Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2000 Utanríkisráðuneytið

Nr. 096, 29. nóvember 2000. Utanríkisráðherrafundur Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 096


Utanríkisráðherrafundur Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu var haldinn í Vínarborg 27. - 28. nóvember.

Meginefni fundarins voru málefni Balkanskaga. Einnig var fjallað um málefni er varða átök og deilur í Georgíu, Tjetsníu, Nagorno-Karabakh og Moldovu. Gagnrýni kom fram, einkum á hendur Rússlandi, fyrir að standa ekki við skuldbindingar sem samkomulag hafði náðst um á leiðtogafundi ÖSE í Istanbúl fyrir ári síðan og miðuðu að lausn þessara deilna. Leiddi það til þess að ekki náðist samkomulag um yfirlýsingu ráðherraafundarins, en Austurríki sem gegnir formennsku í Öryggis- og samvinnustofnuninni í ár, gaf út sérstaka yfirlýsingu eftir fundinn.

Samkomulag náðist um yfirlýsingu um málefni Balkanskaga og hlutverk ÖSE í uppbyggingarstarfinu þar. Einnig voru teknar ákvarðanir um framlag stofnunarinnar til baráttunnar gegn útbreiðslu smærri vopna og gegn nútíma mannsali.

Ráðherrarnir samþykktu að skipa Rolf Ekeus, sendiherra frá Svíþjóð, í embætti sérlegs fulltrúa ÖSE fyrir þjóðernisminnihluta.

Á fundinum gerðist Júgóslavía fullgildur aðili að ÖSE og er 55. aðildarríki samtakanna. Öll ríki Evrópu, auk Bandaríkjanna og Kanada, eru þar með aðilar að ÖSE.

Austurríki lætur af formennsku ÖSE í árslok og tekur Rúmenía þá við formennsku í samtökunum.

Í fjarveru utanríkisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, sátu fundinn fyrir Íslands hönd Hjálmar W. Hannesson, skrifstofustjóri alþjóðaskrifstofu utanríkisráðuneytisins og Þórður Ægir Óskarsson, fastafulltrúi Íslands hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu.

Hjálagt fylgir ræða Íslands og yfirlýsing ÖSE um málefni Balkanskaga. Yfirlýsing formennskuríkisins verður birt á vef ÖSE http://www.osce.org.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 28. nóvember 2000.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum