Hoppa yfir valmynd
25. maí 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Almannatryggingar á Norðurlöndunum - áskoranir eftir Covid 19

Norræna almannatryggingamótið verður haldið dagana 26. – 27. maí undir yfirskriftinni Almannatryggingar á Norðurlöndunum – áskoranir eftir Covid 19.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra opnar ráðstefnuna kl. 8.30, miðvikudaginn 26. maí og Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðismálaráðherra slítur henni kl. 12.00, fimmtudaginn 27. maí.

Norræna almannatryggingamótið  (NSFM) hefur verið haldið á fjögurra ára fresti frá árinu 1935 og er mikilvægur vettvangur allra helstu stofnana sem sinna almanna- og sjúkratryggingum á Norðurlöndunum og til að deila reynslu og þekkingu. Ísland ber ábyrgð á framkvæmdinni nú í ár, en fyrir hönd Íslands eru það Tryggingastofnun, Sjúkratryggingar Íslands  Vinnumálastofnun, heilbrigðisráðuneytið og félagsmálaráðuneytið sem koma að skipulagningunni. Mótið verður að þessu sinni rafrænt vegna aðstæðna í samfélaginu.

Aðalræðumenn á NSFM 2021 eru:

Mark Pearson aðstoðarframkvæmdastjóri vinnumarkaðs- og félagsmála hjá OECD verður með fyrirlestur á ensku á miðvikudeginum sem ber yfirskriftina „Félagsleg vernd eftir Covid“.  Þar ræðir hann meðal annars hvernig Covid 19 hefur hraðað og magnað upp áhrif breytinga sem voru þegar hafnar vegna stafrænnar þróunar, hvað þær munu þýða fyrir vinnumarkað framtíðarinnar og hvaða áskorunum þeim fylgja, t.d. hættan á auknum ójöfnuði.

Árni Páll Árnason, varaframkvæmdastjóri skrifstofu Uppbyggingarsjóðs EES og fyrrv. ráðherra, en hann mun fjalla um skýrslu um norræna velferðarkerfið sem hann vann fyrir norrænu ráðherranefndina og var birt árið 2018. Í skýrslunni er m.a. fjallað um styrkleika norrænnar samvinnu á sviði velferðarmála og settar fram ýmsar tillögur um hvernig hægt sé að styrkja það enn frekar. Hann mun rýna í tillögurnar í ljósi reynslu undanfarinna ára.

Á mótinu verða pallborðsumræður þar sem m.a. verður rætt um áhrif Covid 19 faraldursins á velferðakerfin, framtíðina, vinnumarkaðinn og hvernig sjúkra- og almannatryggingakerfin mæta kröfum framtíðarinnar. Fyrir Íslands hönd taka Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, Gissur Pétursson, ráðuneytisstjóri félagsmálaráðuneytisins og Sigríður Lillý Baldursdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar taka þátt í pallborðsumræðum ráðstefnunnar. Forstjórar og stjórnendur í helstu stofnunum á þessu sviði á hinum norðurlöndunum eru einnig á meðal þátttakenda, svo sem frá NAV í Noregi, Pensionsmyndigheten í Svíþjóð, Kela í Finnlandi og ATP í Danmörku.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum