Hoppa yfir valmynd
30. nóvember 2000 Utanríkisráðuneytið

Nr. 097, 30. nóvember 2000. Bann ESB við notkun á fiskimjöli í dýrafóður

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 097


Sendiherra Evrópusambandsins, Gerhard Sabathil, og sendiherrar ríkja Evrópusambandsins í Reykjavík sem flytja inn fiskimjöl frá Íslandi voru í morgun kallaðir á fund í utanríkisráðuneytinu þar sem skýrð var afstaða íslenskra stjórnvalda og hagsmunaaðila til fyrirætlana Evrópsambandsins um að banna notkun á fiskimjöli í dýrafóður. Talsmenn fiskimjölsframleiðenda sátu fundinn og skýrðu sjónarmið sín, m.a. að ekkert benti til þess að notkun fiskimjöls í fóðri gæti valdið kúariðu og því væru engin vísindaleg rök fyrir því að láta bann við mjöli úr beinum og kjötafgangi úr kvikfénaði ná einnig til fiskimjöls. Sendiherrarnir lofuðu að koma sjónarmiðum Íslendinga á framfæri við ríkisstjórnir sínar.

Þá hefur utanríkisráðuneyti falið sendiráðum Íslands í ríkjum Evrópusambandsins að ganga á fund stjórnvalda þar og þrýsta á um að fiskimjöl verði undanþegið yfirvofandi banni.

Gífurlegir hagsmunir eru í húfi þar sem árlegt verðmæti fiskimjölsútflutnings Íslendinga til Evrópusambandsins nemur allt að sjö milljörðum króna.

Fram hefur komið að í tillögu, sem liggur fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, er gert ráð fyrir að fiskimjöl til fiskeldis verði undanþegið banninu en samkvæmt upplýsingum fiskimjölsútflytjenda er það ekki nema tíundi hluti þess fiskimjöls sem Íslendingar flytja út til Evrópusambandsins.




Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 30. nóvember 2000.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum