Hoppa yfir valmynd
9. mars 2009 Utanríkisráðuneytið

Stuðningur við málefni kvenna í alþjóða- og þróunarstarfi íslenskra stjórnvalda

Hjálmar Sigmarsson ásamt samstarfskonum í Sarajevo
Hjalmar_Sigmarsson_asamt_samstarfskonum_i_Sarajevo

Ísland hefur stutt sérstaklega við málefni kvenna, eflingu jafnréttis, fræðslu og stuðning við mæður í sínu alþjóðastarfi og þróunaraðstoð. Fyrir ári síðan setti Ísland sér áætlun varðandi ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi og hefur verið unnið að tíu skilgreindum markmiðum í því sambandi. Áætlunin er til þriggja ára.

Íslensk stjórnvöld eiga mikið og gott samstarf við þær stofnanir SÞ sem vinna að jafnréttismálum og eflingu á frumkvæðisrétti kvenna. Þar á meðal eru Þróunarsjóður SÞ í þágu kvenna (UNIFEM), Barnahjálp SÞ, og Mannfjöldasjóður SÞ. Auk þess styðja stjórnvöld aðgerðaáætlun Alþjóðabankans í jafnréttismálum.

Hlutverk kvenna í friðsamlegri lausn átaka og friðaruppbyggingu mikilvægur áherslupunktur í verkefnavali og skipulagi íslenskrar friðargæslu. Friðargæslan vinnur samkvæmt áðurnefndri framkvæmdaáætlun utanríkisráðuneytisins um konur, frið og öryggi.

Í dag er nær helmingur allra sérfræðinga íslensku friðargæslunnar konur og eru verkefnin mörg hver sérstaklega sniðin að því að bæta stöðu kvenna og stúlkna á átakasvæðum. Þá starfa tveir sérfræðingar í jafnréttismálum með þróunarsjóði kvenna UNIFEM á Balkaskaga og einn í Líberíu.

Samstarfið við UNIFEM á Balkanskaga er lengsta verkefni friðargæslunnar og hefur nú staðið í hart nær áratug. Sú nýlunda varð í samstarfinu að á síðasta ári fór fyrsti karlkyns sérfræðingurinn til starfa hjá UNIFEM. Hjálmar Sigmarsson mannfræðingur starfar á svæðisskrifstofu UNIFEM í Sarajevó höfuðborg Bosníu og Hersegóvínu. Hjálmar segir hér frá helstu verkefnum sínum.

„Ég hóf störf í Bosníu og Hersegóvínu í september 2008 og fer fyrir nýrri skrifstofu UNFEM í Sarajevo. Verkefni UNIFEM í Bosníu og Hersegóvínu eru margskonar, m.a. að koma á framfæri kynja- og jafnréttissjónarmiðum við fjárlagagerð, styrkja þátttöku kvenna í stjórnmálum og að legga baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi lið. Þá framfylgir UNIFEM áætlun SÞ um konur, frið og öryggi, m.a. í samvinnu við Lögregluverkefni Evrópusambandsins og Herdeild Evrópusambandsins í landinu. Markmiðið með þessu verkefni er að hvetja til endurbóta í jafnréttismálum í her- og löggæslusveitum og styðja við þátttöku kvenna og kvennasamtaka í friðarferlum, bæði á sviði stjórnmála og á öðrum félagslegum sviðum."



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum