Hoppa yfir valmynd
23. maí 2014 Félagsmálaráðuneytið

Vel heppnuð ráðstefna um samnorrænan vinnumarkað

Fánar Norðurlandanna
Fánar Norðurlandanna

Tveggja daga ráðstefnu um samnorrænan vinnumarkað þar sem fagnað var 60 ára samstarfi Norðurlandaþjóðanna á þessu sviði lauk í gær. Fundarmenn voru sammála um mikilvægi samstarfsins og gagnsemi þess. Nauðsynlegt sé að viðhalda því og vinna áfram að því að auðvelda fólki frjálsa för milli Norðurlandanna.

Ráðstefnan hófst í Hörpu með ávarpi herra Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. Dan Hjalmarsson, framkvæmdastjóri sænsku þjóðhagsstofnunarinnar, fjallaði að því loknu um mynstur fólksflutninga milli Norðurlandanna í ljósi sögunnar. Í upphafi var Svíþjóð helsti áfangastaður Norðurlandabúa í atvinnuleit en nú sækja flestir Norðurlandabúar til Noregs og næstflestir til Danmerkur. Undanfarin ár hafa rúmlega 50.000 Norðurlandabúar flust til annars norræns lands á ári hverju. Margir sækja einnig vinnu í öðru landi en þeir búa þar sem aðstæður leyfa og árlega sækja allt að 70.000 einstaklingar vinnu í öðru norrænu landi en þeir búa í.

Gott fordæmi Norðurlandaþjóðanna

Afmælisráðstefna í HörpuEygló Harðardóttir, félags- og húsnæðisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda, flutti opnunarávarp ráðstefnunnar í gær og ræddi meðal annars um áherslur Íslands á sviði vinnumarkaðsmála árið 2014, þar sem Ísland fer með formennsku norræna samstarfsins. Hún fjallaði einnig um breytingar sem orðið hafa á samstarfinu í tengslum við aðild Norðurlandaþjóðanna að Evrópska efnahagssvæðinu og Evrópusambandinu og sagði meðal annars: „Þótt aðild okkar að evrópsku samstarfi hafi valdið breytingum á norrænu samstarfi og dregið úr möguleikum á sértækum samningum milli norðurlandaþjóðanna þarf það alls ekki að vera slæmt. Okkar samstarf stendur á gömlum merg, við höfum reynslu og við höfum þekkingu á sameiginlegum vinnumarkaði og getum því miklu miðlað til annarra þjóða. Við höfum skapað gott fordæmi og getum haft áhrif á þróun þessara mála í Evrópu allri sem hin skínandi leiðarstjarna. Við höfum að ýmsu leyti sérstöðu sem gerir norræna vinnumarkaðinn sterkan, eftirsóknarverðan og áhugaverðan í augum annarra þjóða. Þar vil ég sérstaklega nefna hátt atvinnustig, mikla atvinnuþátttöku kvenna og eins að við stöndum framarlega á sviði vinnuverndar og vinnuumhverfismála svo eitthvað sé nefnt.“

Að loknu ávarpi Eyglóar Harðardóttur fjallaði Vesa Vihrälä, framkvæmdastjóri ETLA (rannsóknarstofu atvinnulífsins) í Finnlandi, um viðfangsefni norræna velferðarlíkansins og að því búnu voru pallborðsumræður með þátttöku fulltrúa aðila vinnumarkaðarins og norrænum þingmönnum.

Eftir hádegi tóku ráðstefnugestir þátt í vinnufundum þar sem fjallað var um atvinnuleysi ungs fólks, viðfangsefni hnattvæðingar, frjálsa för innan Norðurlandanna og opinbera þjónustu við atvinnulausa á Norðurlöndunum. Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, flutti ávarp við lok ráðstefnunnar síðdegis, að því búnu gafst gestum kostur á að heimsækja fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu og að lokum var ráðstefnunni slitið með samverustund í Listasafni Reykjavíkur.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira