Hoppa yfir valmynd
29. apríl 2020 Dómsmálaráðuneytið

Breyting vegna Covid-19 getur haft áhrif á um 225 umsækjendur um alþjóðlega vernd

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra á óformlegum fjarfundi ráðherra dómsmála og innanríkismála innan Evrópu - mynd

Dómsmálaráðherra tók þátt í óformlegum fundi ráðherra dómsmála og innanríkismála innan Evrópu þann 28.  apríl, þar sem umræðuefnið var áhrif COVID-19 á innanríkismál og útlendingamál, núverandi áskoranir og hvað sé framundan.

Áhrif á um 90 sem eru með vernd annars staðar

Dómsmálaráðherra greindi frá þeim tímabundnu breytingum sem gerðar hafa verið á afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd vegna Covid-19 og lesa má nánar um hér. Ráðherra sagði þessar breytingar munu fjölga þeim sem fengju hér vernd og gæti mögulega haft áhrif á um 225 einstaklinga, þar af um 90 sem þegar hefðu fengið alþjóðlega vernd annars staðar. Með þessum breytingum sýndi Ísland samstöðu með þeim þjóðum innan Evrópu sem glímdu við mestan þunga í málefnum flóttafólks á þessum tímum.

Áhyggjur af netglæpum, ofbeldi og kynferðisbrotum

Ráðherra greindi einnig frá því að íslensk yfirvöld hefðu orðið þess vör að aukning væri á nettengdri glæpastarfsemi sem rekja mætti til þess ástands sem farsóttin hefði skapað. Lagði ráðherra áherslu á góða samvinnu og miðlun þekkingar milli ríkjanna til að takast á við þessa tegund glæpa. Ráðherra greindi frá sérstökum áhyggjum vegna kynferðismisnotkunar á internetinu. Slíkir glæpir hefðu tilhneigingu til að vera lítt sýnilegir og hvatti hún ríkin til að halda vöku sinni gagnvart því. Einnig þyrfti að halda vöku sinni vegna aukins heimilisofbeldis.

Kvöðum létt í samstarfi

Dómsmálaráðherra sagði frá fækkun tilfella Covid-19 á Íslandi síðustu tvær vikurnar og að núverandi faraldur virtist hafa náð hámarki í byrjun apríl hér á landi. Settar hefðu verið reglur um 14 daga sóttkví allra sem kæmu til landsins og landamæraeftirlit aukið til að fylgja eftir þeim árangri sem náðst hefði í að hemja faraldurinn. Vonandi yrði hægt að létta af slíkum kvöðum sem fyrst með einum eða öðrum hætti í samstarfi við önnur ríki.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum