Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2017 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Mislæg gatnamót Krísuvíkurvegar og Reykjanesbrautar og öryggisaðgerðir á Grindavíkurvegi

Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur falið Vegagerðinni að undirbúa útboð vegna mislægra gatnamóta Krísuvíkurvegar og Reykjanesbrautar. Einnig hefur hann óskað eftir tillögum Vegagerðarinnar um öryggisaðgerðir á Grindavíkurvegi.

Á þessu ári verða lagðar 800 milljónir króna í gerð mislægra gatnamóta Krísuvíkurvegar og Reykjanesbrautar. Vegagerðin hefur þegar hannað verkið og vinnur nú við að ljúka útboðslýsingu. Þá hefur Vegagerðin einnig sótt um framkvæmdaleyfi til Hafnarfjarðarkaupstaðar. Útboðið verður auglýst við fyrsta tækifæri og gert er ráð fyrir að opna megi tilboð síðla febrúarmánuðar. Verklok eru áætluð í nóvember. Með þessum mislægu gatnamótum verður unnt að auka umferðaröryggi til muna.

Þá hefur ráðherra falið Vegagerðinni að leggja fram tillögur um öryggisaðgerðir á Grindavíkurvegi. Vegagerðin mun kanna hvort ráðast megi í aðgerðir á einstökum köflum vegarins og hugsanlega skipta verkinu í áfanga. Meðal annars verður kannað hvort skilja má að akstursstefnur með vegriði í því skyni að auka umferðaröryggi svo og kostnaður við það. Liður í athugun Vegagerðarinnar er athugun á veðurfari og hálkumyndun á einstökum köflum vegarins og könnun á því hvort skipta má veginum í kafla með tilliti til umferðaröryggis. Yrði út frá því metið hvernig verkinu yrði hagað.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira