Hoppa yfir valmynd
22. ágúst 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 313/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 22. ágúst 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 313/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19050002

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 2. maí 2019 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. apríl 2019, um að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og lagt verði fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um dvalaleyfi á grundvelli hjúskapar þann 4. október 2017, en kærandi gekk í hjúskap með íslenskum ríkisborgara þann 20. júlí 2017. Með hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. apríl 2019, var umsókn kæranda synjað. Umboðsmanni kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 24. apríl sl. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 2. maí 2019 og barst greinargerð kæranda þann sama dag. Með tölvupósti þann 19. júní 2019 var óskað eftir frekari gögnum varðandi samskipti kæranda og maka hans á samfélagsmiðlum. Þann 26. júní 2019 barst tölvupóstur frá lögmanni kæranda ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að við vinnslu umsóknar kæranda hafi vaknað grunur um að til hjúskapar hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalaleyfis. og hafi Útlendingastofnun sent kæranda bréf þann 19. mars sl. þar sem fram komu þau atriði sem stofnunin taldi benda til þess að hjúskapur kæranda og maka hans væri hugsanlega til málamynda. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var efni bréfsins rakið sem og helstu atriði úr greinargerð kæranda til stofnunarinnar. Fyrir hafi legið í málinu að kærandi sé ekki staddur hér á landi. Vísaði Útlendingastofnun til ákvæðis 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga en þar segi að sé rökstuddur grunur um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis, og ekki sé sýnt fram á annað svo óyggjandi sé, veiti það ekki rétt til dvalarleyfis. Vísaði stofnunin því næst til lögskýringargagna með ákvæðinu. Sé það skilyrði fyrir synjun dvalarleyfis að rökstuddur grunur sé fyrir hendi að um gerning til málamynda sé að ræða.

Í ákvörðun Útlendingastofnun kom m.a. fram að kærandi og maki hans hefðu ekki búið saman fyrir stofnun hjúskapar auk þess sem Útlendingastofnun taldi að þau hefðu lítið þekkst fyrir stofnun hjúskapar. Vísaði stofnunin til þess að maki kæranda hafi greint frá því að þau hafi þekkst takmarkað sem börn en vitað af hvort öðru. Þá hafi stofnunin ekki fundið tengsl milli kæranda og maka á samfélagsmiðlinum Facebook sem sé að mati stofnunarinnar óvenjulegt fyrir fólk sem sé virkt á miðlinum. Útlendingastofnun vakti athygli á því að maki kæranda hafi ferðast víða en aðeins einu sinni ferðast til [...] til að heimsækja kæranda síðan þau gengu í hjúskap. Í þeirri ferð hafi maki kæranda að auki ferðast með vinkonu sinni til [...] og [...] en hún hafi gefið þær skýringar á fjarveru kæranda að hann hafi ekki haft vegabréfsáritun til framangreindra landa. Samkvæmt rannsókn Útlendingastofnunar sé auðvelt fyrir ríkisborgara [...] að afla sér vegabréfsáritun til landanna tveggja. Varðandi athugasemd í greinargerð kæranda til Útlendingastofnunar þess efnis að dýrt sé að ferðast til [...] vísaði stofnunin til þess að ódýrasta fargjaldið telji tæpar 100.000 kr. Ennfremur hafi maki kæranda fengið um 5,5 milljónir kr. frá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. samkvæmt skattframtali. Þá tók stofnunin fram að kærandi eigi þrjá ættingja hér á landi. Einnig liggi fyrir að maki kæranda hafi gengið í hjónaband með kæranda skömmu eftir að hún hafi öðlast ríkisfang hér á landi.

Að öllu framangreindu virtu var það mat Útlendingastofnunar að rökstuddur grunur væri til staðar að til hjúskapar hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla kæranda dvalarleyfis hér á landi og ekki hefði verið sýnt fram á annað svo óyggjandi væri. Var umsókn kæranda því synjað, sbr. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er rakið að hann og maki hans hafi þekkst frá því í barnæsku og hist aftur í [...] árið 2016 þar sem þau hafi fellt hugi saman. Þau hafi haldið sambandi í gegnum veraldarvefinn eftir að maki kæranda hafi farið aftur til Íslands. Árið 2017 hafi kærandi og maki hans ákveðið að ganga í hjónaband einum mánuði eftir 18 ára afmælisdag maka hans. Kærandi byggir á því að rannsókn Útlendingastofnunar sé með öllu ófullnægjandi. Þær ályktanir sem dregnar séu varðandi hjúskap kæranda séu hæpnar og eigi ekki við rök að styðjast. Svo virðist sem rannsókn Útlendingastofnunar hafi einskorðast við skoðun á Facebook reikningi kæranda og maka hans. Kærandi mótmæli því að fjöldi mynda af kæranda og maka hans þar hafi þýðingu við á mat því hvort hjúskapurinn sé til málamynda. Útlendingastofnun og starfsmenn hennar séu ekki vinir kæranda eða maka hans á Facebook og hafi því ekki aðgengi að öllum upplýsingum þar. Þá hafi kærandi framvísað ljósmyndum af sér með maka sínum og fjölskyldu.

Kærandi mótmælir því einnig að grunsamlegt sé að kærandi og maki hans hafi gengið í hjúskap skömmu eftir að maki hans hafi hlotið ríkisborgararétt. Um hreina tilviljun sé að ræða en hins vegar hafi ekki verið tilviljun að þau hafi gengið í hjúskap skömmu eftir 18 ára afmælisdag maka kæranda enda hafi hún þá verið orðin nógu gömul til að mega stofna til hjúskapar, sbr. 7. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Í greinargerð gerir kærandi athugasemd við að Útlendingastofnun telji það til marks um að hjúskapur kæranda sé til málamynda að maki hans hafi ferðast frá [...] til [...] og [...] með vinkonu sinni en ekki kæranda. Maki kæranda hafi bent á að kærandi hafi ekki verið með vegabréfsáritun til þess að ferðast frá [...] til þessara landa. Máli sínu til stuðnings hafi Útlendingastofnun bent á að ríkisborgarar [...] hafi verið undanþegnir vegabréfsáritun til [...] frá og með 21. febrúar 2018 en að mati kæranda segi það ekkert til um hversu erfitt hafi verið fyrir kæranda að fá vegabréfsáritun til [...] enda liggi ekki fyrir að Útlendingastofnun hafi rannsakað það sérstaklega. Kærandi mótmælir framangreindu og áréttar að það segi ekkert um gæði hjúskapar kæranda að maki hans megi ferðast án hans.

Ennfremur gerir kærandi athugasemd við þá ályktun Útlendingastofnunar að það sé til marks um að hjúskapur hans sé til málamynda að maki kæranda hafi aðeins einu sinni heimsótt hann til [...] frá því að þau hafi gengið í hjúskap árið 2017. Maki kæranda hafi bent á að hún sé með takmarkaðar tekjur enda aðeins í hlutastarfi meðfram námi. Þá hafi ekki verið ástæða fyrir maka kæranda til að eyða verulegum hluta takmarkaðra fjármuna sinna til að heimsækja kæranda til [...] á sama tíma og þau hafi verið að sækja um dvalarleyfi fyrir kæranda. Fjárhagur kæranda og maka hans sé ekki með þeim hætti að þau gætu bæði keypt flugfar fyrir maka hans til [...] og síðan fyrir kæranda til Íslands skömmu síðar. Að öllu framangreindu virtu séu engar aðstæður uppi í málinu sem gefi tilefni til þeirrar ályktunar að rökstuddur grunur sé til staðar um að til hjúskapar kæranda sé stofnað í því skyni að afla honum dvalarleyfis. Samkvæmt framansögðu sé það ljóst að synjun Útlendingastofnunar um dvalarleyfi fyrir kæranda brjóti gegn rétti hans og maka til friðhelgi einkalífs og fjölskyldu sem verndaður sé í 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Kærandi vísar ennfremur til fyrri greinargerðar sinnar sem og andmæla í málinu. Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og lagt fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 70. gr. laga um útlendinga er kveðið á um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar. Í 1. málsl. 8. mgr. 70. gr. segir að sé rökstuddur grunur um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi til að afla dvalarleyfis og ekki sé sýnt fram á annað svo að óyggjandi sé veiti það þá ekki rétt til dvalarleyfis. Í athugasemdum sem fylgdu 70. gr. frumvarps þess er varð að lögum um útlendinga er fjallað um ýmis sjónarmið sem geta komið til skoðunar við mat á því hvort stofnað er til hjúskapar í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis. Þar kemur m.a. fram að líta beri til þess hvort aðilar hafi búið saman fyrir stofnun hjúskapar, aldursmunar, hvort þeir tali tungumál hvor annars, þekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvor annars og hjúskaparsögu viðkomandi maka og hvort hún veki grunsemdir hvað þetta varðar. Við mat á aðstæðum sem þessum þurfi þó að taka tillit til þess að mismunur geti verið á milli menningarheima hvað varðar hefðir og aðdraganda hjúskapar og þekkingu hjóna á hvort öðru við upphaf hjúskapar. Þá segir í athugasemdunum að það að aðilar hafi ekki hist áður eða búið saman fyrir stofnun hjúskapar geti ekki verið eini grundvöllur þess að synja um veitingu leyfis á þessum grundvelli heldur verði fleira að koma til sem bendi til þess að um málamyndagerning sé að ræða.

Eins og fram er komið taldi Útlendingastofnun rökstuddan grun um að til hjúskapar kæranda og maka hans hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla kæranda dvalarleyfis hér á landi, sbr. 1. málsl. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Var mat stofnunarinnar m.a. reist á því að kærandi og maki hans hefðu ekki búið saman fyrir stofnun hjúskapar, að stofnunin hefði ekki fundið tengsl á milli kæranda og maka hans á samfélagsmiðlinum Facebook, að maki kæranda hafi aðeins ferðast einu sinni til kæranda eftir stofnun hjúskapar þrátt fyrir ferðalög annað og að maki kæranda hafi gengið í hjúskap með kæranda skömmu eftir að hafa öðlast íslenskt ríkisfang.

Kærandi lagði fram greinargerð við meðferð málsins þar sem fram komu m.a. mótmæli við þau atriði sem Útlendingastofnun byggði synjun umsókn kæranda á. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 4. mars 2019 hafi maki kæranda greint frá því að þau hefðu þekkst frá því í æsku en kynnst betur árið 2016 þegar hún hafi farið til [...] í jarðarför. Þau hafi haldið sambandi í gegnum veraldarvefinn og verið í daglegum samskiptum eftir að þau hafi fellt hugi saman í [...] árið 2016 að sögn maka kæranda. Jafnframt hafi þau hist árlega frá því að sambandið hafi hafist. Maki kæranda þekki fjölskyldu hans og við meðferð málsins voru lagðar fram myndir af kæranda og maka hans ásamt fjölskyldu. Þá lagði kærandi einnig fram myndir af sér og maka sínum, þ. á m. af giftingu þeirra og úr brúðkaupsmyndatöku. Jafnframt lagði kærandi fram hjá kærunefnd umfangsmikil útprent af samskiptum við maka sinn á samskiptamiðlinum Messenger.

Að mati kærunefndar gefa framlögð gögn til kynna að kærandi og maki hans hafi verið í nokkuð reglulegum samskiptum allt frá árinu 2017. Þá benda myndir sem lagðar hafa verið fram til samveru þeirra. Er því að mati nefndarinnar ekki efni til að byggja á þeirri forsendu, sem fram kemur í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda, að gögn málsins gefi til kynna að kærandi og maki hans hafi lítið þekkst fyrir stofnun hjúskapar. Þá tekur kærunefnd ekki undir það sem fram kemur í ákvörðun Útlendingastofnunar að engin tengsl séu milli kæranda og maka hennar á samfélagsmiðlinum Facebook enda hefur athugun nefndarinnar leitt í ljós að kærandi og maki hans hafi átt í sýnilegum samskiptum þar og m.a. líkað við myndir hvort hjá öðru.

Af ákvörðun Útlendingastofnunar má ráða að rökstuddur grunur um að til hjúskapar kæranda hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis sé byggður á því að kærandi hafi gengið í hjúskap um leið og hún hafði öðlast sjálfstæð réttindi, þ.e.a.s. ríkisborgararétt. Að mati kærunefndar getur þetta sjónarmið ekki haft mikið vægi enda hafði maki kæranda á þeim tíma nýlega náð 18 ára aldri en sá aldur veitir einstaklingum ýmis réttindi hér á landi, þ.m.t. almenna heimild til að ganga í hjúskap. Þá tekur kærunefnd undir með kæranda að fjöldi ferða maka kæranda til [...] bendi einn og sér ekki til þess að til hjúskaparins hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis fyrir kæranda.

Ljóst er að kærandi og maki hans eru ung að árum og hafa ekki búið saman. Aftur á móti telur kærunefnd að gögn sem liggja fyrir um samskipti þeirra á milli bendi til þess að þau hafi þekkst og átt í samskiptum um nokkurt skeið áður en þau gengu í hjúskap. Eins og að framan greinir er að öðru leyti að mati kærunefndar ekki fyrir hendi atvik sem vekja grun um að hjúskapur kæranda og maka hans hafi verið til málamynda. Það er því mat kærunefndar að teknu tilliti til fyrirliggjandi gagna að ekki rökstuddur grunur í málinu um að til hjúskapar kæranda og maka hans hafi verið stofnað til að afla dvalarleyfi fyrir kæranda, sbr. 8. gr. 70. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the applicant’s case.

 

Anna Tryggvadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                          Anna Valbjörg Ólafsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum