Hoppa yfir valmynd
23. ágúst 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 358/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 23. ágúst 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 358/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18060024

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 12. júní 2018 kærði einstaklingur sem kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 23. maí 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Finnlands.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn kæranda til efnislegrar meðferðar hér á landi með vísan til 2. og 3. mgr. 36. gr., sbr. 42. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 29. desember 2017. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum þann sama dag kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Finnlandi. Þann 4. janúar 2018 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Finnlandi, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Þann 8. janúar 2018 barst svar frá finnskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 23. maí 2018 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Finnlands. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 29. maí 2018 og kærði kærandi ákvörðunina þann 12. júní 2018 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 20. júní 2018 ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Finnlands. Flutningur kæranda til Finnlands fæli ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. og 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar aðstæður væru fyrir hendi þannig að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi var ekki talinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hans. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Finnlands, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæra frestaði réttaráhrifum, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann vilji ekki vera sendur aftur til Finnlands og að hann óttist að vera áframsendur þaðan til heimaríkis. Kærandi bendir m.a. á í greinargerð sinni að hann hafi verið í tæp tvö ár í Finnlandi og lent í miklum vanda þar. Finnsk stjórnvöld hafi þrýst á hann að yfirgefa landið. Hann hafi dvalið í 11 mánuði í flóttamannabúðum á einangruðum stað sem hafi verið eins og fangelsi að mörgu leyti. Þar hafi hann búið í litlu herbergi, fengið lítinn mat og ekki getað farið neitt þar sem að honum hafi ekki verið gefið samgöngukort eða neitt slíkt. Þá hafi verið erfitt að fá atvinnu í Finnlandi enda fái umsækjendur um alþjóðlega vernd ekki tímabundið atvinnuleyfi þar í landi. Kærandi hafi upplifað sig sem betlara í Finnlandi auk þess sem hann kveður að annmarkar hafi verið á málsmeðferð hans hjá finnskum stjórnvöldum. Kærandi tekur fram að hann hafi farið frá Finnlandi í ágúst 2017 til […] þar sem hann hafi sótt um dvalarleyfi þann 9. september 2017. Honum hafi verið synjað um dvalarleyfi þar í desember 2017 og þá hafi hann yfirgefið landið. Hann hafi dvalið í […] í þrjá til fjóra mánuði en eina skjalið sem hann geti lagt fram til sönnunar á dvöl sinni þar í landi sé umsókn hans um dvalarleyfið.

Í greinargerð kæranda lýsir hann aðstæðum sínum í heimaríki og ástæðum þess að hann hafi flúið þaðan. Tekur kærandi fram að hann hafi lent í deilum við ákveðinn stjórnmálaflokk í heimaríki. Honum hafi borist hótanir og í eitt skipti hafi verið ráðist á hann og hann laminn í höfuðið. Kærandi kveður að þau vandamál sem hann hafi lent í í heimaríki, dvöl hans í Finnlandi og sú óvissa sem hann hafi þurft að lifa við hafi haft áhrif á andlega heilsu hans. Þá kveður kærandi að hann þjáist af svefnleysi, hann fái reiðiköst og að stundum komi dagar þar sem hann einangri sig. Þá kveðst kærandi vera með […]. Kærandi bendir á að hann hafi verið boðaður í tíma hjá sálfræðingi en hann hafi ekki mætt sökum þess að hann hafi átt boðaðan tíma hjá lögreglunni á sama tíma. Honum hafi verið tjáð að hann fengi nýjan tíma hjá sálfræðingi en að aldrei hafi orðið neitt úr því.

Í greinargerð sinni fjallar kærandi ítarlega um aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd í Finnlandi og vísar m.a. til breytinga á stefnu finnskra stjórnvalda í innflytjendamálum. Finnsk stjórnvöld hafi tekið ákvörðun um að herða skilyrði fyrir alþjóðlegri vernd enn frekar […]. Þá vísar kærandi til þess að umsóknir umsækjenda um alþjóðlega vernd frá […] séu í auknum mæli metnar bersýnilega tilhæfulausar. Vísar kærandi til ýmissa skýrslna mannréttindasamtaka o.fl. til stuðnings þeirri fullyrðingu sinni að aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd í Finnlandi hafi farið versnandi á undanförnum árum. Þá kveði heimildir á um það að í Finnlandi megi finna vaxandi útlendingaandúð og ofbeldi í garð flóttafólks og hælisleitenda.

Kærandi bendir á nýlegar breytingar á reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga og telur m.a. að efni reglugerðarinnar gangi að miklu leyti gegn almennri túlkun og skýringu á útlendingalögum og athugasemdum í greinargerð með frumvarpi sem varð að núgildandi lögum um útlendinga. Reglugerðin gangi þannig að ákveðnu leyti gegn lögmætisreglunni.

Kærandi byggir kröfu sína um að umsókn hans um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar hér á landi á því að uppi séu sérstakar ástæður í máli hans, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið leggi þá skyldu á íslensk stjórnvöld að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá vísar kærandi til þróunar ákvæðisins, lögskýringargagna að baki ákvæðinu og nýlegra úrskurða kærunefndar til stuðnings þeirri fullyrðingu sinni að viðkvæm staða umsækjenda skuli hafa aukið vægi andspænis sjónarmiðum sem tengjast m.a. skilvirkni við meðferð umsókna. Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi borið að kanna sérstaklega einstaklingsbundnar aðstæður hans og þær afleiðingar sem endursending hans til Finnlands geti haft í för með sér. Telur kærandi að af lestri ákvörðunarinnar verði ekki séð að ítarlegt mat hafi verið framkvæmt á einstaklingsbundinni stöðu kæranda í Finnlandi. Með vísan til erfiðrar reynslu kæranda, andlegrar líðan hans, umdeildrar stefnu finnskra yfirvalda hvað varðar málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttamanna, auk þess sem kærandi muni að öllum líkindum verða áframsendur til heimaríkis telur kærandi að uppi séu sérstakar ástæður í máli hans sem skyldi íslensk stjórnvöld til að taka beiðni kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá byggir kærandi kröfu sína á 3. mgr. 36. gr., sbr. 42. gr. laga um útlendinga. Bendir kærandi á að ekki megi senda hann til Finnlands vegna non-refoulement reglu þjóðaréttar og að skv. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga sé óheimilt að senda einstakling til svæðis þar sem ekki sé tryggt að hann verði ekki áframsendur til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir eða er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Bendir kærandi á að í tvö ár hafi finnsk útlendingayfirvöld þrýst á hann að yfirgefa landið og standi hann því frammi fyrir flutningi til heimaríkis verði hann endursendur til Finnlands.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda.

Fyrir liggur í máli þessu að finnsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Finnlands er byggt á því að kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi.

Kærandi kveðst í greinargerð sinni hafa dvalið í […] í þrjá til fjóra mánuði eftir að hann hafi sótt um alþjóðlega vernd í Finnlandi. Í 2. mgr. 19. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar segir að skuldbindingarnar sem um getur í 1. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar skuli falla niður ef aðildarríkið sem ber ábyrgð getur sannað, þegar það er beðið um að taka aftur við umsækjanda eða öðrum einstaklingi eins og um getur í c- eða d-lið 1. mgr. 18. gr., að viðkomandi einstaklingur hafi yfirgefið yfirráðasvæði aðildarríkjanna um a.m.k. þriggja mánaða skeið, nema hann hafi undir höndum gilt dvalarskjal, gefið út af aðildarríkinu sem ber ábyrgð. Framangreint ákvæði felur í sér, samkvæmt orðanna hljóðan, möguleika fyrir aðildarríki til þess að sanna að ábyrgð þess á umsókn um alþjóðlega vernd sé fallin niður fyrir þær sakir að umsækjandi hafi yfirgefið yfirráðasvæði aðildarríkja Dyflinnarreglugerðarinnar. Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun lagði kærandi fram afrit af skjali sem hann kveður að sé umsókn hans um dvalarleyfi í […]. Að mati kærunefndar er skjalið ekki þess eðlis að það sýni fram á samfellda dvöl kæranda utan Schengen-svæðisins í þá þrjá mánuði sem þarf til svo ábyrgð Finnlands teljist niður fallin. Því er það niðurstaða kærunefndar að ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar standi ekki í vegi fyrir því að Finnland verði krafið um að taka við kæranda, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd telur því skilyrði c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Í 32. gr. a-b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í 32. gr. a kemur m.a. fram að með sérstökum ástæðum sé átt við einstaklingsbundnar ástæður er varða umsækjanda sjálfan, aðrar en þær sem myndu að jafnaði rúmast innan 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá er m.a. nefnt í dæmaskyni ef umsækjandi mun eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, ef umsækjandi af sömu ástæður getur vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki og ef umsækjandi glímir við mikil og alvarleg veikindi sem meðferð við er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveður á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið lagt til grundvallar að sú meðferð, sem einstaklingur eigi von á, verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til þess að falla undir 3. gr. sáttmálans. Við það mat verði að horfa til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar og í einhverjum tilvikum kyns, aldurs og heilsufars viðkomandi. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda í viðtökuríki taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli.

Greining á hvort kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu

Kærandi er […], einhleypur og barnlaus karlmaður. Í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 6. mars 2018, kvaðst kærandi vera við góða líkamlega heilsu en að hann væri með […]. Aðspurður um andlega heilsu kvaðst kærandi þreyttur og að vandamál í heimaríki og í Finnlandi hafi haft áhrif á andlega heilsu sína. Þá kvaðst kærandi m.a. hafa glímt við svefnleysi. Hann hafi leitað til sálfræðings í Finnlandi í nokkur skipti og fengið viðeigandi lyf. Í komunótum frá Göngudeild sóttvarna, dags. 15. til 29. janúar 2018 kemur m.a. fram að […]. Þá hafi hann fengið tíma hjá sálfræðingi hér á landi.

Í greinargerð kæranda er tekið fram að kærandi hafi átt bókaðan tíma hjá sálfræðingi þann 28. mars 2018 en kærandi hafi ekki mætt í tímann þar sem hann hafi átt boðaðan tíma hjá lögreglunni á sama tíma. Honum hafi verið tjáð að hann fengi nýjan tíma hjá sálfræðingi en það hafi aldrei orðið neitt úr því. Kærunefnd beindi fyrirspurn til talsmanns kæranda um það hvort að kærandi hefði fengið annan tíma hjá sálfræðingi og ef svo væri hvort frekari gögn lægju fyrir um heilsufar kæranda. Í tölvupósti frá talsmanni kæranda, dags. 13. ágúst 2018, kemur fram að kærandi hefði ekki fengið nýjan tíma hjá sálfræðingi og engin ný gögn lægju því fyrir.

Þrátt fyrir að framburður kæranda beri með sér að hann glími við andlega erfiðleika er það mat kærunefndar að gögn málsins, þ. á m. framlagðar komunótur, beri ekki með sér að heilsufar kæranda sé svo alvarlegt að hann teljist í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður og málsmeðferð í Finnlandi

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Finnlandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • 2017 Country Reports on Human Rights Practices – Finland (United States Department of State, 20. apríl 2018),
  • Administrative Detention of Migrants in the District Court of Helsinki (Law and the Other in Post-Multicultural Europe - University of Helsinki, 2015),
  • Amnesty International Report 2017/18 – Finland (Amnesty International, 22. febrúar 2018),
  • Comments by the UNHCR Regional Representation for Northern Europe on the draft Law Proposal of 15 April 2016 amending the Aliens Act of the Republic of Finland (UN High Commissioner for Refugees, maí 2016),
  • Country Factsheet: Finland 2016 - European Migration Network (European Commission),
  • Freedom in the World – Finland (Freedom House, 28. maí 2018),
  • Report to the Finnish Government on the visit to Finland carried out by the European Committee for the Prevention of Torture and Inhuman or Degrading Treatment or Punishment (CPT) from 22 September to 2 October 2014 (Council of Europe: Committee for the Prevention of Torture, 20. ágúst 2015),
  • Response of the Finnish Government to the report of the European Committee for the Prevention of Torture and Inhuman or Degrading Treatment or Punishment (CPT) on its visit to Finland from 22 September to 2 October 2014 (Council of Europe: Committee for the Prevention of Torture, 6. október 2015),
  • Upplýsingar af heimasíðu finnska félags- og heilbrigðisráðuneytisins (www.stm.fi),
  • Upplýsingar af heimasíðu finnsku útlendingastofnunarinnar (www.migri.fi),
  • Upplýsingar af heimasíðu Refugee Advice Centre (www.pakolaisneuvonta.fi) og
  • Upplýsingar af heimasíðu Rauða krossins í Finnlandi (www.redcross.fi).

Umsækjendur um alþjóðlega vernd sem fengið hafa synjun á umsókn sinni hjá útlendingastofnun Finnlands geta kært niðurstöðuna til stjórnsýsludómstóls. Fái umsækjendur synjun á umsókn sinni hjá stjórnsýsludómstólnum eiga þeir möguleika á því að kæra þá niðurstöðu til æðri stjórnsýsludómstóls að fengnu leyfi þess dómstóls. Fái umsækjendur synjun á umsókn sinni hjá hinum æðri stjórnsýsludómstól eða að ekki fékkst leyfi til að fara með umsóknina fyrir æðri stjórnsýsludómstólinn eiga þeir möguleika á því að leggja fram viðbótarumsókn um alþjóðlega vernd. Jafnframt eiga umsækjendur þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á alþjóðlegri vernd hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem brýtur í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans.

Finnland er aðildarríki Evrópusambandsins og hefur innleitt tilskipanir sambandsins vegna málsmeðferðar og móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd nr. 32/2013 og 33/2013. Samkvæmt ofangreindum gögnum má sjá að ákveðin þjónustuúrræði eru í boði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd í Finnlandi. Umsækjendur eiga til að mynda rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og geta þeir fengið aðstoð við að leita sér aðstoðar vegna heilsufarsvandamála sinna. Þá eiga umsækjendur í Finnlandi rétt á húsnæði, mataraðstoð og vasapeningum, geti þeir ekki framfleytt sér sjálfir. Þá eiga umsækjendur rétt á endurgjaldslausri túlkaþjónustu í viðtölum sínum hjá finnsku útlendingastofnuninni.

Í upplýsingum frá útlendingastofnun Finnlands kemur fram að þeir sem séu endursendir til landsins á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar fari almennt í móttökumiðstöðvar en geti í einhverjum tilfellum sætt varðhaldi. Móttökumiðstöðvarnar séu opnar en varðhald lokað og gildi mismunandi löggjöf um úrræðin. Þeim sem dvelja í móttökumiðstöðvum stendur til boða sama þjónusta og öðrum umsækjendum um alþjóðlega vernd. Í ofangreindum gögnum kemur fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd geta verið settir í varðhald t.d. vegna þess að ekki sé hægt að bera kennsl á viðkomandi, ferðaáætlun sé óljós eða þegar líklegt sé að viðkomandi muni láta sig hverfa til að forðast brottvísun frá landinu. Þá geti umsækjendur sem hafi fengið neikvæða lokaniðurstöðu verið settir í varðhald fyrir brottflutning frá landinu. Varðhaldsmiðstöðvarnar séu reknar og starfræktar af finnsku útlendingastofnuninni og sé ein varðhaldsmiðstöðvanna sérstaklega ætluð viðkvæmum einstaklingum. Þá sé aðgangur að heilbrigðisþjónustu til staðar fyrir einstaklinga í varðhaldi. Varðhald geti varað að jafnaði í nokkra daga til nokkurra vikna en í einstaka tilfellum geti varðhald varað í nokkra mánuði. Skylt sé að leiða umsækjendur fyrir héraðsdóm þar sem dómari ákveði hvort beita eigi varðhaldi. Umsækjandi eigi rétt á löglærðum talsmanni sem gæti hagsmuna hans fyrir dómstólum þar sem fjallað sé um lögmæti varðhaldsins.

Einnig komi fram í ofangreindum gögnum að finnska útlendingastofnunin greini og þjónusti viðkvæma umsækjendur um alþjóðlega vernd og hafi móttaka og þjónusta við viðkvæma einstaklinga verið í þróun undanfarin ár. Starfsfólk móttökumiðstöðva fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd fái sérstaka þjálfun í geðheilbrigðisþjónustu, þ.e. að greina andleg veikindi og bregðast við þeim, og hafi verkferlar verið innleiddir vegna slíkra tilvika. Þá sé starfrækt sérstök móttökumiðstöð fyrir andlega veika umsækjendur um alþjóðlega vernd sem þurfi á sérhæfðri aðstoð að halda. Móttökumiðstöðvarnar í Helsinki, Turku og Oulu hafi komið upp sérstöku móttökukerfi fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd með sérstakar þarfir, þ.e. einstaklinga sem þurfi á auknum stuðningi að halda svo sem vegna heilsufarsvandamála. Í þessu sérstaka móttökukerfi felist m.a. að aukinn fjöldi starfsfólks sé sérfræðimenntaður. Finnska útlendingastofnunin, ásamt félags- og heilbrigðisstarfsmönnum, þjálfi starfsfólk móttökumiðstöðvanna. Umsækjandi um alþjóðlega vernd fái aðeins aðgang að slíkum móttökumiðstöðvum þegar aðstæður séu ekki viðunandi í þeirri móttökumiðstöð sem hann dveljist í. Þær móttökumiðstöðvar sem bjóði upp á aukinn stuðning við umsækjendur séu staðsettar í borgum sem hafi margra ára reynslu af móttöku fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd.

Einstaklingar sem sendir eru til baka á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar geta lagt fram viðbótarumsókn um alþjóðlega vernd í Finnlandi. Við framlagningu slíkrar umsóknar er fyrst tekið til skoðunar hvort ný gögn séu í málinu eða uppi séu nýjar málsástæður sem geti orðið grundvöllur veitingar alþjóðlegrar verndar. Ef ekki eru uppi nýjar málsástæður í málinu er umsóknin að jafnaði ekki metin tæk til meðferðar án þess að nýtt viðtal sé tekið við viðkomandi. Í þeim tilvikum sem uppi eru nýjar málsástæður fer fram viðtal við umsækjanda varðandi aðstæður hans og málið tekið til efnislegrar meðferðar. Umsækjandi á rétt á að áfrýja í báðum tilvikum, þ.e. ákvörðun um að málið sé ekki tækt til efnislegrar meðferðar og efnislegri ákvörðun málsins.

Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér er ljóst að finnsk stjórnvöld uppfylla skyldur sínar varðandi lögfræðiaðstoð við umsækjendur um alþjóðlega vernd skv. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 32/2013 um málsmeðferð við veitingu og afturköllun alþjóðlegrar verndar, sbr. 19. og 20. gr. hennar. Umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á lögfræðiþjónustu við meðferð máls síns hjá finnsku útlendingastofnuninni og á kærustigi. Umsækjendur eiga að sama skapi rétt á þjónustu löglærðra talsmanna í viðtölum sínum hjá útlendingastofnuninni en slík þjónusta er þó ekki endurgjaldslaus nema sérstaklega ríkar ástæður liggi að baki umsókn þeirra eða ef viðkomandi umsækjandi er fylgdarlaust barn. Þá eiga umsækjendur ekki rétt á endurgjaldslausri lögfræðiaðstoð vegna viðbótarumsóknar.

Að mati kærunefndar bera gögn málsins það með sér að stjórnvöld í Finnlandi veiti fullnægjandi vernd gegn brottvísun umsækjenda um alþjóðlega vernd til landa þar sem einstaklingar eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum og lífi þeirra eða frelsi ógnað (non-refoulement). Er þá sérstaklega litið til þess að þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda til þess að málsmeðferð finnskra yfirvalda sé nægilega vönduð og veiti umsækjendum um alþjóðlega vernd viðunandi úrræði til að leita réttar síns auk þess að einstaklingsbundið mat sé lagt á aðstæður þeirra. Ekkert bendir til þess að […] umsækjendum sé synjað sjálfkrafa um alþjóðlega vernd í Finnlandi eða þeir endursendir til heimaríkis án þess að leyst sé úr málum þeirra á einstaklingsgrundvelli.

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Finnlandi hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending kæranda þangað brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að kæranda séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Finnlandi bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Enn fremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Finnlands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Áður hefur verið greint frá aðstæðum kæranda. Að mati kærunefndar bera gögn málsins ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að kærandi geti af sömu ástæðu vænst þess að staða hans verði verulega síðri en almennings í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þá telur kærunefnd að gögn málsins bendi ekki til þess að kærandi glími við mikil og alvarleg veikindi sem meðferð er aðgengileg við hér á landi en ekki í viðtökuríki. Þá sé ekki fyrir hendi ástæða í máli kæranda er varðar heilsufar hans sem sé svo einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði framhjá henni litið, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Einnig telur kærunefnd að af þeim gögnum sem nefndin hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í Finnlandi megi ráða að umsækjendur um alþjóðlega vernd hafi aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og er það mat kærunefndar að kærandi komi til með að hafa aðgang að fullnægjandi heilbrigðisþjónustu þar í landi.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 6. mars 2018 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 29. desember 2017.

Vegna athugasemdar í greinargerð tekur kærunefnd fram að aðstæður kæranda eru ekki sambærilegar aðstæðum sem fjallað var um í úrskurðum kærunefndar nr. 550/2017 og 552/2017 frá 10. október 2017 og úrskurðum nr. 583/2017 og 586/2017 frá 24. október sl. Í því sambandi vísar kærunefnd einkum til viðtökuríkis og stöðu umsækjenda, en umræddir úrskurðir vörðuðu einstaklinga með alþjóðlega vernd í Búlgaríu og Ungverjalandi.

Gildistaka breytinga á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017

Með reglugerð nr. 276/2018, sem tók gildi 14. mars 2018, voru gerðar breytingar á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017. Að mati kærunefndar verður ekki litið svo á að setning reglugerðarinnar gangi gegn almennri túlkun og skýringu á lögum um útlendinga að því er varðar aukna áherslu á mikilvægi samvinnu aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins enda sé ljóst að vilji löggjafans hafi staðið til þess að slíkt samstarf hefði vægi við beitingu 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Frávísun

Kærandi kom hingað til lands þann 29. desember 2017 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi skal fluttur til Finnlands eigi síðar en 6 mánuðum eftir birtingu þessa úrskurðar, sbr. til hliðsjónar 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, nema ákveðið verði að fresta réttaráhrifum úrskurðar þessa að kröfu kæranda, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Í máli þessu hafa finnsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Finnlands með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Anna Tryggvadóttir                                                 Erna Kristín Blöndal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum