Hoppa yfir valmynd
9. nóvember 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Skólinn sé griðarstaður þar sem allir eru öruggir á eigin forsendum

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Laufey Eyjólfsdóttir verðlaunahafi og  Sigrún Edda Eðvarðsdóttir formaður og Hrefna Sigurjónsdóttir framkvæmdastjóri Heimilis og skóla.    - mynd
Laufey Eyjólfsdóttir kennari hlaut í dag hvatningarverðlaun dags gegn einelti. Laufey starfar í Melaskóla og hefur haft umsjón með Olweusarverkefni skólans frá árinu 2004 en með því er unnið gegn einelti og stuðlað að jákvæðum samskiptum. Fagráð eineltismála valdi verðlaunahafa þessa árs úr innsendum tilnefningum, en þetta var í fyrsta sinn sem sá háttur var hafður á.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra afhenti Laufeyju verðlaunin:
„Það er viðvarandi verkefni sem allir þurfa að vera vakandi fyrir að vinna gegn neikvæðum samskiptum og einelti. Fólk eins og verðlaunahafi dagsins, eru ómetanlegir drifkraftar og fyrirmyndir í þeirri baráttu. Ég óska Laufeyju hjartanlega til hamingju með þessa útnefningu og telst þess fullviss að þau verða henni, og öllum sem hana þekkja, frekari innblástur. Þau margfeldisáhrif sem eldhugar eins og Laufey geta haft í gegnum skólastarf eru dýrmæt, veganesti góðra og uppbyggilegra samskipta nýtast okkur allt lífið, og bæta samfélagið okkar í heild sinni.“

Úr umsögn fagráðs eineltismála:
„Fagráði sýnist sem að Laufey sé einmitt einstaklingur með hjartað á réttum stað, sé með næmt auga fyrir því sem betur má fara í samskiptum og ómetanlegur drifkraftur í svo stórum skóla sem Melaskóli er … Ekki er úr vegi að grípa niður í orð sem fram koma í einni af tilnefningunum: „…Hún er einfaldlega alltaf til staðar … þessi elja hennar og staðfesta hefur skipt sköpum í því að bæta líðan nemenda við skólann. Gera skólann að griðarstað þar sem allir eiga að fá að vera öruggir, á sínum forsendum og ánægðir með sjálfa sig eins og þeir eru ….”“

Samtökin Heimili og skóli hafa veg og vanda að hvatningarverðlaununum fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytisins og skipuleggja hátíðarhöld Dags gegn einelti sem jafnan er haldinn hátíðlegur ár hvert þann 8. nóvember. Af því tilefni var í ár frumsýnt hvatningarmyndband sem nálgast má hér.


Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum