 2021 bárust upplýsingar frá stoðdeild ríkislögreglustjóra og Útlendingastofnun um málsmeðferð í máli kæranda.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá óskar kærandi eftir því að réttaráhrifum ákvörðunar Útlendingastofnunar verði frestað á meðan umrædd beiðni um endurupptöku er til meðferðar hjá kærunefnd með vísan til 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

II.        Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni um endurupptöku á því að ákvörðun í máli hans hafi byggst á atvikum sem hafi breyst verulega frá því að hún var tekin. Í því sambandi vísar kærandi til þess að hann hafi gengið í hjónaband með íslenskum ríkisborgara þann 24. júní 2021. Enn fremur eigi kærandi og maki hans von á barni. Vegna framangreinds hafi atvik í máli kæranda breyst verulega frá því að niðurstaða lá fyrir í máli hans með úrskurði kærunefndar þann 21. apríl 2021. Með vísan til meginreglna íslenskra laga um einingu fjölskyldunnar og bestu hagsmuni barnsins beri kærunefnd að fallast á endurupptöku í máli kæranda. Þá sé stjórnvöldum jafnframt skylt að taka umsókn hans til efnismeðferðar hér á landi með vísan til sérstakra tengsla kæranda við landið, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, en kærandi eigi nú fjölskyldu hér á landi en ekki í Grikklandi. Til stuðnings kröfu sinni lagði kærandi fram hjúskaparvottorð, sónarmynd og heilbrigðisgögn úr ómskoðun.

Kærandi byggir beiðni um endurupptöku að auki á því að þar sem 12 mánuðir séu nú liðnir frá umsókn hans og tafir á meðferð málsins séu ekki á hans ábyrgð skuli taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Með vísan til framangreinds er gerð sú krafa að mál hans verði endurupptekið og Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar.

III.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hafi samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum sé þó heimilt, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar séu í umræddum stafliðum.

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar séu ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skuli taka hana til efnismeðferðar.

Af orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Þá hefur í úrskurðum kærunefndar verið lagt til grundvallar að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi fer úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hefur verið tekin.

Kærunefnd telur að túlka beri 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þótt 12 mánaða fresturinn sé liðinn verði umsókn ekki tekin til efnismeðferðar af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði fyrst og fremst raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber sjálfur ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst sé að hægt hefði verið að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 27. október 2020 og rann því umræddur 12 mánaða frestur út á miðnætti þann 27. október 2021. Kemur því til skoðunar hvort tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda séu á ábyrgð hans sjálfs, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þann 27. október 2021 óskaði kærunefnd útlendingamála eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun og stoðdeild ríkislögreglustjóra um hvort tafir hefðu orðið á meðferð umsókna kæranda og ef svo væri, hvort þær væru á ábyrgð kæranda, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í upplýsingum sem bárust frá stoðdeild ríkislögreglustjóra, dags. 29. október 2021, kemur fram að verkbeiðni í máli kæranda hafi borist stoðdeild þann 4. maí 2021. Þann 12. júlí 2021 hafi starfsmaður stoðdeildar hringt í kæranda og útskýrt fyrir honum stöðuna á Íslandi og að hann þyrfti að fara til Grikklands. Kærandi neitaði annars vegar að fara og hins vegar að undirgangast Covid-19 sýnatöku. Þann 29. september 2021 var kærandi boðaður í viðtal hjá stoðdeild. Kærandi mætti í umrætt viðtal þann 30. september 2021 þar sem honum var birt „Tilkynning um framkvæmd ákvörðunar um frávísun frá Íslandi til Grikklands“. Tilkynningin hafi verið lesin upp fyrir kæranda en þegar lestur hafi verið hálfnaður hafi kærandi framvísað giftingarvottorði og greint frá því að hann hafi sótt um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar. Í kjölfarið hafi viðtalið verið stöðvað. Þann 14. október hafi kærandi verið boðaður í viðtal hjá stoðdeild daginn eftir. Þann 15. október 2021 hafi kærandi haft samband við stoðdeild og kvaðst ekki geta mætt í boðað viðtal vegna þreytu. Óskaði hann eftir því að viðtalið yrði fært til 18. október 2021 sem var samþykkt. Kærandi mætti til viðtals hjá stoðdeild umsaminn dag og var „Tilkynning um framkvæmd ákvörðunar um frávísun frá Íslandi til Grikklands“ aftur birt fyrir honum. Í umræddri tilkynningu kemur m.a. fram að frestur kæranda til sjálfviljugrar heimfarar hafi runnið út og að stoðdeild ríkislögreglustjóra beri ábyrgð á flutningi hans til Grikklands. Þá var kærandi beðinn um að svara því hvort hann hygðist ætla sýna samstarfsvilja í tengslum við flutning hans úr landi auk þess sem hann hafi fengið leiðbeiningar um tilhögun fyrirhugaðs flutnings og næstu skref í tengslum við hann. Kærandi svaraði því með neikvæðum hætti með því að merkja við viðeigandi svarreit í tilkynningunni. Í kjölfarið var kærandi spurður hvort hann myndi undirgangast Covid-19 sýnatöku til að liðka fyrir framkvæmd fyrirhugaðs flutnings. Kærandi kvaðst ekki ætla að undirgangast Covid-19 sýnatöku í tengslum við flutning hans og merkti við viðeigandi svarreit á tilkynningunni því til skjalfestingar. Kærandi undirritaði tilkynninguna og staðfesti að hann hafi skilið leiðbeiningar og fyrirmæli lögreglu.

Í upplýsingum sem kærunefnd bárust frá Útlendingastofnun, dags. 1. nóvember 2021, varðandi fyrirspurn um tafir á málsmeðferð og flutning kæranda, kemur fram að Útlendingastofnun líti ekki svo á að kærandi hafi tafið mál sitt á meðan málið var til meðferðar hjá stofnuninni á lægra stjórnsýslustigi.

Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 2. nóvember 2021, var kærandi upplýstur um afstöðu Útlendingastofnunar og stoðdeildar ríkislögreglustjóra og honum gefinn frestur til að koma á framfæri andmælum í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga. Andmæli kæranda bárust kærunefnd þann 5. nóvember 2021. Í andmælum kæranda kom m.a. fram að framkvæmd stoðdeildar sem hefur verið lýst hér að framan hafi verið ómarkviss. Í því sambandi liggi m.a. ekki fyrir hvort bókað hafi verið flug fyrir hann til Grikklands eða nákvæmlega hvaða dag stæði til að framkvæma flutning. Vísar kærandi til úrskurðar kærunefndar nr. 401/2021 í máli nr. KNU21070020 þar sem tafir á afgreiðslu máls hafi ekki verið taldar vera á ábyrgð kæranda. Að mati kæranda séu umrædd mál í öllum atriðum sambærileg. Þá kveðst kærandi ósammála úrskurði kærunefndar nr. 484/2021 í máli nr. KNU21090010, en fellst þó á að umrætt mál sé frábrugðið fyrirliggjandi máli þar sem að í því máli hafi kærandi samþykkt að ferðast til Grikklands og bókaður hafi verið farmiði fyrir kæranda til Grikklands á tilteknum degi auk þess sem kærandi hafi verið sérstaklega boðaður í Covid-19 sýnatöku. Kærandi hafi síðar afboðað komu sína í umrædda sýnatöku. Að mati kæranda í fyrirliggjandi máli verður ómarkvissum samskiptum milli hans og stoðdeildar ekki jafnað við framangreind samskipti. Sé því ljóst af gögnum málsins og með vísan til framangreindra úrskurða kærunefndar útlendingamála að kærandi hafi ekki tafið mál sitt og því beri að taka málið til efnismeðferðar.

Líkt og að framan greinir sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi þann 27. október 2020. Þegar stoðdeild ríkislögreglustjóra hitti kæranda þann 18. október 2021 var því fullnægjandi tími til þess að framkvæma flutning á kæranda til viðtökuríkis áður en 12 mánaða fresturinn sem áskilinn er í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga rann út. Það liggur fyrir að stoðdeild boðaði kæranda á fund til þess að kanna afstöðu hans í tengslum við Covid-19 sýnatöku sem er skilyrði fyrir viðtöku grískra stjórnvalda á kæranda. Á umræddum fundi lýsti kærandi því yfir að hann myndi ekki undirgangast Covid-19 sýnatöku. Að mati kærunefndar er því ljóst að það sem komið hafi í veg fyrir framkvæmd á flutningi kæranda til viðtökuríkis innan tilskilins frests, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, hafi verið skortur á samstarfsvilja hans og skýr afstaða um að undirgangast alls ekki Covid-19 sýnatöku sem hafi verið skilyrði fyrir viðtöku grískra stjórnvalda á kæranda. Þannig kom kærandi í veg fyrir flutning hans úr landi.

Vegna tilvísunar kæranda til úrskurðar kærunefndar nr. 401/2021 í máli nr. KNU21070020 frá 26. ágúst 2021 tekur kærunefnd fram að málsatvik eru ósambærileg þar sem framkvæmd stoðdeildar hafi verið metin ómarkviss. Að mati kærunefndar er sú aðstaða ekki uppi í þessu máli.

Með hliðsjón af framangreindu telur kærunefnd að kærandi hafi tafið afgreiðslu umsóknar hans og það hafi verið á hans ábyrgð, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Af framangreindu leiðir að skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er ekki uppfyllt.

Kemur því til skoðunar hvort kærandi eigi rétt á endurupptöku á máli sínu á grundvelli sérstakra tengsla, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, en að mati kæranda leiði tengsl hans við landið til þess að ákvörðun í máli hans hafi byggst á atvikum sem hafi breyst verulega frá því að hún var tekin, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi byggir framangreinda kröfu sína á því að eftir komu hans hingað til lands hafi hann gengið í hjúskap með íslenskum ríkisborgara og þau eigi von á barni saman.

Lög um útlendinga veita ekki skýrar leiðbeiningar um hvernig hugtakið sérstök tengsl skv. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga skuli túlkað í framkvæmd. Við túlkun ákvæðisins hefur kærunefnd litið til athugasemda sem fylgdu ákvæðinu í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga og lagt til grundvallar að ákvæðinu sé ætlað að taka m.a. til þeirra tilvika þegar umsækjendur eiga ættingja hér á landi en ekki í því ríki sem þeir yrðu sendir aftur til. Þetta geti einnig átt við í öðrum tilfellum þar sem tengsl eru ríkari en við viðtökuríki, svo sem vegna fyrri dvalar. Þá gera athugasemdir í frumvarpi og ákvæði 32. gr. b reglugerðar um útlendinga ráð fyrir því að fyrri dvöl umsækjenda hér á landi geti leitt til þess að um sérstök tengsl séu að ræða. Í athugasemdunum kemur jafnframt fram að með ákvæðinu sé stjórnvöldum eftirlátið mat og hafi heimild til að taka mál til efnismeðferðar umfram það sem leiðir af sérstökum reglum, svo sem reglum Dyflinnarreglugerðarinnar. Af því má m.a. leiða að þau tengsl sem ákvæðið vísar til geta verið fjarlægari en þau nánu fjölskyldutengsl sem Dyflinnarreglugerðin mælir fyrir um, sbr. m.a. g-lið 2. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Kærunefnd vísar, er þetta atriði varðar, til dóms Hæstaréttar í máli nr. 164/2015 frá 8. október 2015, þar sem dómur Héraðsdóms Reykjavíkur var staðfestur með skírskotun til forsendna hans. Í dómi héraðsdóms var fjallað um hugtakið sérstök tengsl samkvæmt þágildandi lögum um útlendinga, nr. 96/2002, en ákvæði þeirra laga er efnislega samhljóða 2. mgr. 36. gr. núgildandi laga um útlendinga. Í dóminum kom fram að tengsl sem umsækjandi hafði myndað við konu hér á landi eftir að hann kom til landsins voru ekki talin hafa þá þýðingu að hann teldist hafa sérstök tengsl við landið. Af dóminum verði ekki annað ráðið en að tengsl sem myndast eftir að umsækjandi sækir um alþjóðlega vernd hér á landi, hvers eðlis sem þau tengsl séu, hafi afar takmarkað vægi við mat á því hvort umsækjandi teljist hafa sérstök tengsl við landið í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ljóst er að kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á grundvelli sérstakra tengsla sem eru tilkomin eftir komu hans hingað til lands en ekki tengslum sem hann hafði við landið þegar hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd. Tengdist koma kæranda hingað til lands þar með einvörðungu umsókn hans um alþjóðlega vernd en ekki því að hann hafi átt hér fjölskyldu eða ættingja. Af þeim sökum sé ekki tilefni til að víkja frá fordæmi Hæstaréttar samkvæmt áðurnefndum dómi. Eins og málum er hér háttað er það mat kærunefndar að tengslum kæranda við landið verði ekki jafnað til sérstakra tengsla í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Af heildarmati á aðstæðum kæranda og fyrirliggjandi gögnum málsins er það því niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sérstök tengsl við landið í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi framangreinds er því ekki fallist á að atvik hafi breyst verulega í máli kæranda á þann hátt að hann eigi rétt á endurupptöku á máli hans, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Endurupptöku á máli hans er þar með hafnað.

Í ljósi framangreinds er ekki tilefni til þess að fjalla um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa á grundvelli 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga á meðan beiðni hans um endurupptöku væri til meðferðar hjá kærunefnd.

Kæranda er leiðbeint um að sækja um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar eða um endurupptöku á umsókn hans um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. VIII. kafla laga um útlendinga. Með þessum leiðbeiningum hefur kærunefnd þó ekki tekið afstöðu til þess hvort kærandi uppfylli skilyrði til útgáfu dvalarleyfis, berist hún stjórnvöldum.

 

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kæranda er hafnað.

The appellants’ request is denied.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                Sandra Hlíf Ocares

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum